Listaspíra með gamlar rætur eða menningarviti !

Valdís, lengst til hægri, ásamt starfsmönnum Listasumars 2007

Valdís Viðarsdóttir er viðmælandi Landpóstsins þessa vikuna.  Valdís hefur undanfarin ár séð um Menningarmiðstöð Akureyrar með aðstoðu í hinu fornfræga Ketilhúsi í Listagilinu á Akureyri.  Fyrirrennari Mennigarmiðstöðvarinnar var Gilfélagið sem er félagskapur list og menningarunnenda á Akureyri og á sá félagskapur stóran þátt í því að Listagilið tók þeim hamskiptum sem við njótum góðs af í dag.

Eitt af stærri verkum í umsjón Valdísar er Listasumar Akureyrar sem haldið var í 15 sinn nú 2007.  Listasumar er stærsta menningarhátíð hér á landi og spannar 10 vikur þar sem boðið er uppá tónleika og myndlist í bland við ýmsa aðra viðburði.  Lokahátíðin er svo Akureyrarvaka þar sem bæjarbúar taka nú flestir þátt og fylla bæinn.  Af  öðru sem Valdís leggur hönd á má nefna Sjónlistahátíðina, Jónsmessuleika og umsjón með safnahúsunum þeirra Davíðs og Matthíasar.

Undirbúningur fyrir Listasumar 2008 er þegar hafinn og ef einhver vill vera með tónleika eða myndlistasýningu þá er um að gera að hafa samband og senda inn beiðni á listagil@listagil.is. 

 

 

 

Eftir viðburðaríkt sumar er gott að breyta til og nú situr Valdís á námsmannabekk á Hólum.  Þar leggur hún stund á ferðamálafræði enda gott að næra andann og sálina inn á milli þess sem lagt er endalaust í "púkkið".

Hvernig skilgreinir þú þig? Kona með mörg þúsund ára gamlar rætur sem enn blunda í mínum beinum 

Hver er þinn kjarni? Fædd og uppalin í höfuðborginni með ættfræðileg tengsl við vesturland, vestfirði og austfirði 

Staða: þe. Hjúskapar, búskapar og önnur stöðulýsing: Sérbúi með uppkomna dóttur. Læt mikið til mín taka á vinnumarkaðnum, er frumkvöðull með sérstakan áhuga á menningar- og ferðamálum  

Hvernig er að búa á Akureyri og hvers vegna Akureyri? Oftast gott. Náin tengsl við náttúruna. Maður skiptir sköpum í litlu samfélagi, tekur þátt í uppbyggingunni, sem er gott. Bland af tilviljun, vinartengslum og neyð réð því að Akureyri varð  að mínu heimili.

 

Bakgrunnur: Brilleraði í grunnskólanum, alltaf með 9 og 10 í öllum fögum. Barðist fyrir tilverurétti mínum á þeim árum vegna háralitarins. Fór á svið verslunar- markaðsmála í Ármúlaskóla og þaðan til Danmerkur í verslunarskóla með tölvunarfræði og viðskiptaensku sem höfuðfög og útskrifaðist með ágætiseinkunn. Annars hefur menntun mín litast af þeim störfum sem ég hef unnið hverju sinni, en þau hafa oftar en ekki verið ný af nálinni, þ.e. þau voru ekki til áður en ég skóp þau ásamt og með öðrum.  

Hvernig er starfið – staðan?  Starfið er fyrst og fremst gefandi og skemmtilegt og í stöðugri þróun – svona uppbyggingarstarf sem á sér engann endir. En það getur líka verið vanmetið og ósýnilegt.

Framtíðarárform: Njóta lífsins. Læra meira. Skapa meira. Ferðast meira. Og allt hitt sem ég á eftir að upplifa.

Eftirminnilegur dagur: Fyrir utan daginn sem ég eignaðist dóttur mína, þá var það nú ekki dagur heldur nótt í Suður Ameríku þegar ég ferðaðist langar leiðir til að sjá risa-skjaldbökuklak. Algjörlega ógleymanlegt ævintýri, þar sem ægði saman allt í senn, mikil hætta frá náttúru og dýralífi, hrikalegt erfiði, tár, sviti, ógleði og gífurleg hrifning og ólýsanleg gleði 

Ef þú mættir og gætir farið í tímavél, farið hvert sem er og hitt hvern sem þú vilt – hvert ferðu og með hverjum ertu: Ég mundi gjarna vilja upplifa gömlu Evrópu þegar gyðjutrú ríkti sem hæst fyrir mörg þúsund árum. Ég er með Freyju sem fræðir mig um öfl náttúrunnar og kynnist störfum hofgyðjanna. 

 

Matarboð: hvað er í boði? Hver eldar og hverjir sitja við borðið?  Fjölskylduboð á aðfangadagskvöld. Pabbi og mamma hafa verið að undirbúa beinlausu fuglana (búnir til úr lambalæri) síðustu tvo daga, mamma eldar þá og við systurnar (þrjár) hjálpum til við að fá rétta sósubragðið. Við sitjum 16 til borðs, foreldrar mínir, systur, markar og börn. Þetta er dásamlegasta matarveisla sem ég get hugsað mér

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir