Norræna sumarþingið haldið á Akureyri

Kristín Linda Jónsdóttir

Norræna sumarþingið, hin árlega ráðstefna kvenfélagssambanda á Norðurlöndunum verður haldin á Akureyri dagana 19- 22 júní. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni er ,,Fleiri karla í kvennaliðið“ - jafnrétti – heilsa - hannyrðir.

Kvenfélagssamband íslands er gestgjafi þingsins þetta árið en í sambandinu eru um tvöhundruð kvenfélög á Íslandi úr öllum sveitafélögum landsins. Um hundrað konur sækja þingið og eru þær flestar í forsvari fyrir ýmis kvennasamtök á landsvísu í sínu heimalandi, þó býðst almennum félagskonum einnig tækifæri á að koma á þingið. Þetta er því einstakt tækifæri fyrir konur á Norðurlöndum að taka þátt í norrænu samstarfi.


Að þessu tilefni ræddi Landpósturinn við Kristínu Lindu Jónsdóttur, ritstjóra Húsfreyjunnar, tímarits Kvenfélagssambands Íslands. Hún tók við ritstjórn Húsfreyjunnar árið 2003 síðan hefur hún setið á ráðstefnuna nokkrum sinnum fyrir hönd kvenfélagssambands Íslands.


Hvert er markmiðið Norræna sumarþingsins?

Kvenfélagssambandið er aðili að norrænu samstarfi Nordens Kvinneforbund og taka öll norðurlöndin þá í þessu samstarfi. Markmiðið er annarsvegar að auka skilning og tengsl á milli kvennanna í löndunum og hinsvegar að berjast fyrir vissu málefni er varðar hagsmuni fjölskyldna, barna og kvenna á öllum Norðurlöndum samtímis. Á ráðstefnunni miðla löndin á milli sín upplýsingum varðandi þetta tiltekna málefnið, í fyrra var málefnið barátta gegn vændi og mannsali í Danmörku. En á fyrsta þinginu sem ég fór á var verið að vekja athygli á því að það þyrfti að passa börnin fyrir skjánum, bæði fyrir því sem kemur í gegn um sjónvarpssjáinn og tölvuskjáinn. Á þinginu var kynnt fyrir okkur afar áhugavert norrænt verkefni sem heitir barnavaktin. Það er stór hópur fullorðinna sjálfboðaliða, sem sér um að hafa samband við sjónvarpsstöðvar ef þau verða vör við efni sem er ekki við hæfi barna. Það er að segja ef efnið er ekki merkt sem slíkt efni eða sýnt á þeim tíma sem börn geta verið að horfa á sjónvarpið .


Hvernig er dagskráin á þinginu?

Landið sem heldur ráðstefnuna stendur að mestu leyti fyrir fræðslu erindunum og fyrirlestrunum sem haldnir eru, svo eru umræður á eftir hverju erindi. Svona dagskrá er allan daginn í tvo daga en einn dag er nokkurskonar landkynningardagur fyrir landið sem ráðstefnan er haldin í, þar sem náttúra og sögulegir staðir eru skoðaðir. Í ár er ætlunin að fara með konurnar hringinn í Þingeyjarsýslu, skoða Laxárvirkjun, Grenjaðarstað, Goðafoss, Mývatnssveit og fara í jarðböðin. Þá blandast konur í rúturnar frá öllum Norðurlöndunum og spjalla saman.


Á hvaða tungumáli talið þið saman?

Við ,,prata“ á skandinavisku, það er mjög hart gengið á eftir því að við tölum skandinavísku sem reynist konunum frá Finnlandi og Íslandi býstna erfitt. Svo þegar maður hittir finnska konu þá segir maður ,,Já ok let´s talk English“. Konurnar frá Noregi, Danmörku og Svíþjóð eiga mjög auðvelt með að skilja hvor aðra, en finnskan er svo ólík hinum norðurlandamálunum. Konurnar þaðan eiga líka auðvelt með að tala ensku, því að þær eru vanar að hafa samskipti við nágrana sína á því tungumáli, líkt og við íslensku konurnar.


Til hvaða landa hefur þú farið á ráðstefnuna?

Ég hef farið til Noregs, Svíþjóðar og Finnlands á Norrænt sumarþing og það er þannig að eitt síðdegi og fram á kvöld þá bjóða konurnar í heimalandinu hinum konunum heim til sín. Það er alveg frábært tækifæri sem manni gefst ekki sem almennum ferðamanni að setjast við eldhúsborðið í kvöldverðinn og vera með fjölskyldunni fram á kvöld og er alveg einstök upplifun.


Ertu búin að eignast einhverjar góðar vinkonur í gegn um þessa ráðstefnu?

Já ég hef haldið sambandi við tvær finnskar konur. Tarú og Mary Britt sem er eins og nafnið gefur til kinna frá sænskumælandi hluta Finnlands, hún er ritstóri Mörtublaðsins í Finnlandi og er á sama aldri og ég.


Svo þið talið saman á Ensku?

Já það gerum við.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir