Ný plata í bígerð

Harmonikkubræðurnir

Það eru fáir sem að eru jafn samrýndir og Tvíburabræðurnir Andri Snær og Bragi Fannar Þorsteinssynir frá Höfn í Hornafirði. Þeir hafa ávallt gert allt saman og eru bæði samstíga í námi, þar sem þeir sitja á skólabekk í stýrimannaskólanum, og spila einnig á sama hljóðfærið, harmonikku. 

Andri Snær og Bragi Fannar byrjuðu að læra á harmonikku aðeins 9 ára gamlir. Í dag eru þeir búnir að vera að læra í 12 ár og eru því orðnir ansi færir á nikkuna. „Afi okkar hafði mikinn áhuga á harmonikkutónlist og við vildum geta spilað fyrir hann og aðra“, sagði Bragi Fannar aðspurður af hverju harmonikkan varð fyrir valinu hjá þeim bræðrum. Þegar þeir byrjuðu að spila á nikkuna aðeins 9 ára gamlir hafði þeim þó ekki dottið í hug hversu langt þeir myndu ná í harmonikkuleik. „Andri fékk þá hugdettu eitt kvöldið að stofna harmonikkubræðurna og við settum upp facebook síðu í kjölfar þess“, sagði Bragi Fannar. Þeir hafa ekki litið um öxl síðan og spila reglulega með þjóðþekktum tónlistarmönnum eða hljómsveitum á borð við Mugison, Nýdönsk, Grétar Örvarsson, Ragga Bjarna, Villa Naglbít, Áhöfninni á Húna og mörgum öðrum frábærum tónlistarmönnum. „Stærsta giggið okkar mun vera þegar við hituðum upp fyrir Nýdönsk í Hörpunni núna fyrir stuttu síðan, það var rosalega gaman og skemmtileg upplifun að spila fyrir svona margt fólk“, segir Andri Snær.

Harmonikkubræðurnir hafa nú þegar gefið út eina plötu en það var jólaplatan Nikkujól. Bræðurnir segjast þó vera með aðra plötu í bígerð en vilja ekkert segja meira um það að svo stöddu. Það verður því spennandi að fylgjast með útgáfu hennar. En stefna bræðurnir á atvinnumennsku í harmonikkuleik? „Ja enginn veit sína framtíð fyrr en öll er, en eitt er víst að nikkan verður alltaf með í farteskinu“, segja bræðurnir samrýndir að vana.

„Við viljum benda fólki að við erum á facebook undir nafninu okkar, Harmonikkubræðurnir“, sögðu þeir Andri Snær og Bragi Fannar að lokum.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir