Obb, obb, obb

Merki Sólrisu MÍ eftir Högna Sigurþórsson - Mynd BB

Nú standa yfir Gróskudagar í Menntaskólanum á Ísafirði í tengslum við Sólrisuhátíðina og er mikið um að vera að venju. Leikrit MÍ í ár er Grease og alveg frábær uppsetning hjá þeim. Smiðjudagar eru í dag og fram á föstudag og margt sem krakkarnir geta valið sér til dundurs.

Óneitanlega rifjast upp „mínir“ Gróskudagar, ekki síður skemmtilegir, þó með öðru sniði. Við settum upp leikrit, man ekki lengur höfund eða nafn, en ég lék hest og við skemmtum okkur konunglega, þrátt fyrir frekar „þungt“ stykki, sýndum það meira að segja í „borginni“, sem þá var bær, obb, obb, obb.

Í þá daga voru ekki smiðjur, heldur fengum við lista með fyrirtækjum og stofnunum, víða af á landinu og gátum valið hvar við vildum „starfa“, eða vera í starfsþjálfun á meðan Gróskudagar stóðu yfir. Valdi ég Reykjavíkurflugvöll eitt skiptið og sá mig í anda fljúgandi á milli landshluta, en ég var afskaplega flughrædd og flugveik á þessum árum. Eðlilega var þetta vinsæll vinnustaður og fékk ég „vinnu“ á flugvellinum á Ísafirði, þar sem uppselt var í Reykjavík.

Það var ekki slæmt, við fengum m.a. að fljúga með Herði Guðmunds, hjá Flugfélaginu Erni, um Vestfirði. Bekkjarsystir mín frá Vestmannaeyjum, Vala Bjarnadóttir, hafði verið að læra flug og dóttir flugmanns, fékk að fljúga og lenda vélinni eitt skiptið. Nú var illt í efni, ekki þurfti ég bara að fara um borð í pínulitla vél, sem var eins og fjöður, heldur var bekkjarsystir mín við stýrið, obb, obb, obb.

Flugferðin gekk þó vel, þar til komið var að lendingu að flugturninn kallar eitthvað, sem við skildum ekki. Hörður flugmaður sat pollrólegur við hliðina á Völu, hallar sér að henni og segir „það er betra að setja niður hjólin fyrir lendingu“, ég ætla ekkert að lýsa frekar hvernig líðanin var þegar vélin tekur strikið beint upp í loft rétt fyrir lendingu, auka hring yfir Skutulsfirði og lendir svo farsællega, en ævintýri var þetta.

Annað skipti valdi ég að „vinna“ og kynnast störfum lögreglunnar í Reykjavík, og fékk, obb, obb, obb. Við vorum nokkrar stelpur saman sem fórum og „OMG“ hvað við vorum „grænar“, allavega ég. Fengum að sjá bara allt sem lögreglan fæst við, allt frá glæpamönnum, fangaklefum, líkpokum til fíkniefna og heimilisofbeldis.

Ég ákvað að horfa meira en tjá mig eftir að ég var spurð „hvað er þetta?“ og svaraði „fatakrít“, hvernig í ósköpunum átti ég að þekkja hassmola? Ekki lagaðist það þegar við fórum á skotæfingu með Lögreglufélaginu og allar fengum við að skjóta af byssum á „svona kringlótt blað“. Mér gekk alveg afspyrnu illa og lokaði alltaf augunum, snéri höfðinu frá vopninu og hrökk í kút þegar ég skaut af og hitti ekki einu sinni spjaldið. Með okkur var þáverandi Íslandsmeistari lögreglunnar í skotfimi og sagði hann að ef yrði framið yrði morð á Vestfjörðum með byssu, yrði ég sú síðasta sem leitað yrði að, obb, obb, obb.

Fórum líka á helgarrúnt með löggunni og í hraðamælingar, mikið fannst mér fólk vitlaust. Þegar það var stöðvað grunað um ölvun, voru afsakanirnar, „en ég var að borða vínarbrauð“, „æ, ég var að kyssa kærustuna sem fékk sér aðeins í glas“, „vinur minn hellti yfir mig“ og blessað fólkið stóð varla í lappirnar. Lentum reyndar tvær í skuggalegum hraðamælingum með lögreglunni og voru tveir teknir á 131 km hraða á veginum frá Bláfjöllum. Það atvik varð til þess að tveimur árum seinna fékk ég frítt far suður í vitnaleiðslur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkkur, obb, obb, obb.

Held ég sé búin að hlusta of mikið á RAT fyrirlestra, obb, obb, obb.

Ingbjörg Snorra


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir