Ný tæki fyrir myndgreiningardeild FSA

Orri Einarsson skoðar innviði fólks
Blaðamaður landpóstsins frétti af tækjakaupum myndgreiningardeildar FSA og til að fá fréttir af málinu tók blaðamður Orra Einarsson, yfirlækni deildarinnar, tali.

Hvaða tæki eru þetta sem þið eruð að fá?

Orri: Við erum að kaupa nýtt og fullkomið tölvusneiðmyndatæki, sem verður meðal annars notað til kransæðarannsókna sem er nýjung á Akureyri. Það hefur aldrei áður verið hægt að meta kransæðar myndrænt hér. Síðan er ráðgert að kaupa nýtt og fullkomið ómtæki, nýjan stafrænan röntgenbúnað, nýjan og fullkominn beinþéttnimæli og svo fáum við nýjan stafrænan búnað til þess að taka brjósamyndir. Krabbameinsfélagið á búnaðinn en hann verður staðsettur hér. Með tilkomu þess þá verður hægt að senda myndir suður til krabbameinsfélagsins til greiningar, sem er mjög gott þegar um vafatilfelli er að ræða.

Hvaða þýðingu hafa tækin fyrir deilidna?

Orri: Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir deildina að fá nýjan og fullkominn tækjabúnað, það auðveldar greiningu á sjúkdómum og nýtt tölvusneiðmyndatæki gerir okkur kleift að framkvæma rannsóknir sem við höfum ekki geta gert áður eins og kransæðarannskóknir. Einnig verður miklu fljótlegra að framkvæma rannsóknir vegna slysa og áverka. Þar sem tækið er miklu hraðvirkara en eldra tækið þá tekur myndatakan styttri tíma sem er mikill kostur fyrir sjúklinga, sérstaklega eldra fólk og börn. Með tilkomu þessa nýja tækjabúnaðar verður myndgreiningadeild FSA ein best búna myndgreiningardeild á landinu og þótt víða væri leitað. Það má segja að með tilkomu þessara tækja þá sé búið að endurnýja allan tækjakost deildrainnar.

Vorið 2006 var settur upp nýr hugbúnaður bæði sjúklingabókunarkerfi og myndgeymsla á stafrænu formi, sem gerði deildina nánast alveg filmu og pappírslausa. Þessi tækni gerði okkur líka kleift að tengjast fjölmörgum stöðum á norður og austurlandi og hægt er að veita þessum minni stöðum sérfræðiaðstoð í gegnum þennan búnað. Það veitir starfsmönnum mikla ánægju að finna stuðning við þessa starfsemi og eykur faglegan metnað að notast við nýjan og fullkominn tækjabúnað.

Er flókið ferli sem liggur á bak við svona tækjakaup?

Orri: Það var skipuð tækjakaupanefnd, með starfsfólki myndgreiningardeildar, tæknideildar og fjármáladeildar. Þessir aðilar hafa unnið sleitulítið síðan í nóvember 2007 að því að útbúa útboðsgögn, sem er gríðarlega tímafrekt og krefjandi verk. Frá því að byrjað er að semja útboðgsögn og þar til að tækið er komið í hús getur tekið 6-8 mánuði.

Hvað kosta svona tæki og hvar fæst peningur fyrir þeim?

Orri: Tölvusneiðmyndatækið er lang dýrasta tækið og má ætla að kostnaður geti numið 200-250 milljónum. Stafrænn röntgenbúnaður kostar u.þ.b. 30-40 milljónir og ómtækið um 20 milljónir, önnur tæki minna.Stærri tæki eru á seinni árum fjármögnuð með kaupleigusamningi, en minni tæki eru keypt fyrir rekstar- eða gjafafé. Þessi búnaður er gríðarlega flókinn og þar af leiðandi dýr.

Er þetta ný tækni og þarf að ráða fleira fólk í vinnu?

Orri: Þessi nýju tæki eru þróuð uppúr eldri tækjabúnaði þannig að ekki er hægt að tala um að tæknin sé ný, en það er búið að endurbæta vél- og hugbúnað mjög mikið og helst það í hendur við þróun í tölvubúnaði almennt. Þessi nýju tæki krefjast ekki að ráða verði nýtt starfsfólk , en á nýja tövlusneiðmyndatækið verða læknar og geislafræðingar að fá sértæka þjálfun. Það má reikna með að einn eða fleiri læknar verðir sendir erlendis til frekari þjálfunar.

Annar myndgreiningardeildin öllum rannsóknum eða eru biðlistar?

Orri: Í flóknari rannsóknir eru biðlistar en yfirleitt ekki nema nokkrir dagar eða vikur, öllum bráðarannsóknum er þó sinnt jafnóðum. Biðtími hér á FSA er styttri en yfirleitt gengur og gerist á myndgreiningardeildum á öðrum sjúkrahúsum.

Annað sem þig langar að koma á framfæri?

Orri: Þessi tækjakaup eru mikil lyftistöng fyrir deildina. Erfiðlega hefur gengið að fá fagfólk til starfa en vonandi verður auðveldara í framtíðinni að ráða nýtt starfsfólk, bæði lækna og geislafræðinga, þar sem fólk í þessum greinum horfir mjög til þess að vinna með nýjan og fullkominn tækjabúnað.

Blaðamaður Landpóstsins þakkar Orra kærlega fyrir þetta fræðandi spjall, óskar myndgreiningardeildinni alls hins besta í framtíðinni og óskar þeim og Akureyringum öllum til hamingju með nýja tækjabúnaðinn.

Mynd: Elísabet K. Friðriksdóttir 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir