Polar Law – hvað er það?

Ágúst Þór Árnason er deildarformaður lagadeildar Háskólans á Akureyri. Þegar Ágúst fór til Grænlands í fyrsta sinn sagði hann að eftir það hefði ekki verið aftur snúið, hann heillaðist af landinu. Þegar hann hélt erindi við opnun Menningarhússins í Nuuk varð hann var við að fólk var farið að vilja breytingar. Þá datt honum í hug að mynda tengingu á milli Þórshafnar, Nuuk og Akureyrar, þessir bæir eru svipaðir að stærðargráðu og ættu því að geta haft sömu námsmöguleika. Þetta vakti áhuga hjá mörgum erlendis og það voru margir þekktir fræðimenn sem komu að því að koma hugmyndinni í gang.

Nú er verið að útfæra námið svo hægt sé að hafa norðurslóða áherslu á alla þætti námsins í Háskólanum á Akureyri. Það sem hefur hjálpað Ágústi að vekja áhuga samkennara sinna er að erlendir gestir hafa verið að spyrja hvers vegna ekki sé lögð áhersla á þessi mál í skólanum.

Samstarfið er gott á milli þeirra landa sem að verkefninu koma. Kennarar héðan fara til Grænlands að kenna og hingað koma einnig gestakennarar úr ýmsum áttum. Þetta er mikið byggt á styrkjum. Noregur veitti styrk fyrir einn kennara frá Rússlandi. Það er hvetjandi fyrir Grænland að sjá að lítill bær eins og Akureyri getur haldið uppi góðum háskóla og því gætu verið sömu möguleikar fyrir hendi hjá grænlendingum.

Námið er opið öllum sem lokið hafa í það minnsta BA prófi, það eru  hins vegar mis langar námsleiðir til þess. Fyrir þá sem eru með menntun í lögfræði er námið til LL.M-gráðu eitt og hálft ár, en til MA-gráðu fyrir nemendur með bakkalárpróf eru það tvö ár. Nám í heimskautarétti er líkara félagsmannfræði heldur en lögfræði eins og við þekkjum hana, segir Ágúst Þór. Áherslan er á þau svið sem tengjast heimskautasvæðunum. Það er tekið á atriðum eins og umhverfislögum, mannréttindum og málum er varða fullveldi, réttindum frumbyggja í norðri og mörgu fleiru með áherslu á jafnrétti.

Áhrifin sem hrunið hafði á kennslu heimskautaréttar eru einhver, en stjórnendur reyndu  að minnka áhrifin á námið eins og þeir gátu. Ákveðið var að taka aðeins nýja nemendur inn í námið annað hvert ár meðan á niðurskurði stæði. Einnig var farið í það að nota svokallaða fléttukennslu þar sem mis langt komnum nemendum er kennt saman.

         Helga Óskarsdóttir

 

Íbúarnir skipta máli

Polar law námið hefur þá sérstöðu að það er fyrsta og eina námið í heiminum sem leggur aðaláherslu á heimskautarétt. Það er meistaranám í Finnlandi um norðurslóðamál en þetta er eina námið sem kennir sérstaklega lög sem snúa að heimskautunum. Námið fjallar um alþjóðlegt lagakerfi sem snýr að mannréttindum á norðurslóðum, frumbyggja og rétt þeirra til landsins og náttúruauðlinda bæði á sjó og landi ásamt  hafrétti og almennum umhverfisrétti.

            „Þetta nám er góð leið til að skilja þjóðarrétt og umhverfisrétt. Ekki er hægt að skilja vel umhverfisrétt ef maður skilur ekki rétt heimskautanna“, segir Rachael Lorna Johnstone dósent í lögfræði en hún ásamt Ágústi Þór ber ábyrgð á uppbyggingu þessa náms. Hún bætir við að þessi vettvangur gefi af sér víðari sjónarmið og þekkingu á umhverfisréttindum.  Námið snýr fyrst og fremst að fólkinu sem býr á svæðunum, hvað það vill og hver réttindi þeirra eru og þess vegna fléttast þjóðarhagfræði og mannfræði inn í það. Þó ekki hafi verið  tekið inn í námið þetta árið vegna fjárhagsörðugleika er stefnt á að taka inn á næsta ári og árlega eftir það. Polar law er nám sem er komið til að vera.

     Hermína Hilmarsdóttir 

Hvað segja nemendur

Hjalti Þór Hreinsson stundaði nám í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri .Hann er einnig með menntun í fjölmiðlafræði, en margir sem koma í námið eru að bæta lögfræðimenntun við það sem þeir hafa fyrir. Til að byrja með hafði hann litlar væntingar því hann vissi  ekki hvernig það yrði. Ástæða þess að hann valdi þetta nám var sú að um var að ræða mjög sértækt nám sem fáir Íslendingar hafa útskrifast úr. Það er mjög hagnýtt og nýtist á ýmsum starfsvettvangi, veitir sérþekkingu og segir hann að eftir námið hafi áhugi hans á Norðurslóðum aukist til muna.  Þegar Hjalti var við nám voru fleiri erlendir nemendur en Íslenskir, íslendingarnir voru fjórir og þeir erlendu í kringum tíu.        

     Helga Guðrún Þorsteinsdóttir

 

Íslendingur í náminu

Monika Margrét Stefánsdóttir er ein af fáum Íslendingum sem stunda þetta nám. Það vaknaði áhugi á náminu í gegnum samfélags- og hagþróunarfræði tíma sem hún stundaði en þann áfanga sóttu líka nemendur í  heimskautarétti og eftir að hafa rætt við þá kviknaði áhugi fyrir því að skoða þetta betur.  Monika hefur alla tíð haft mikinn áhuga á dreifbýlinu og landsbyggðinni á Íslandi en Norðurslóðir hafa líka ávallt heillað hana. Hún unir sér vel í náminu en það sem henni líkar best er hversu þverfaglegt það er og býður því upp á mikla möguleika. Kennararnir sem koma til að kenna eru allir sérfræðingar á sínu sviði, stunda rannsóknir og vinna að málum norðurslóða.  Það er því hægt að fullvissa sig um að nálgunin á efnið sé góð. Margir erlendir nemendur stunda námið og það er því mikið um tækifæri til að kynnast alls konar fólki sem hefur mismunandi bakgrunn. Helsti gallinn við námið eru ákveðin skipulagsvandamál, þar sem fólki sem er mislangt komið er kennt saman.

                        Sérstaða námsins að hennar mati er að þetta er eina námið sem er í boði á Íslandi sem sérhæfir sig í málefnum Norðurslóða, mikill áhugi er fyrir því og þá sérstaklega frá erlendum námsmönnum. Í dag eru miklar breytingar á þessum svæðum sem kalla eftir auknum rannsóknum og aukinni alþjóðlegri samvinnu. Minnkandi fjarlægðir milli Norðurslóða og annarra heimssvæða hefur eftir allt saman haft mikil áhrif á efnahag og samfélög á Norðurslóðum. Monika kallar á aukna samvinnu milli Háskólans á Akureyri og stjórnvalda til að efla námið enn frekar og að passað verði upp á að það haldi stöðu sinni og verði kennt hér áfram.

                  Monika telur að þar sem Heimskautaréttur er nýtt nám og ekki er komin nægilega mikil reynsla á því hverju það skilar þá gæti það útskýrt takmörkuð peningaframlög til þess. „Ég skil ekki hvers vegna þetta nám hefur ekki verið styrkt enn frekar þar sem ýmsar stofnanir tengdar Norðurslóðum eru starfandi hér á Akureyri sem gefa góða tengingu í hin ýmsu málefni Norðurslóðarrannsókna“,  segir Monika um takmörkun fjármagns til heimskautsréttarnámsins. Hún vonar hins vegar að með vaxandi áhuga eins og virðist vera í gangi núna þá verði litið meira til þessa náms og varið meiri peningum í það. Ef það verður gert þá getur Háskólinn á Akureyri orðið með þeim fremstu í heimi á sviði Heimskautafræða. 

  Jón Birkir Bergþórsson

Reynsla erlends nemanda af náminu

Federica útskrifaðist með meistarapróf í mannfræði í mars á síðasta ári. Hún var ekki viss hvað tæki við eftir það. Áhugi hennar lá helst á norðurslóðum eftir að hafa unnið lokaverkefnið sitt á Grænlandi. Hún fann svo Polar Law námið á netinu með hjálp leitarvélarinnar Google. Hún ákvað að slá til þar sem henni fannst hún ekki hafa miklu að tapa því að námið er að hennar mati ekki svo kostnaðarsamt.

Námið er allt kennt á ensku og segir hún að maður þurfi frekar að hafa góða enskukunnáttu frekar en lögfræðibakgrunn þrátt fyrir að aðaláherslur námsins séu lögfræði ásamt landafræðistjórnmálum (e. geopolitics) eða heimskautaréttar.Hún hafði miklar væntingar til námsins og segir það standast þær og sé  algjörlega þess virði.

Federica bjóst við því að það yrðu margir erlendir nemendur áður en hún byrjaði, þá aðallega frá Norðurlöndunum. Hún hélt að hún yrði ein sem kæmi frá suðlægari slóðum en hún kemur frá Ítalíu. Hún komst hins vegar að því að nemendur námsins koma hvaðan æva að úr heiminum og fæstir frá Íslandi.

Hún mælir tvímælalaust með þessu námi þó svo að hún sé ekki búin að sjá fyrir sér hvernig hún hyggst nota sér það, hún segist frekar vonast til þess að hún geti nýtt það.

            Helga Árnadóttir

Hvað segja tölurnar?

Háskólinn á Akureyri býður upp á þrjár námsleiðir í heimskautarétti. 120 eininga meistaranám sem lýkur með M.A.-gráðu. 90 eininga meistaranám sem lýkur með LL.M.-gráðu (Legum Magister, meistari í lögum) og 60 eininga diplómunám á meistarastigi.

            Innritað hefur verið þrisvar í námið, árið 2008, 2009 og 2011 og svo verður innritað aftur í haust. Alls hefur 41 karlmaður verið skráður í námið í gegnum tíðina en einungis 28 kvenmenn. 32 Íslendingar og 37 erlendir nemendur hafa stundað námið. Árið 2008 byrjuðu sjö karlmenn og sex kvenmenn. Þar af voru níu Íslendingar og fjórir erlendir nemendur. Árið 2009 voru alls 20 manns í náminu, bæði nýnemar og lengra komnir. En árið eftir það voru einungis sjö við nám vegna þess að þá voru engir nýir nemendur teknir inn. Haustið 2011 voru alls 21 nemandi en síðastliðið haust voru þeir átta. Alls hafa tólf nemendur útskrifast með diplómu á meistarastigi. Fimm nemendur með LL.M. gráðu og tveir með M.A. gráðu.

Katrín Þorkelsdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir