Óbeisluð fegurð á Ísafirði

Matthildur Helgadóttir framkvæmdastjóri óbeislaðrar fegurðar á Ísafirði ákvað að veita Landpóstinum viðtal um uppátækið yfir góðum kaffisopa. Óbeislaða fegurðarsamkeppnin fer fram síðasta vetrardag, 18. apríl í félagsheimilinu í Hnífsdal og hefur vakið athygli víða um heim. Þátttakendur í keppninni meiga bæði vera karlmenn og konur sem eru sátt við útlit sitt og koma til dyranna eins og þau eru sköpuð. Það eina sem hamlar því að fólk geti tekið þátt í keppninni eru hvers kyns lýtaaðgerðir og þau þurfa auðvitað að vera komin af barnsaldri. Matthildur segir að í keppni sem þessari teljast útlitseinkenni sem þátttakendur hafa öðlast á lífsleiðinni kostur og má þar telja hrukkur, aukakíló, slit eftir barnsburð, líkamshár og skalla. Og er keppendum vinsamlegast bent á að varast ljósabekki vegna hættu á húðkrabba. Því keppnin hefur heilbrigði í fyrirrúmi og mælir á móti hverskyns fegrunarráðum sem geta haft alvarlegar og óheilbrigðar afleiðingar.

 

   Þegar Matthildur var spurð hvað varð til þess að hrinda slíkri keppni af stað þá stóð ekki á svörum. Hugmyndin fæddist þegar hún las tilkynningu um að keppa ætti um titilinn ungfrú Vestfirðir. Sú frétt olli henni miklum vonbrigðum þar sem keppnin var ekki haldin árið áður og hún hafi hreinlega haldið að slíkt væri farið úr tísku. Hún vildi því mótmæla á einhvern hátt. Eitt kvöldið þegar hún ásamt vinum sínum sat á kaffihúsinu Langa Manga á Ísafirði og reyndu í sameiningu að leysa lífsgátuna og skeggræddu hvernig bjarga mætti heiminum úr alskyns firringu, voru rædd þessi mál. Matthildur var pirruð yfir því að það ætti að narra ungar stúlkur í  fegurðasamkeppni á sínu svæði og fékk hún hljómgrunn vina sinna og fæddist þar hugmyndin um óbeislaða fegurð.

 

1102_037a_120
  

Matthildur hlær stolt þegar hún lýsir því hvernig tilkynningin um keppnina fór fram. Þetta uppátæki átti fyrst að vera einskonar mótmæli, grín og gagnrýni á fáránleika fegurðarsamkeppna í þeirri mynd sem þær eru. Ný vefsíða var smíðuð og hýst hjá Snerpu, www.obeislud.it.is og tilkynning um atburðinn send á RUV og heimablaðið Bæjarins Besta. Fréttirnar stóðu ekki á sér og voru birtar hið fyrsta. Fréttin var lesin í hádegisfréttum RUV og svo aftur klukkan 17 sama dag og birtist fljótt á bb.is. Hún bjóst við því að þetta yrði bara fyndið og myndi lognast út af sjálfu sér. En fyrr en varði gáfu sig fram af sjáfsdáðum þátttakendur í keppnina en voru svo sem á báðum áttum hvort að yrði eitthvað af þessum viðburði eða ekki.

   En heimurinn var tilbúinn. BBC World hafði samband við Matthildi og fór hún í viðtal ásamt Ásthildi Þórðardóttur gegnum hljóðver RUV á Ísafirði. Newstalk á Írlandi tók við þær stöllur viðtal í beinni útsendingu og einnig var viðtal og umfjöllun í Edinborg í Skotlandi. Ástralska stöðin ABC Sidney fylgist vel með stöðu mála. Tímarit eins og The Sun og Daily Mirror hafa einnig sett sig í samband en Matthildur segist nú varla nenna því að spjalla við Daily Mirror því blaðið sé á höttunum eftir slúðri um baðföt og vaxtarlag keppenda í smáatriðum. Kvikmyndafyrirtækið Krummafilm á Íslandi ætlar að gera heimildarmynd um keppnina og hefur bresk sjónvarpsstöð sýnt því áhuga líka.  Uppfrá þessu var sett upp útgáfa af heimasíðunni þeirra á ensku og þar sem Matthildur er framkvæmdastjóri tölvufyrirtækisins Snerpu á Ísafirði þá kíkir hún reglulega á umferðina um síðuna og var nokkuð brugðið í fyrstu því að um fleiri þúsundir heimsókna hafa verið á síðuna og duttu af henni allar dauðar lýs er hún sá umferð frá Japan og Seul.

 

   Þegar Matthildur svarar spurningunni um hvernig eigi svo að dæma í keppni eins og þessari verður hún sposk á svip og glottir út í annað og segir: ,, Það á að mæla þessa fegurð með álíka heimskulegri aðferð og notaðar eru til að mæla tvær mjóar í hinum keppnunum”. Svo bætir hún því við að það sé alls ekki meiningin að gera lítið úr keppendum óbeislaðrar fegurðar heldur eigi að hylla venjulegt fólk sem er fallegt frá náttúrunnar hendi og ánægt með sig og líkama sinn eins og það er. Ekki er talað með neinum öfgum eins og offitu á óheilbrigðu stigi í þessari keppni. Matthildur tekur það fram að rauði þráðurinn í þessari keppni sé að fólk staldri við og hugsi. Útlitskröfurnar sem gerðar eru til ungra kvenna og karla í fegurðarsamkeppnum í dag séu orðnar óraunhæfar og oft hættulegar heilsu þeirra.

1102_035a_120
 

   Aðstandendur Óbeislaðrar fegurðar ásamt Matthildi Helgadóttur eru Eygló Jónsdóttir, Íris Jónsdóttir, Margrét Skúladóttir og Guðmundur Hjaltason. Þau eru ekki í neinni gróðastarfsemi og láta allan ágóða keppninnar renna til Sólstafa sem er nýstofnuð systursamtök Stígamóta á Vestfjörðum. Fyrirtækjum og fjársterkum einstaklíngum er því bent á að hafa samband á netfangið untamedbeuty@untamedbeuty.org og styrkja gott málefni. Eins og fram kemur á heimasíðu óbeislaðrar fegurðar kemur Sunneva Sigurðardóttir einn stofnandi Sólstafa þakklæti á framfæri og segir styrkina meðal annar notaða til að fá ráðgjafa frá Stígamótum vestur til að spjalla við fólk og taka leyndarmálin þeirra með sér burt eins og hún orðar það.

 

 

_____________________________________________________________________

DM

Myndir: Dagrún Matthíasdóttir

Heimildir: Matthildur Helgadóttir og obeislud.it.is


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir