Nærmynd af Bjarna Fritz

Bjarni Fritz í leik með Akureyri

Bjarni Fritzson er 31s árs gamall hornamaður hjá Akureyri handboltafélagi. Hann er að spila sinn annan vetur með félaginu og hefur staðið sig vel. Hann er æddur og uppalinn í Breiðholtinu og hóf handboltaferil sinn með ÍR. Hann er útskrifaður með BS í sálfræði og vinnur nú að lokaverkefni sínu í félags- og vinnusálfræði með handboltanum. Hann er trúlofaður Tinnu og saman eiga þau tvo unga syni. Hann hefur líka verið virkur í samfélagsmálum og er forsvarsmaður hóps sem kallar sig Synir Breiðholts sem vöktu athygli á lélegri umgengni í Breiðholtinu, stóðu fyrir hreinsunarátaki í hverfinu og söfnuðu jólagjöfum fyrir börn sem voru annars ólíkleg til að fá gjafir sökum bágborinnar fjárhagsstöðu fjölskyldunnar. 


Hvernig fannst þér að flytja frá Reykjavík til Akureyrar? Finnst þér mikill munur á sveitarfélögunum? Hvernig gekk aðlögunin?

Mér fannst voða gott að flytja, kósí bara. Við féllum beint inn í handboltasamfélagið og þar af leiðandi var aðlögunin mjög auðveld fyrir okkur. Liðinu gekk líka vel í fyrra, mér gekk vel og allir voru glaðir. Þetta var alls ekki mikið mál. Virkilega góð tilbreyting. Mér fannst líka alveg frábært hvað það var mikill snjór síðasta vetur – það var skemmtilegt að fá að upplifa það aftur. Ég man bara eftir svona miklum snjó síðan ég var lítill. Annars er kannski aðalmunurinn milli sveitarfélaganna auðvitað að fjarlægðirnar milli staða eru mun styttri á Akureyri en í Reykjavík þannig að tíminn nýtist mun betur og er rólegri stemming á Akureyri. Maður hefur meiri tíma með fjölskyldunni osfrv.


Síðasti vetur var ansi góður hjá Akureyri, þið unnuð deildarmeistaratitilinn og framtíðin var björt. Ferðin hefur verið strembnari það sem af er þessum vetri, heldurðu að það sé einhver sérstök ástæða fyrir því?

Já, ég held það. Við erum bara búnir að vera mjög óheppnir með meiðsli. Í fyrra vorum við með mjög þunnskipaðan hóp en vorum heppnir að mjög fáir meiddust. Í ár erum við með jafn þunnskipaðan hóp en virkilega óheppnir með meiðsli. Menn eru að spila tæpir en vonandi getum við náð okkur almennilega í gang eftir áramót. Aðalatriðið núna er að þrauka og missa liðin ekki of langt fram úr okkur.


Þú varst næst markahæstur í deildinni í fyrra með 161 mark, árið þar á undan varstu markahæstur með 149 mörk. Núna ertu með þeim markahæstu í deildinni, hvernig ferðu að þessu? Hver er galdurinn?

Aðalatriðið fyrir mig er að vera stöðugur og það er það sem liðið ætlast til af mér. Ég næ því með því að hugsa vel um mig og halda mér í góðu standi. Svo hef ég líka verið að taka vítaskotin og það hjálpar auðvitað til.


Þú ert búinn að vera að glíma við meiðsl, hvernig er staðan á þeim?

Þetta byrjaði þegar ég reif kálfvöðva í sumar og var frá í rúmar sex vikur. Ég byrjaði að æfa rétt fyrir fyrsta leik og fór strax að æfa á fullu og er kominn með álagsmeiðsl í nárann. Það er endalaust vesen með það en ég tek lengri tíma í upphitanir og teygi vel á til að minnka líkurnar á að þetta rifni upp.


Nú ert þú þriðji elstur í liðinu, ertu eitthvað farinn að hugsa um að hætta?

Ég veit það ekki. Ég byrjaði að spila með meistaraflokki áður en ég fékk bílpróf, hef spilað með honum í 15 ár. Það koma auðvitað tímabil þar sem maður spáir í að fara í eitthvað annað en mér finnst ég eiga margt ógert þannig að ég er ekki tilbúinn til að hætta strax. Á meðan ég er heill, finnst þetta gaman og er í góðu formi þá spila ég bara.


Þú ert svokallaður Pressupenni, en það hefur ekki komið neitt frá þér nýlega. Hverjar eru ástæðurnar fyrir því?

Það er bara af því ég hef ekki haft tíma til að skrifa neitt af viti. Ég get ekki skilað neinu af mér nema ég sé virkilega sáttur við það. En við sjáum til, kannski kemur eitthvað skemmtilegt frá mér á næstunni.


Finnst þér að önnur hverfi ættu að taka hópinn Synir Breiðholts til fyrirmyndar og koma í gang svipaðri starfsemi?

Jaá, það þurfa kannski ekkert að vera skipulagðir hópar heldur ættu íbúarnir að standa saman og vilja halda hverfinu sínu fallegu. Mér finnst sjálfsagt að hverfisbúar standi saman og haldi kannski einn til tvo hreinsunardaga á ári þar sem þeir taka hverfið sitt í gegn eða einbeita sér að einum leikvelli. En að sama skapi þurfa sveitarfélögin að aðstoða íbúana með því að sjá þeim t.d. fyrir málningu, netum í mörk osfrv. Einnig þurfa þau að gefa leyfi fyrir slíku viðhaldi þar sem leiktækin eru þeirra eign.Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir