Parkinsonsjúklingur góđur fulltrúi fyrir „Ísland á iđi“

Snorri Már í hjólaferđ - Mynd Snorri Már Snorrason
Snorri Már Snorrason, 47 ára umbúðahönnuður ætlar að hjóla hringinn í kringum Ísland í júní 2012. Snorri Már er 75% öryrki með Parkinsonsjúkdóminn staðfestan frá 2004. Hann hefur stundað líkamsþjálfun til að viðhalda starfsorku sinni en hann stundar ennþá sína vinnu í fullu starfshlutfalli hjá prentsmiðjunni Odda. Trygging fyrir því að Snorra Má takist hringferðin er ekki fyrir hendi,  söfnun áheita eru honum því mikilvæg hvatning að klára ferðina.  

Markmið hjólaferðarinnar er að hvetja landsmenn til hreyfingar og vekja fólk til umhugsunar um eigin heilsu og þá möguleika sem bjóðast til líkamsþjálfunar án mikils kostnaðar.  Það er ekki markmiðið að persónugera ferðina, en það að fá langveikan einstakling sem jafnframt er 75% öryrki getur verið fólki bæði hvatning og ögrun  til að gera eitthvað í sínum málum eða halda áfram að stunda sínu reglulegu hreyfingu sem margir gera nú þegar.

Landpósturinn hitti Snorra Má og spurði hann hvað væri þess valdandi að hann ætlaði, 47 ára gamall, öryrki og Parkinsonsjúklingur að hjóla í kringum landið?

Ég hef tekið eftir því að fólk með langvinna sjúkdóma á það til að verða of miklir sjúklingar og gleyma sér í sjúkdómnum sjálfum, gera ekki nóg fyrir sjálfa sig. Eins að þeir sem eiga að heita heilbrigðir eru ekki skömminni skárri.

Maður kemur með sjúkdóminn á heimilið og þetta er líka spurning um að sýna aðstandendum fram á að sjúklingur má reyna meira á sig. Hann þarf ekki að vera í bómull, það er ekki síður gott fyrir aðstandendur að sjá að það er eitthvað eftir af viðkomandi. Þó maður sé með Parkinson, eða aðra álíka sjúkdóma, jafnvel heilbrigður, þá verðum við eins og ryðguð vél ef við hreyfum okkur ekki. Þetta er öllum hollt, ég er ekki að boða neina lækningu, heldur hámörkun á lífsgæðum í þeim aðstæðum sem þú ert hverju sinni.

Þú ert í raun að sýna fram á að ýmislegt er hægt, þrátt fyrir langvinnan sjúkdóm? Já, ég er 75% öryrki, en stunda fulla vinnu, fer í líkamsrækt á kvöldin. Þetta er mikil vinna, en skilar mér auknum lífsgæðum. Ég finn alveg fyrir því ef ég svindla og mæti ekki í ræktina. Þannig að ég á helling eftir.

Hefur hreyfing bætt „göngu“ þína með parkinson? Já, hreyfing heldur mér gangandi, skapar orku til að fara í gegnum næsta dag. Það fylgja margir aukakvillar Parkinson, þunglyndi, vöðvaverkir,  svefnleysi og fleira, en aukin hreyfing og áreynsla hjálpar til við að vinna gegn þessu.

Hefurðu fengið góðar undirtektir, ertu farinn að kynna átakið opinberlega? Nei, ég er ekkert búinn að kynna þetta að ráði, þó búinn að tala við nokkra aðila til að kanna undirtektir hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjum.  Ég byrjaði á að tala við ÍSÍ og þeir samþykktu strax að tengjast verkefninu. Enda er parkinsonsjúklingur mjög góður fulltrúi fyrir „Ísland á iði“.  Stjórnendur og starfsmenn Prentsmiðjunnar  Odda hafa alltaf sýnt mér skilning og stuðning og er þetta verkefni ekki undanskilið. Annars hef ég alls staðar fengið góðar undirtektir, sérstaklega því engir peningar koma við sögu. Áheit verða í formi hreyfingar hjá hverjum og einum og það verður ekkert kannað hvort þú stendur við áheitin, það verður hver og einn að eiga við sína samvisku.

Ég er 47 ára, ég er að skora á þá sem eru á mínu reki og eiga að heita heilbrigðir að sanna fyrir sjálfum sér og sínum að þeir séu ekki í lakara formi en ég.

Hvenær á svo að leggja af stað? Ég er að horfa á dagsetninguna 3. Júní, sem er sunnudagur og legg af stað frá Prentsmiðjunni Odda og þegar eru komnir þó nokkrir sem ætla að fylgja mér áleiðis í Borgarnes, ég fer sem sagt norður fyrir landið, Blönduós, Akureyri o.s.frv. og ég fagna allri fylgd sem býðst á leiðinni.

Fylgir þér einhver á bíl? Já, ég geri ráð fyrir að konan mín, Kristrún Helga, aki á eftir mér og passi að allt gangi upp.

Hvað áætlarðu langan tíma í þetta? Ég áætla að þetta taki 95-100 klukkutíma og miða við 14 hjóladaga.

Landpósturinn óskar Snorra Má góðs gengis og hvetur sem flesta til að skrá áheit sín í sumar, standa við þau og fylgja honum hvar sem hann verður á ferð.

Hér má sjá síðu hjólaferðarinnar, sem er ekki alveg endanleg, en gefur góða sýn á hvað þetta snýst um. 

Ingibjörg Snorra


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir