Rétt náði á Bessastaði í tíma til að taka við verðlaunum

Páll Björnsson með bókina Jón forseti allur?

Eins og  Landpósturinn fjallaði um nýverið vann páll Björnsson sagnfræðingur og dósent í nútímafræði við Háskólann á Akureyri til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2011 í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fyrir bók sína Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar. Þetta er fyrsta bókin sem Páll gefur út og því óhætt að segja að um góðan árangur sé að ræða. Blaðamaður Landpóstsins setti sig í samband við Pál og spurði hann nokkurra spurninga í tengslum við vinnslu og útgáfu bókarinnar og upplifunina á því að vinna til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að skrifa bók um Jón Sigurðsson og „framhaldslíf“ hans eftir dauðann?

Það var í kringum aldamótin síðustu að ég fór að skoða hugmyndaheim Jóns. Á næstu árum sá ég að það var meiri þörf á rannsóknum á því hvernig hann hefði verið notaður sem sameiningartákn heldur en því hvað hann hefði skrifað og gert í lifanda lífi. T.d. höfðu tvær mjög ítarlegar ævisögur verið skrifaðar um hann, auk fjölmargra annarra verka.

Hvað tók langan tíma að skrifa bókina?

Það er erfitt að segja. Hugmyndin kviknaði árið 2004 og þá byrjaði ég að kanna hvað væri til af heimildum eða gögnum. Síðan var ég að grípa í þetta af og til. En það var ekki fyrr en árið 2009 sem ég fór að vinna af fullum krafti í rannsókninni og síðan að gerð handritsins. En það var þó aldrei þannig að ég gæti nýtt allan minn tíma í þetta verk, nema þá á sumrin; maður þarf jú að sinna kennslunni og fjölmörgum smærri verkefnum sem fylgja því að vera háskólakennari.

Reikna má með miklu álagi á rithöfunda sem vinna að því að bók þeirra taki þátt í jólabókamarkaðnum, hvað gerðir þú þegar bókin var farin í prentun?

Þegar bók er farin í prentun þá kemur stutt pása sem í mínu tilfelli fór reyndar í að vinna upp það sem ég hafði ýtt á undan mér vikurnar á undan. Og svo þegar bókin kemur úr prentsmiðju, þá hefst kynningarstarfið fyrir alvöru. Það er heilmikil vinna. Það þarf að vera í sambandi við fjölmiðla og einnig var ég með nokkra fyrirlestra þar sem ég kynnti efni bókarinnar. Það er ekki þannig að aðrir komi til manns, heldur verður maður að koma sér á framfæri. Það eru svo margir að keppast um athyglina, sérstaklega í jólabókaflóðinu. Vissulega er þetta dálítið erfiðara með fræðibækur heldur en fagurbókmenntir því að þær eru alltaf vinsælli. Höfundar þeirra, sumir hverjir allavega, eru svo eftirsóttir að þeir lesa upp á nokkrum stöðum sama daginn. En þetta var ágæt reynsla. Ég gat farið að slappa af eftir áramótin. Það urðu talsverð viðbrigði að þurfa ekki að vera í vinnunni öll kvöld og um helgar.

Ef konan þín yrði spurð hversu mikið þú hafir hjálpað til á heimilinu á meðan skrifum stóð, hvaða svör er líklegt að hún gæfi?

Við höfum nú alltaf reynt að skipta með okkur verkum. En þegar ljóst var að ég var að orðinn seinn með handritið, þá varð ýmislegt að sitja á hakanum. Auk þess tók konan mín virkan þátt í vinnslu verksins því að hún las handritið yfir, raunar margar útgáfur þess. Hver kafli þurfti að ganga í gegnum nokkrar endurritanir.

Hver voru þín fyrstu viðbrögð þegar þú fékkst að vita að þú hafðir verið tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunanna? Var ekki biðin eftir úrslitum stressandi tími?

Ég var auðvitað mjög ánægður með tilnefninguna. Nei, þetta var ekki svo stressandi að bíða eftir niðurstöðunni. Ég bjóst ekki við að fá verðlaunin þó að ég gerði mér grein fyrir því að það væri smá möguleiki á því. Biðin var því ekki svo erfið.

Hvernig tilfinning var það svo að mæta á Bessastaði og taka við íslensku bókmenntaverðlaununum 2011? Hvernig fagnaðir þú sigrinum?

Þetta var mjög hátíðlegt. Reyndar mætti ég ekki á staðinn fyrr en á slaginu klukkan fjögur þegar athöfnin átti að hefjast. Ég hafði verið í upptöku fyrir þáttinn Kiljuna eftir hádegi þennan dag og slíkt vill stundum taka lengri tíma en maður áætlar. En ég náði sem sagt athöfninni. Um kvöldið var svo haldið upp á þetta með þorramat hjá stórfjölskyldunni syðra.

Hvernig myndir þú lýsa lífi þínu eftir að þú vannst verðlaunin? þú hefur verið áberandi í þjóðfélaginu síðan, hefur þetta ekki verið hálfgert rokkstjörnulíf?

Þetta er nú of mikið sagt. Að vísu hafa nokkur viðtöl fylgt þessu, raunar fleiri en ég bjóst við. Um leið virðist áhuginn á bókinni hafa aukist talsvert. En lífið hefur ekkert breyst.

Hvað gerir Páll Björnsson þegar hann er ekki að kenna og ekki að skrifa bók?

Maður reynir að hreyfa sig þegar tími gefst til. Hjólreiðar, sund og fjallgöngur eru efstar á blaði hjá mér. Þá hef ég gaman að því að ferðast, bæði innanlands og utan. Og svo kíkir maður stundum í bækur en það virðist oft hafa tilhneigingu til þess að tengjast vinnunni. Svona er þetta þegar áhugamálin eru samofin starfinu.

Einhver spennandi verkefni framundan? Megum við búast við annarri bók næstu jól?

Nei, ekki fyrir næstu jól; ég er ekki Arnaldur eða Yrsa. Fræðibækur verða yfirleitt til á lengri tíma. Það er reyndar margt sem gaman væri að skrifa um en sumt af því á líklega betur heima í tímaritsgreinum eða bókarköflum. En stundum þróast greinar í bækur þannig að það er aldrei að vita hvað gerist.

Ertu búin að ákveða hvað þú ætlar að gera við milljónina sem þú fékkst í verðlaun?

Já og nei. Það verða allavega engin vandræði með að finna þessum krónum farveg.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir