Allur pakkinn hjá Hjálmum á Grćna hattinum um helgina

Hljómsveitin Hjálmar.
Mikil stemmning er fyrir tónleikum Hjálma á Græna hattinum um helgina og allt stefnir í að uppselt verði á báða tónleikana. Landpósturinn náði í hljómsveitarmeðlimi þar sem þeir voru að vinna í hljóðverinu Hljóðrita og spjallaði við Guðmund Kristinn Jónsson, gítarleikara hljómsveitarinnar.

„Það er alltaf gott að koma á Akureyri og spila á Græna hattinum. Tónleikar okkar þarna eru undantekningarlaust vel sóttir og það er greinilegt að Hjálmar eiga dyggan aðdáendahóp fyrir norðan,“ segir Guðmundur Kristinn Jónsson eða Kiddi Hjálmur eins og hann er oft kallaður.

Hjálmar sendu frá sér plötuna IV í fyrra haust og hafa verið duglegir að fylgja henni eftir. „Við höfum verið að fylgja eftir nýju plötunni okkar, IV, sem kom út í september og höfum spilað töluvert mikið síðustu mánuði,“ segir Kiddi. Platan fékk gríðarlega góðar viðtökur og hafa lög eins og Manstu, Það sýnir sig og Taktu þessa trommu verið vinsæl á öldum ljósvakans. Þrátt fyrir að ekki sé langt frá því að síðasta plata kom út er næsta plata komin í vinnslu. „Svo erum við byrjaðir að huga að næstu plötu og erum einmitt í dag staddir í Hljóðrita að taka upp,“ segir Kiddi og bætir við að það jafnvel von á nýju efni frá hljómsveitinni á þessu ári. „Það er spurning. Við erum í alls konar tilraunum þessa dagana. Við höfum gengið með í maganum í einhvern tíma pælingar um að gera dub-plötu sem yrði þá talsvert ólík því sem fólk á að venjast af Hjálmum. Svo eigum við orðið slatta af lögum þannig að það er aldrei að vita hvað gerist. Einn daginn smellur þetta allt saman og plata verður til.“

Tónleikagestir fá nýtt lag að gjöf
Hjálmar eru klárir með nýtt lag sem mun fara í sölu á netinu innan skamms. „Við gefum alltaf út eitt og eitt lag inn á milli og erum t.d. með lag tilbúið núna sem náði ekki inn á síðustu plötu þar sem ekki tókst að hafa tilbúin íslenskan texta. Nú er hann til og við erum að leggja lokahönd á það þannig að það mun fara í sölu á gogoyoko.com á næstu dögum,“ segir Kiddi.  Þeir tónleikagestir sem mæta á Græna hattinn um helgina eiga von á glaðningi. „Við ætlum að bjóða öllum tónleikagestum á Græna hattinum um helgina ókeypis eintak af þessu lagi sem fólk mun þá geta nálgast á tónlistarvefnum gogoyoko.“
Kiddi segir að það sé nóg að gera bæði hér heima og erlendis. „Sumarið er á næsta leiti og við erum að skipuleggja það. Erum að spila á tveimur tónlistarhátíðum í Noregi og hver veit hvort eitthvað meira verði á dagskrá í sumar,“ segir Kiddi. „Einnig erum við að koma okkur upp vefsíðu og það fer töluverð vinna í það verkefni þessa dagana.  Allir erum við svo með ærin verkefni á kantinum, spilum í öðrum hljómsveitum og verkefnum svo já - það er nóg að gera.“

Spenntir fyrir helginni
Eins og áður hefur komið fram eiga Hjálmar sér dyggan aðdáendahóp fyrir norðan og eiga þeir aðdáendur von á veislu á Græna hattinum um helgina. „Það verður allur pakkinn bara. Gamalt og gott ásamt efni af nýju plötunni, IV, og svo er aldrei að vita nema við flytjum lagið sem við ætlum að gefa tónleikagestum,“ segir Kiddi. Fyrir þá sem ekki hafa aldur til að komast á Græna hattinn eða náðu ekki í miða á tónleikana má benda á að Hjálmar spila nokkur lög í Tónastöðinni á Akureyri kl. 14 á laugardaginn.  

Hjálmarnir hlakka til að koma norður og ætla bjóða aðdáendum upp á frábæra tónleika. „Við erum alla veganna spenntir og ætlum að bjóða fólki upp á frábæra tónleika um helgina. Svo er Græni hatturinn með betri tónleikastöðum á landinu og Haukur Tryggvason og hans fólk frábært heim að sækja,“ segir Kiddi að lokum.

vev.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir