Rækjusalatið hennar ömmu Diddu

Amma Didda, til hægri á myndinni
Það eiga eflaust margir svipaða uppskrift að rækjusalati en ég ætla að setja hér inn útgáfuna hennar ömmu minnar heitinnar að rækjusalati, sama hversu oft við mamma reyndum að gera salatið eftir uppskriftinni tókst okkur aldrei að hafa það eins gott.

Rækjusalat:

1 poki rækjur - 300 gr (magn fer eftir stærð sem maður vill fá)
4 soðin egg, brytjuð niður
slatti majones (þar til þetta verður vel blautt)
1-2 tsk aromat
1/2 - 1 tsk karrý

Þessu öllu blandað saman og svo sett inn í ísskáp í smá stund áður en er borðað.

Ég er uppalin á Seyðisfirði en ég fór í heimsókn til afa og ömmu á Hvammstanga nokkrum sinnum á ári þegar ég var yngri.
Alltaf þegar von var á mér fór amma beint í það að gera rækjusalatið sitt góða því hún vissi hversu mikið ég hélt upp á það. Það var alltaf klárt í ísskápnum í sömu skálinni og brauð komið á borðið þegar ég mætti á staðinn. 
Mér finnst erfitt að hlaupa ekki í ísskápinn hjá afa þegar ég kem til hans núna (amma lést haustið 2009) og finna salatið. Það er alltaf svolítið tómlegt.

En ég og mamma hringdum ófá símtölin í ömmu og fengum nákvæmar leiðbeiningar, uppskrift og aðferð til að gera salatið, aldrei tókst okkur að gera það nærri því eins.

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að þetta hafi einfaldlega verið í höndunum á henni.

Njótið og bætið við því sem þið viljið, eftir smekk.

Hrefna Sif Jónsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir