Misjafn er smekkurinn

Þetta líkar mér betur

Facebook er fín síða. Hún auðveldar samskipti við fjarlæga vini og ættingja, gerir okkur kleift að deila alls kyns fréttum og svona mætti lengi telja, en hún á sér líka neikvæðar hliðar. Á henni er auðvelt að stunda einelti með ljótum athugasemdum, ræningjar fá tækifæri til að finna þægileg fórnarlömb og svona mætti einnig lengi telja. Svo er það fólkið á facebook. Sumt er það gott og sumt er það ekki eins gott. Sumir deila myndum af hamingjusömum börnum, aðrir myndum sem fara alveg með daginn minn!

Þetta eru myndir, sem að mínu mati eru einstaklega ljótar og óviðeigandi á vef fullum af alls kyns fólki; gömlu og ungu, hugrökku og viðkvæmu. Ég er að tala um myndir af dánum og/eða pyntuðum börnum og dýrum.

Ég skil ekki hvað fær fólk til þess að velta þessum tilteknu myndum fyrir sér og ýta svo á „deila“ eða jafnvel „líkar við“, en við það hef ég einnig orðið vör.

Ég fer inn á facebook í sakleysi mínu og hvað blasir við mér? – Jú, hrottaleg mynd af illa leiknum hundi. Ég flýti mér að skrolla niður til þess að þurfa ekki að horfa á hann, en þegar ég fer aftur inn á facebook er hann enn það fyrsta sem ég sé. Ég skrolla aftur, en sé samt að það er greinilega búið að pynta greyið all svakalega og drepa. Nú er þessi mynd stimpluð inn í hausinn á mér – alveg eins og myndin sem gekk um daginn af litlu barni í Afríku sem lá í gröf sinni og svo ótal fleiri myndir sem fólk hefur ákveðið, af einhverri undarlegri ástæðu, að deila með „vinum“ sínum.

Ég get svosem giskað á ástæðu þess að fólk tekur þessa ákvörðun. Því finnst þetta hræðilegt og vill vekja okkur hin til umhugsunar. Persónulega finnst mér það út í hött. Ég veit hversu grimmur og hræðilegur heimurinn er og ef ég gæti, þá myndi ég bjarga öllum þessum dýrum og öllum þessum börnum – en ég get það ekki. Í staðinn sit ég heima, með tárin í augunum, og reyni ekki aðeins að skilja hvernig fólk getur gert svona hræðilega ljótan hlut – heldur líka hvers vegna í ósköpunum þessi „vinur“ minn ákvað að dreifa þessari mynd enn frekar.

Ég geri mér fullkomnlega grein fyrir því að þetta svokallaða vandamál mitt er algjört lúxusvandamál – en ég bara get ekki að því gert, að mér finnst þetta ekki allt í lagi. Ég get alveg sjálfri mér um kennt, myndu flestir segja. Ég get eytt þessu fólki út eða lokað fyrir það. Aðrir myndu segja mér að hætta þessum aulaskap og væli og reyna að fullorðnast, því að svona er heimurinn bara og við eigum ekkert að loka augunum fyrir því. Það breytir því þó ekki, að mig langar ekki að byrja daginn á því að horfa á þessar myndir.

Ég veit alveg hversu ljótur heimurinn er og ég veit alveg hversu grimmt mannkynið er. Ég þarf ekki að sjá sundurlimuð lík og sárþjáðar lífverur til þess að verða að betri manneskju.


- Katrín Eiríksdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir