Hver er sanngirnin?

Eitt af því fyrsta sem var innprentað í nemendur á fyrsta ári í félagsvísinda- og lagadeild síðastliðið haust  í öllum fögum var hversu mikilvægt það er að skila verkefnum og ritgerðum á réttum tíma. Ef það dregst þá er viðkomandi nemandi dreginn niður um einn heilan fyrir hvern dag sem hann ekki skilar verkefni.

Ég skil mjög vel að kennarar verði að hafa eitthvað sem þeir geta notað til að halda nemendum við efnið og fengið þá til að skila verkefnum á réttum tíma og allt gott um það að segja. Það sem ég hins vegar ekki skil er það hvernig kennarar geti ætlast til að nemendur beri virðingu fyrir verkefnunum og því sem kennararnir eru að kenna þegar ekkert er gert með frestinn sem kennarar hafa á skilum,  þá sérstaklega skilum á úrlausnum úr prófum til nemenda. Og þess vegna spyr ég hver er sanngirnin í því að kennarar geta dregið nemendur niður ef þeir skila ekki á réttum tíma en gera svo ekki mikið með þann skilafrest sem þeir hafa samkvæmt reglum deildarinnar?  

Það skiptir nemanda sem er að leggja mikla vinnu í námið að fá að vita hvar hann stendur og hvort/hvað það er sem betur má fara. Þannig að biðin sem kennarar setja oft á nemendur eftir úrlausnum getur haft mjög truflandi áhrif á það sem þeir eru að gera. Ég tala nú ekki um ef það er verið að bíða eftir einu prófi í einhverju ákveðnu fagi og það er ekkert komið úr því áður en farið er í það næsta (þegar um símat er að ræða) og ekki einu sinni tölvupóstur eða tilkynning um seinkun á úrlausnum.

 

Ekki geta nemendur dregið kennara niður um einn í einkunn og ekki hefur verið nóg að senda þeim tölvupóst því þeim er ekki alltaf svarað þannig að spurningin er hvað er til ráða? Ég hef mikið hugsað um þetta og það er afskaplega fátt sem mér dettur í hug sem hugsanlega gæti virkað til þess að kennarar fari að virða þennan frest sem þeir hafa.

 

Að sjálfsögðu á þetta ekki við um alla kennara, margir hverjir eru mjög duglegir að skila bæði verkefnum og úrlausnum úr prófum og tek ég að ofan fyrir þeim. Ég skora hins vegar á hina að bera virðingu fyrir verkefnum og þeim tíma sem nemendur leggja í vinnu sína, ef þeir gera það ekki geta þeir varla ætlast til að eignast virðingu nemenda og fyrir alla muni að láta frá sér heyra ef það er seinkun á einkunnum því það sýnir allavega að vinnan skiptir máli sem báðir aðilar eru að leggja á sig.

 

Monika Margrét Stefánsdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir