Nú er frost á Fróni

Embla Eir Oddsdóttir.
Norðurslóðanet Íslands er vettvangur fyrirtækja, stofnana og annarra hagsmunaaðila sem starfa að norðurslóðamálum. Markmið verkefnisins er að gera málefni norðurslóða sýnilegri hér á landi, safna miðlægt upplýsingum um þá sem að þessum málum starfa og verkefni þeirra, og gera þær aðgengilegri. Einfaldara og betra aðgengi að upplýsingum mun styrkja frekar við norðurslóðastarf á Íslandi.

Auka þarf skilning á starfsemi þeirra sem koma að verkefninu og upplýsa fólk um þá þekkingu og reynslu sem hefur skapast hér á undanförnum árum. Veita þarf einnig ráðgjöf og leiðbeiningar þeim sem til Norðurslóðanetsins leita. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri og formaður stjórnar Norðurslóðanets Íslands undirrituðu samninginn. Sá samningur kveður meðal annars á um samskipti og fjárveitingar til verkefnisins. 

Samkvæmt Emblu Eir Oddsdóttur, forstöðukonu Norðurslóðanets Íslands, kveður samningurinn á um að veittar verði 20 milljónir króna á ári í þrjú ár til verkefnisins. Núverandi aðilar verkefnisins eru allir staðsettir á Akureyri eða með sína fulltrúa þar, en unnið verður jöfnum höndum að því að fá margvíslega þátttakendur til samstarfs hvaðanæva af landinu. Megin tilgangurinn er að styðja við samstarf sem fyrir hendi er og efla til nýs eftir því sem við á. Veita jafnframt athygli á þeirri miklu þekkingu og reynslu sem til er, nú þegar umræða um breytingar og aukin umsvif á norðurslóðum verður meira áberandi. Upplýsingar um þau margvíslegu málefni sem svæðinu tengjast verða lykilatriði og mun Norðurslóðanet Íslands svara þeirri þörf.

Össur Skarphéðinsson sagði á formlegri opnun Norðurslóðanets Íslands að verkefnið muni enn frekar styrkja stöðu Akureyrar sem miðstöð norðurslóða á Íslandi. Jafnframt að til þess að hægt verði að sinna þessum málefnum þurfi að fjárfesta og auka rannsóknir. ´´Til þess að tekið sé mark á Íslandi sem heimskautaþjóð þarf að hafa frumkvæði, þetta verkefni er partur af því.‘‘ Utanríkisráðherra tilkynnti við sama tækifæri um ráðningu Nataliu Loukachevu í Nansen-prófessorsstöðu við Háskólann á Akureyri, sem hún mun gegna næsta árið. Natalia er á meðal helstu sérfræðinga í málefnum norðurslóða þegar kemur að lögum, stjórnmálum og stjórnsýslu.

Norðurslóðanetið.Norðurslóðanet Íslands nýtur stuðnings Sóknaráætlunar 2020 og hefur undirbúningur verið unnin í góðu samstarfi við Eyþing og Utanríkisráðueytið. Það sem byrjaði sem lítið fræ og hugmynd að sameiginlegum bæklingi hefur undanfarin tvö ár vaxið og dafnað með samvinnu margra sem hafa látið sig dreyma um Norðurslóðamiðstöð á Akureyri. Embla sér fyrir sér að verkefnið verði vettvangur samvinnu á milli opinberra stofnana, rannsóknaraðila, eftirlitsaðila og aðila í einkageiranum. Hún telur það mjög mikilvægt að fá betri yfirsýn yfir norðurslóðamál á Íslandi og er bjartsýn á að vel gangi að ná öllum þessum aðilum saman að einu og sama borðinu. Í dag er í hópnum eitt einkafyrirtæki en unnið verður að því á næstunni að breyta því og fjölga þátttakendum úr einkageiranum.

Frýs í æðum blóð
Norðurslóðastarf á Akureyri á sér nokkuð langa sögu og margvíslegir aðilar sem að því koma. Má þar að nefna rannsóknarstofnanir, menntastofnanir og vinnuhópa Norðurskautsráðsins sem hver fyrir sig hefur mikilvægum og mismunandi hlutverkum að gegna. Þessi fjölbreytni hefur stundum valdið nokkrum ruglingi þar sem ekki þykir alltaf ljóst hver gegnir hvaða hlutverki. Þeir aðilar sem koma að Norðurslóðanetinu í dag eru Háskólinn á Akureyri, Polar Law Institute, Heimskautarréttar stofnunin, Rannsóknar- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri, Rannsóknarþing Norðursins,  Vinnuhópar Norðurskautsráðsins – CAFF & PAME, Rannsóknarmiðstöð Íslands. Rannsóknarmiðstöð ferðamála og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.

Mynd: Linda ÓlafsdóttirStofnun Vilhjálms Stefánssonar er mikilvægur þátttakandi í verkefninu. Hún hóf starfsemi sína árið 1998 í húsnæði Háskólans á Akureyri við Norðurslóð en árið 2004 flutti hún í nýtt og glæsilegt húsnæði á skólalóðinni sem fékk nafnið Borgir. Hlutverk stofnunarinnar, sem heyrir undir Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, er bæði innlent og alþjóðlegt og tekur til rannsókna, upplýsingamiðlunar, ráðgjafar og samvinnu á sviði sjálfbærrar þróunar og umhverfismála á Norðurslóðum. Forstöðumaður stofnunarinnar er Dr. Níels Einarsson.

Annar af tveimur vinnuhópum Norðurskautsráðsins sem staðsettir eru á Borgum er CAFF sem stendur fyrir Conservation of Arctic Flora and Fauna(CAFF). CAFF er sá vinnuhópur Norðurskautsráðsins sem beinir sjónum sínum að verndun lífríkisins á norðurslóðum. Vinnuhópurinn er samstarfsvettvangur þar sem þjóðirnar átta Ísland, Noregur, Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Rússland, Kanada og Bandaríkin, ásamt sex hópum frumbyggja, beita sér saman fyrir verndun og sjálfbærri þróun norðurslóða. Þetta er gert með því að samræma og stuðla að sameiginlegum rannsóknarverkefnum, samræma gögn og miðla þeim niðurstöðum til Norðurskautsráðsins, vísindamanna, alþjóðlegra stofnanna og annarra er láta sig málaflokkinn varða.

CAFF er að venju með fjölda verkefna á sinni könnu, tvö þeirra standa þó upp úr um þessar mundir sem eru Arctic Biodiversity Assessment (ABA) og Circumpolar Biodiversity Monitoring Program (CBMP). Í maí 2013 kemur ABA skýrslan út og er hún afrakstur sjö ára vísindastarfs þar sem yfir 300 vísindamenn og frumbyggjar hafa unnið saman að fyrsta heildstæða matinu á lífríki norðurslóða. Skýrslan er tímamót fyrir CAFF og skiptist hún í vísindaskýrslu,  ráðleggingar varðandi stefnumótun og rit um þekkingu frumbyggja. Niðurstöður skýrslunar munu stýra starfi CAFF næstu árin. Vöktun á lífríki norðurslóða er ábótavant og gjarnan erfitt að bera saman upplýsingar milli þjóða vegna mismunandi aðferðarfræði og/eða gagnavinnslu. CBMP starfar að því að samræma þessa vöktun og tryggja þar að bestu fáanlegar upplýsingar berist með skjótum hætti til ráðamanna. Með þetta að markmiði hefur verið sköpuð áætlun um vöktun lífríkis sjávar og ferskvatns ásamt því sem áætlun um vöktun á landi verður gefin út um mitt sumar. CAFF skrifstofan sinnir fjölbreyttum verkefnum allt frá verkefnastjórnun, stefnumótunar, samskiptum við fjölmiðla og alþjóðastofnanir yfir í umbrot og útgáfu skýrslna.          

 

PAME er hinn vinnuhópur Norðurskautsráðsins sem er staðsettur á Borgum. PAME stendur fyrir Protection of Arctic Marine Environment og var vinnuhópurinn stofnaður árið 1993 en skrifstofan var sett á laggirnar árið 1999.PAME vinnuhópurinn er rekinn með fjárframlögum frá aðildarríkjum, þau eru öll Norðurlöndin, Rússland, Bandaríkin og Kanada. Skrifstofan gefur út leiðbeiningar og fræðslurit svo sem upplýsingar um olíuvinnslu á hafi úti og upplýsingar um flutning á olíu á milli skipa og hafna. Skrifstofan leggur til drög að greinargerðum og umræðugögnum fyrir formann og stjórn. Hún tengir saman verkefnahópa og heldur utan um gögn. Einnig sinnir hún upplýsingaflæði inn á við og út á við með útgáfu skýrslna, fréttabréfa og heimasíðu.Eitt af markmiðum hópsins er að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum og framkvæmdum gegn mengun sjávar.

Mynd: Linda ÓlafsdóttirAðildarlönd Norðurskautsráðsins tengjast hafinu nánum böndum, m.a. með sjávarútvegi, fiskeldi, olíuvinnslu og siglingum. Dýrmætar auðlindir er að finna á hafsvæðum norðurslóða. Þessar auðlindir eru grundvöllur afkomu þess fólks sem þessi svæði byggja, og er því verndun hafsins og strandsvæða þess mikilvægur þáttur í framgöngu sjálfbærar þróunnar á norðurslóðum.Helstu markmið PAME eru að móta þverfaglegt áherslusvið sem eru í eðli sínu svæðisbundin og fást við alþjóðleg vandamál sem einstök ríki geta ekki leyst án hjálpar. Hlutverk vinnuhópsins er að stöðva og/eða draga úr mengun á hafsvæðum Norðurslóða. Það er gert með því að ná fram samræmingu á aðgerðum og framkvæmdum á mengun frá sjó og landstöðvum. Má þar nefna mengun frá skipaumferð, námugreftri, olíuvinnslu, kjarnorkuframleiðslu og hafnarframkvæmdum. Hlutverk hópsins er einnig að varðveita fjölbreytileika lífríkis og vistkerfis hafsvæðanna og stuðla þannig að betra lífi fyrir alla íbúa Norðurheimsskautsins og svæða sem að því liggja. Jafnframt sér hópurinn um að viðhalda og auka sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins á svæðinu.
         
Starfsáætlanir eru gerðar til tveggja ára í senn. Nú er verið að vinna eftir starfsáætlun fyrir tímabilið 2011 til 2013. Helstu áhersluatriði áætlunarinnar eru að auka og bregðast við nýrri þekkingu á hafsvæðinu á norðurslóðum. Á það ekki síst við um siglingar á norðurslóðum og gerð viðmiðunarreglna fyrir olíu- og gasvinnslu á svæðinu. Meta svæðisbundið og alþjóðlegt regluverk á Norðurheimskautinu og hvetja til upptöku og eftirfylgni þess. Að lokum er lögð áhersla á að vinna að þverfaglegu samstarfi og upplýsingaflæði innan og utan Norðurheimskautráðsins, þar sem flestir þeirra koma úr Háskólanum á Akureyri.

Mynd: Linda ÓlafsdóttirKveður kuldaljóð
Á síðustu haustmánuðum tóku nokkur fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu sig saman um 24 mánaða markaðsátak, sérstaklega stílað inn á verkkaupa á Grænlandi. Markaðsátakið gengur undir nafninu Arctic Services. Það var stofnað sem sameiginlegur vettvangur fyrir iðnaðar-og tæknifyrirtæki, rannsóknarstofnanir, verkfræðifyrirtæki, flugrekstur og opinber þjónustufyrirtæki á svæðinu. Elva Gunnlaugsdóttir verkefnastjóri Arctic Services segir áætlun þeirra vera að vekja athygli á Íslandi, sérstaklega Eyjafjarðarsvæðinu, sem ákjósanlegum þjónustukjarna á Norðurslóðum. Nokkur fyrirtæki á svæðinu stunda nú þegar viðskipti við verkkaupa á Grænlandi.  Það gerir Arctic Services auðveldara fyrir að festa sig frekar í sessi sem ákjósanlega þjónustuaðila. “Mikil uppbygging er að fara af stað á Grænlandi.  Til dæmis má nefna byggingu álvera, raforkuvera, námu- og olíuvinnslu. Samhliða þessu fylgir mikil uppbygging á samgöngum, bygging á vinnubúðum og fleiru,” segir Elva. Verkkaupar á Grænlandi eru núna að láta þjónusta sig frá Danmörku, Noregi og Skotlandi.

Viðbrögðin við Arctic Services hafa verið mjög góð síðan átakinu var hleypt af stokkunum. “Það lítur núna út fyrir að hópurinn muni stækka töluvert og mun þar með umfang verkefnisins stækka. Framundan eru sýningar og fundir erlendis og hér heima með verkkaupum og framkvæmdaraðilum á Grænlandi. Gerð kynningarmyndbands fyrir svæðið, vefmarkaðssetning og tengslaöflun,” segir Elva. Markmið Arctic Services er að vekja athygli á Eyjafirði. “Við viljum vekja athygli á því sem svæðið hefur uppá að bjóða og að auðvelda framkvæmdaaðilum á Grænlandi og Norðurslóðum að ná takmarki sínu. Við vonumst til að átakið muni síðan skila sér í verkefnum til þátttakanda í verkefninu,”segir Elva. Spurð um tengingu Arctic Services við Norðurslóðanetið segir hún að engin tenging sé eins og er. “Við höfum verið í samstarfi og höfum rætt um að tengjast betur en það er allt á byrjunarstigi eins og er.  Háskólinn á Akureyri og Akureyrarbær eru þó virkir þátttakendur í Arctic Services líkt og 40 önnur fyrirtæki og stofnanir.”

Kári í jötunmóð
Í framtíðinni þá er hugsunin að geta flétt allt saman, mikilvægt er að leggja áherslu á að tengja norðurslóðaverkefni saman. En þetta er bara fyrsta skrefið, að vinna heimavinnuna, vinna betur samam, reyna að fá fólk til að taka þátt og finna sameiginlega hagsmuni og samstarfsfleti. ´´Það er fólk út um allt land sem er að velta þessum málefnum fyrir sér,‘‘ segir Embla. ´´Spurningin verður hvort þau geta hugsað  sér að vinna með okkur‘‘.

Pia Hansson er forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki við Háskóla Íslands. Þessa dagana vinnur Pia hörðum höndum við að setja upp Norðurslóðasetur Háskóla Íslands. Hún er nýkomin úr heimsókn í Háskólann á Akureyri þar sem hún kynnti sér starfsemi Norðurslóðanetsins.

Pia telur kominn tími til að skapa grundvöll fyrir norðurslóðarannsóknir innan Háskóla Íslands. „Stofnun setursins er liður í hugmyndum innan HÍ um að kortleggja betur hvað er verið að gera í norðurslóðarannsóknum bæði innan skólans jafnt sem annars staðar á landinu. Mikið af rannsóknum hafa verið unnar í tengslum við Norðurslóðamál við Háskóla Íslands. Nú er kominn tími til að byggja einhverja beinagrind í kringum þær rannsóknir,“ segir Pia.

Henni finnst einnig hafa skapast grundvöllur á undanförnum árum fyrir þessari stofnun þar sem málefni tengd Norðurslóðum verða æ sýnilegri. „Þessi málaflokkur er mikilvægur og ekki nóg að einn lítill skóli tileinki sér Norðurslóðanetið hér á landi. Það er kominn tími til að stærsti Háskóli landsins taki einnig virkan þátt í þessum málefnum.“ Pia áréttar að stofnun setursins er ekki hugsuð sem samkeppni við Háskólann á Akureyri heldur sé eindregin vilja beggja aðila að mynda samstarf þeirra á milli.

Háskóli Íslands sækir fjármagn sitt í aldarafmælissjóð skólans og hleypur fjármagnið á 15,5 milljónir á ári til þriggja ára. Pia segir það ekki inni í myndinni að fá styrki frá Utanríkisráðaneytinu. Jónas Gunnar Allansson hjá Utanríkisráðaneytisins er mjög ánægður með það starf sem hefur verið unnið í Háskólanum á Akureyri varðandi Norðurslóðanetið. Hann segir enn fremur að tilkoma Háskóla Íslands að þessum málum komi til með að styrkja þessar rannsóknir og víkka sjóndeildarhringinn. “Það er löngu kominn tími til að fleiri skólar taki þátt í þessu verkefni. Best væri ef Háskóli Reykjavíkur myndi líka ganga til liðs við Norðurslóðanetið,“ segir Jónas að lokum.                                                              

 

Arna G. Norðdahl

Daníel Pálsson

Halla Björg Hallgrímsdóttir

Halla Mjöll Stefánsdóttir

Helgi Freyr Hafþórsson

Þóra Björk Sveinsbjörnsdóttir


Myndir: Linda Ólafsdóttir

            

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir