Óþolandi barnið og ráðalausu foreldrarnir

Mynd tekin af síðu child-development-guide

Ég leyfi mér að fullyrða að allir þeir foreldrar sem eiga börn sem greind hafa verið með athyglisbrest og/eða ofvirkni skilja fyrirsögn þessa pistils aðeins of vel. Opinber umræða um þennan málaflokk skýtur upp rótum sínum af og til og á það til að verða ansi kröftug þar sem skoðanir fólks skiptast yfirleitt í raðir þeirra sem skilja, og þeirra sem gera það ekki.

Ég heyri stundum sagt að þeir foreldrar sem hafi tekið þá ákvörðun að reyna að hjálpa börnum sínum með lyfjagjöf séu að velja sér ódýra leið til að takast á við vandamálið. Með breyttu mataræði, reglufestu og eftirfylgni sé hægt að gera ótrúlegustu hluti. Það leikur svo sem enginn vafi á því í huga mínum að í einhverjum tilfellum geti slíkir hlutir gert mikið gagn og ég sé ekkert sem mælir gegn því að prófa öll möguleg ráð sem til eru. Hinsvegar þá trúi ég því staðfastlega að flestir þeir foreldrar sem setja börnin sín á lyf séu að taka slíka ákvörðun að vel ígrunduðu máli og hafi oftar en ekki reynt flest öll trix í bókinni.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig sé að vera barnið sjálft, óþolandi barnið, einstaklingurinn sem ber þessa „röskun“ innra með sér, í mörgum tilfellum allt sitt líf. Að vakna á morgnanna með allt á hornum sér, ná að gera alla fjölskyldumeðlimi brjálaða og enda með því að rjúka út um dyrnar og skella á eftir sér, þrátt fyrir að langa innst inni að borða morgunmat í rólegheitum og fá faðmlag og koss á ennið áður en för í nýjan dag er heitið.

Að sitja í skólastofu og vera búin að pirra samnemendur sína með stríðni og látum þrátt fyrir að langa mest að fá að leika sér með þeim, hlægja og upplifa sig sem hluta af hóp en halda einn heim á leið því hver nennir að vera með óþolandi barninu.

Að mæta andvarpi og sorgmæddum augum foreldra sinna þegar heim er komið því foreldrarnir hafa víst fengið póst frá kennaranum um slæma hegðun þennan dag en svoleiðis dagar eiga það til að vera margir. Vonleysi  foreldranna er stingandi þegar heitasta óskin er að þau séu brosandi að útbúa kaffi fyrir tvo vini sem komu með heim til að leika.

Að upplifa sig sífellt sem óþolandi einstakling sem nái einhverra hluta vegna ekki að gera nokkurn hlut rétt eða staldra við í skamma stund, rétt svo til að hugsa áður en er framkvæmt. Að geta ekki sýnt í raun og veru hvaða einstaklingur býr í brjósti þeirra, einstaklingur sem er ekkert öðruvísi, óþekkari eða meira óþolandi en aðrir.

En ég er engan vegin fær um að vita hverskonar upplifun það er að vera barn í þessum sporum, þeim sporum að vera óþolandi barnið. Ég  vildi að ég gæti sagt það sama um ráðalausa foreldrið. Foreldrið sem elur upp barn í samfélagi sem er byggt upp á félagslegum reglum og samskiptum, eitthvað sem getur reynst afar erfitt fyrir óþolandi börnin að fara eftir. Foreldrið sem tekur andvarpið, finnur kökkinn í hálsinum og berst við tárin þegar barnið kemur grátandi heim úr skólanum dag eftir dag. Foreldrið sem kemst að því að úrræðin fyrir óþolandi börnin í samfélaginu eru afar takmörkuð og áttar sig á því að allt samfélagsskipan gerir að litlu leyti ráð fyrir einstaklingum eins og barninu sínu. Barninu sem kann ekki allar óskrifuðu reglur samfélagsins og verður í framhaldinu örlítið minni partur af því en ella, bara ef það væri nú ekki svona óþolandi.

Já, ég segi það aftur. Ég trúi því staðfastlega að flestir þeir foreldrar sem taka þá ákvörðun í samráði við lækni að setja börnin sín á lyf geri það að vel ígrunduðu máli. Lyfjagjöf er ekki lausn fyrir öll börn og foreldra í þessum sporum en hún getur svo sannarlega verið það fyrir sum. Að sjá barn loksins meðtekið í hóp, koma heim með vini, vinna upp lágar einkunnir og fækkun kvörtunarbréfa í inboxinu gefur svo sannarlega tilefni til þess að leyfa yfirveguðu brosi að læðast fram á meðan sú tilhugsun gerir vart við sig að ráðalausa foreldrið sé jafnvel aðeins minna ráðalaust í dag en í gær.


Ingibjörg Elín Halldórsdóttir


Frekari upplýsingar um ofvirkni með eða án athyglisbrest má finna á eftirfarandi síðu:

http://www.adhd.is/

 

 

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir