Persóna í netheimum

Það er alveg merkilegt hvað veraldarvefurinn hefur gert fyrir samskipti manna. Sérstaklega það hvað fólk veit nú til dags mikið hvert um annað. Ég get sagt þér hvað gamlir félagar eru að læra, hvar þeir vinna, með hverjum þeir hanga og svo mætti lengi telja.

Ég veit allt um það sem gerist hjá vinum mínum í útlandinu og í borginni, vegna þessa ágæta veraldarvefs. Hvort sem það er í gegnum bloggsíður, facebook, myspace, msn eða aðrar ágætar samskiptaleiðir.
Ef ekki væri fyrir internetið, er ég ekki viss um að ég þekkti allt þetta fólk í sjón.

Ef maður hefði viljann til þess, væri auðveldlega hægt að skapa sér ímynd í gegnum netið, sem væri ekkert lík þeirri persónu sem sæti við tölvuna. Ef ég kærði mig um það, gæti ég auðvitað skrifað um ýmislegt annað en ég geri. Ég gæti sett fram skoðanir sem ekki eru mínar eigin, látið líta út fyrir að ég sé lítil skinka með maskaraklessur á augnhárunum og íslenskukunnáttu upp á 1 af 10. Ég gæti þóst vera rosalegur heimspekingur og efast um allt sem ég sé og heyri. Ég gæti búið mér til rosalega kúl ímynd, gáfulega, kjánalega, skemmtilega eða hvernig sem ég vildi hafa hana.

Svo er það auðvitað spurningin, hvað vill maður að fólk fái að vita um sig og hvað ekki? Á hvað vill maður leggja áherslu og úr hverju vill maður draga? Á minni ástkæru Andlitsbók er lítill kassi sem er ætlaður til að skrifa stuttlega um sjálfan sig. Fyrir kannski um ári síðan ákvað ég að breyta textanum sem þar stóð. Í þennan litla kassa hefði ég svosem getað skrifað hvað sem er. Hann rúmar þó ekki nema örfá orð, svo textinn getur ekki verið mjög langur. En hvers vegan skrifar fólk það sem það skrifar í þessa litlu kassa? Þeir þjóna kannski ekki miklum tilgangi?
Samt skrifaði ég í hann. Samt tók ég mér tíma í það að ákveða hvað ætti að standa þarna. Hann er þá kannski ekki tilgangslausari en svo..?

Það er fleira en bara þessi litli upplýsingakassi sem maður getur notað til að búa sér til ímynd á andlitsbókinni. Það þarf að velja sér profile-mynd. Þá vandast nú málið. Á maður að hafa mynd af sér í hópi fólks og þannig gefa það til kynna að maður sé vinsæll? Á að setja inn fallega portrait mynd til að sýna sitt besta andlit? Mynd af sér og besta vininum/vinkonunni til að sýna viðkomandi hvað hann/hún er manni mikils virði? Kannski slæma en fyndna mynd sem gæfi það til kynna að viðkomandi sé fyndinn eða skemmtilegur? Kannski ætti maður að hafa mynd sem sýnir eitthvað sem maður hefur áhuga á? Eða jafnvel mynd af einhverju allt öðru en manni sjálfum? Þessi hugmyndalisti er langt frá því að vera tæmandi og mismunandi pælingar liggja á bak við mismunandi myndir. Kannski eru hugsanirnar ekki meðvitaðar, og mjög líklega hugsar enginn nákvæmlega þetta þegar hann setur inn mynd. Kannski eru ástæðurnar allt aðrar en þær sem nefndar eru hér að ofan, en einhvern veginn verður fólk jú að gera upp á milli mynda.

Ég velti því stundum fyrir mér hvað fólk hljóti að vita mikið um mig, án þess að ég viti neitt um viðkomandi. Það er afleiðing þess að vera mjög virkur notandi á ofantöldum samskiptamiðlum. Oft kemur það sjálfri mér á óvart hvað fólk getur "þekkt" mann vel bara vegna upplýsinga sem maður setur á vefinn. Það þarf þó ekki að vera slæmt. En vissulega getur það orðið slæmt ef maður kann ekki að setja sér mörk, hvað á að setja inn á vefinn og hvað ekki.

- HH


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir