Naglbítar vaknađir og spila í Hofi 4. febrúar

Mynd: 200.000 Naglbítar

Rokktríóið vinsæla sem hóf göngu sína í Gagnfræðaskóla Akureyrar og lét svo sannarlega til sín taka í tónlistarflóru Íslands, er vaknað.

Naglbítatónleikar eru sjaldgæfir og því óhætt að fullyrða að kvöldið verður frábært og að færri komist að en vilja.

Blaðamaður hafði samband við söngvara og gítarleikara hljómsveitarinnar, Vilhelm Anton Jónsson aka Villa naglbít og spurði hann nokkurra spurninga í tilefni tónleikanna í Hofi þann 4. febrúar.

 

Hvað kemur til að 200.000 naglbítar eru byrjaðir að spila aftur?

Okkur hefur alltaf langað að gera meira. Við höfum hist annað slagið og talið í en ákváðum núna að kíla þetta í gang eftir að hugmyndin um tónleika í Hofi kom upp. Vorum líka orðnir æstir í að gera eitthvað, það var liðinn of langur tími án þess að gera neitt. Þetta brennur í manni.

Tónlistin okkar er vönduð og alltaf viðeigandi, þ.e. við erum ekki að elta neinar tískur. Það verður til þess að við verðum aldrei sjúklega vinsælir eða neitt svona æði í kringum okkur en á móti kemur að þú getur alltaf tekið upp naglbítaplötu og hún hljómar ekki gömul eða rembingsleg. Bara basic rokk og ról.

Eru þetta einu tónleikarnir sem þið eruð með bókaða framundan?

Þetta eru einu tónleikarnir sem er búið að ganga frá. En við höfum fengið fyrirspurnir um fleiri. Við erum ekki búnir að bóka neitt en sumt er meira spennandi en annað. Það er greinilega eftirspurn sem er gott og kitlar hégómann.

En okkur langar að gera meira en við erum ekki tilbúnir að gera hvað sem er. Þetta þarf að vera vandað og flott svo að þeir sem koma fái þetta beint í æð og njóti þess. Ekkert bull.

Verða fleiri á sviði (einhverjir gestir) með ykkur á Hofi?

Við fórum marga hringi í pæling um hvernig við vildum gera tónleikana. En enduðum á því að gera þetta bara eins og við fæddumst. Þrír á sviði. Þetta var búið að fara marga hringi en svo ákváðum við að þessir tónleikar ættu að vera hreint þriggja manna rokk. Þó sviðið og húsið séu stór eigum við ekki í vandræðum með að fylla út í það. Rokkið beint frá bændum.

Eru þið að koma með nýtt efni? Ef svo er hefur tónlistarstefnan ykkar eitthvað breyst?

Við vorum að senda nýtt lag frá okkur um daginn. Það heitir Í mararskauti mjúku og er farið að hljóma talsvert í útvarpi. Ég myndi segja að það væri mjög rökrétt framhald af naglbítum. Svona bara eins og við hefðum farið úr stúdíói yfir helgina og komið aftur á mánudegi og haldið áfram. Enda er þetta lag eins naglbítalegt og hugsast getur. Stórt rokk með miklum texta og sögu. Textinn vísar smá í Jónas Hallgrímsson, hann setti saman orðið mararskaut, held ég örugglega. Sem mér finnst ótrúlega flott orð. Mig langað að nota svona mjúkt og fallegt orð í mjög köldum og hráslagalegum aðstæðum eins og í laginu okkar. Það er eitthvað svo flott þegar andstæður takast á eða þegar maður notar mjúkt fyrir hart og öfugt.

Ég er mjög hrifinn af laginu og það hefur fengið frábærar viðtökur. Sem er mjög gott og gaman fyrir okkur. Því það væri til lítils að vera að senda frá sér efni ef enginn vildi heyra það. Þá værum við bara að æfa fyrir okkur þrjá í góðum gír.

Hvaðan kemur nafn hljómsveitarinnar?

Nafnið kemur úr Atómstöðinni eftir Halldór Laxness. Það var persóna þar sem hét þetta. Hann skrifaði þetta þó aðeins öðruvísi, eða með bókstöfum. Þetta var stríðsgróðamaður sem vildi táldraga hana Uglu. Ekki góður gaur. Sagan er samt skyldulesning eins og allt sem karlinn sendi frá sér. Og fyrst ég er byrjaður að tala um hluti sem ég hef ekkert vit á mæli ég með því að þeir sem nenna ekki að lesa skáldsögur lesi allt sem Jónas Hallgrímsson setti á blað. Það er þjóðararfur.

5 persónulegar:

Myndirðu koma nakin fram fyrir peninga?

Já - ef mér væri boðinn miljarður þá myndi ég gera það og labba hlægjandi í bankann. 

En ef þetta er einhverskonar myndhverfa hjá þér, þá nei ég myndi ekki gera allt fyrir peninga. En að koma nakinn fram er langt frá því versta sem menn geta gert.

Eina með öllu eða eina bera?

Alltaf ein með tómat, sinnep og steiktum. Helst Vals tómatsósu, skil ekki fólk sem notar annað.

Trúir þú á Guð?

Ha ha ha ha ha ha elska svona, beint úr hvernig pylsu viltu yfir í trúir þú á guð?

Já ég geri það. Ég held að trú sé nauðsynleg, sama hvort hún sé á guð, sannleikann, vísindin, Allah, Búddha, náttúruna, sjálfa þig eða bara hvað sem er. En ég geri mjög mikinn greinarmun á trú annarsvegar og trúarbrögðum hinsvegar. Þá er komin stofnun á milli þín og þess sem þú trúir á. Stofnun sem segist vera í betra sambandi við það sem þú trúir á en þú. Þetta á við um allt. Það þarf bara meðalgreindan mann til að átta sig á því að heimurinn lítur lögmálum en er ekki stjórnað eftir einhverjum duttlungum skapara sem er reiður eða glaður eða hvað sem er. 

Stóra spurningin er svo bara hver kom öllu af stað. Minnir að Newton hafi verið á svipuðum slóðum. 

En huggun þarf fólk að finna og réttlætingu og svör þegar ekkert blasir við nema svartnættið eða eitthvað hræðilegt hefur átt sér stað. Þá kýs ég að trúa því að fólk fari á betri stað. Ef ekki læt ég það bara koma mér á óvart.

Veðmálið um tilvist himnaríkis er þannig að aðeins flón myndi veðja gegn því. Því ef forsenda fyrir vist þar er að trúa, munar mig ekkert um að gera það meðan ég er til. Sé það ekki til þá voru þessi nokkur ár sem ég trúði því engin stórkostleg fórn af minni hálfu. Hinsvegar, sé það til og forsenda fyrir vist þar að trúa á það, þá er eilíf vist utan þess mikið að leggja undir fyrir nokkur ár hér af vantrú.

Annars finnst mér mikið vesen fylgja því að blanda trú og rökum saman og hæpið þegar kirkjan ætlar að rökræða sér til réttlætingar. Það getur bara endað á einn veg. En þá kemur líka inn munurinn á trú og trúarbrögðum sem ég nefndi áðan.

Stutt og laggott svar við stórri spurningu finnst mér. Reikna með að þú vitir að ég er heimspekingur og svara svona spurningum ekki bara já eða nei.

Hvaða tónlist kemur þér í gírinn? (þú mátt velja hvaða gírJ)

Ég hlusta mikið á söngleiki og New York pönk. Ég er líka mjög hrifinn af öllum sem gera flotta texta, segja sögur eða nota orðin öðruvísi en maður á að venjast. Vildi óska að hefði verið skikkaður í frönsku í MA og gæti skilið Serge Gainsbourgh. En ég skil Ninu Hagen í staðinn - það er ekkert minna töff.

Ég nota tónlist mjög mikið - hún er ósýnilega höndin í lífinu.

Vandræðalegasta augnablikið?

Þau hafa verið svo mörg. 

En eins og ég get tætt mig í mig fyrir fávitaskap, þá er ég sem betur fer fljótur að gleyma því sem ég geri illa og asnalega. Að minnsta kosti svona flestu.


Miðar á tónleikana fást á: www.midi.is og menningarhus.is


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir