Mjög heimskur maður -

Við í fjölskyldunni höfum gaman af því að koma saman og taka spilakvöld. Ein uppáhalds jólahefðin hjá okkur er sú að mamma og pabbi gefa okkur systrum alltaf eitt spil saman, svona auka. Yfirleitt vitum við upp á hár hvaða spil það er sem okkur langar í, og erum yfirleitt allar sammála - en það hefur komið fyrir að okkur langi ekki í það sama, og að ákveðnasta dóttirin fái að ráða. 

Svona eins og um árið þegar ég valdi Heilaspuna, systrum mínum til mikillar gleði - eða þannig. 
En á jólunum, sem og öðrum dögum, þá tökum við systur í spil ásamt mökum. Mér finnst ég þurfa að taka það fram að ég vinn yfirleitt, nema þegar það eru liðakeppnir og mágar mínir eða systur draga mig niður með sér. Sönn saga. 

Með árunum höfum við því komið okkur upp ágætis safni af spilum og má þar helst nefna;  Heilaspuna, Trivial Pursuit, Hættuspilið, Party og co., Alias, Friends spilið og eitt árið fengum við Verðbréfaspilið, sem ég held reyndar að sé enn óopnað. - Ég bað ekki um það. 

Í fyrra fengum við svo Fimbulfamb, sem var búið að vera á óskalistanum mínum síðan fyrir einum hundrað árum eða svo, þegar ég spilaði það fyrst. Þá gömlu útgáfuna. 
Það hefur svo ekki verið til í mörg ár, en var endurútgefið árið 2010 mörgum til mikillar gleði. Það er reyndar gríðarlega svipað að uppbyggingu og Heilaspuni, sem var einmitt ástæðan fyrir því að ég bað um það spil upphaflega. 

En nú eigum við bæði - og ég verð bara að segja, að Fimbulfamb er töluvert flóknara en mig minnti! Mun flóknara en eftirhermuútgáfan, svo þrátt fyrir gríðarlega hamingju þegar pakkinn var opnaður, góðan ásetning og margra ára bið.. hefur það spil einungis verið spilað EINU SINNI á fjölskyldumótum. 

Það gæti svo sem líka tengst því að þar sem við erum þrjár systurnar, ganga spilin hring - hver systir fær að hafa þau fram að næsta spilakvöldi fjölskyldunnar, og þá ganga þau áfram.. en ein okkar, nefni engin nöfn - týndi þessu ákveðna spili einmitt í heilt ár, og er það nýfundið - einmitt tímanlega fyrir fjölskyldudinner í kvöld, svo nú verður dustað af því rykið og ég sé fram á að vinna þessa bjána með snilligáfu minni og orðgjálfri. 

Meina, hver veit ekki að Fimbulfamb, þýðir í raun; mjög heimskur maður? 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir