Páskaævintýri á Akureyri 2012

Mynd: Akureyrastofa. Akureyri
Mikið verður um að vera á Akureyri um næstkomandi páskahelgi og fjölbreytt dagskrá verður um allan bæ yfir hátíðina. Tónleikar, dansleikir, listsýningar, skíðaævintýri í Hlíðarfjalli og margt fleira.


Samkvæmt mbl.is þá virðast Akureyri og Ísafjörður verða vinsælastir um páskahelgina. Mikil aukning er hjá Flugfélagi Íslands á þessa staði og á vefsíðunni Samferda.is eru margar fyrirspurnir um far til fyrrnefndra staða. Búist er við verslunarmannastemmingu um páskahelgina á Akureyri að sögn Þórgnýs Dýrfjörð framkvæmdastjóra Akureyrastofu.

Á heimasíðu Akureyrastofu er að finna dagskrá yfir flest allt það sem í boði er. Sem dæmi má nefna hestaferðir hjá Pólar Hestum, ferðir á Kaldbak, Skíðafjör í Hlíðarfjalli, Leikfélag Akureyrar sýnir Gulleyjuna, tónleikar á Græna Hattinum – s.s. Baggalútur og Hjálmar, dansleikir í Sjallanum – s.s. Sálin hans Jóns míns og Páll Óskar, sýningar í Listasafni Akureyrar og Ketilhúsinu, Flugsafnið, Minjasafnið og Iðnarsafnið verður opið, ýmis dagskrá verður í Menningarhúsinu Hofi, Skautahöllin verður opin og lifandi leiðsögn um innbæ Akureyrar. Þetta er aðeins brot af því sem í boði er og um að gera fyrir fólk að skoða viðkomandi heimasíðu og finna eitthvað við sitt hæfi. Inn á heimasíðunni er einnig hægt að velja „Dagatal“  en á þeirri síðu má sjá helstu menningarviðburði.

Heimasíðan er þó ekki tæmandi yfir viðburði á Akureyri. Má til að mynda nefna að dansleikir verða alla helgina á 600 Bar (gamla Vélsmiðjan) en þar mun meðal annars hljómsveitin Eurobandið skemmta á laugardags- og sunnudagskvöld. Þá eru ótaldir allir veitingastaðir bæjarins sem bjóða upp á góðan mat og stemmingu alla hátíðina. Á heimasíðunni akureyri.net er einnig að finna upplýsingar um ýmsa menningaviðburði.

Veðurspáin fyrir Akureyri um páskana er ágæt, hiti aðeins yfir frostmarki og sól en búast má við lítilsháttar rigningu eða súld af og til.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir