Rugl á rugl ofan

Mynd: bizaims.com

En og aftur þarf almenningur að þola ábyrgðalausa og vitlausa launastefnu fjármálafyrirtækja. Bankastjórar hækka í launum um tugi eða hundruði prósenta og slitastjórnir hinna svokölluðu „gömlu“ banka ganga í bankahvelfingarnar eins og um sé að ræða nammibarinn í Hagkaup. Hvernig menn ætla að réttlæta þetta verður áhugavert að sjá. Varla er hægt að segja að þetta fólk beri svona mikla ábyrgð þar sem komið hefur í ljós að hátt settir aðilar fjármálafyrirtækja eru ábyrgðarlausir með öllu. Lítið hefur allavega heyrst af bankastjórum sem hafa axlað einhverja ábyrgð á glórulausu „klúðri“ sínu árin fyrir bankahrunið sí vinsæla.

Það að fulltrúi ríkisins í bankaráði Arion banka hafi greitt atkvæði með fáránlegum launakjörum bankastjóra er til skammar. Hann hefur þó verið látinn taka pokann sinn enda ekki annað hægt í stöðunni þegar menn eru gjörsamlega prinsipplausir í svona málum. Ef prinsippið hefur ekki verið ljóst þá hljóta menn að vera búnir að fatta núna að það er að bankastjórum séu greidd laun í samræmi við almenna launastefnu í landinu. Með réttu ættu yfirmenn bankana ekki að fá krónu fyrr en þeir hafa sýnt að þeir séu þess trausts verðir að meðhöndla peninga almennings á ábyrgan hátt.

Þessi hálaunastefna fjármálafyrirtækja hefur líka verið réttlætt með því að segja að það þurfi há laun til þess að laða að hæft fólk. Það þarf ekki miklar rannsóknir til þess að sjá að þetta er bull. Voru þá kannski þessir galdramenn í bönkunum fyrir hrun hæfir? Ég ætla að leifa mér að efast um það enda kom í ljós að eina sem þeir voru góðir í var að láta peninga hverfa.

Maður spyr sig hvort ekki sé hægt að gera eitthvað í þessu. Því miður virðist almenningur ekki geta sett neina pressu á bankana þar sem segja má að þorri almennings sé í gíslingu þeirra. Hvernig á maður sem hefur tapað öllu, nema skuldunum, að hætta viðskiptum við bankann. Þrátt fyrir að vera skuldlaus er varla neinn tilgangur með því að skipta þar sem ekki hefur fundist munur á k*k og sk*t enn sem komið er.

Ég ætla nú svosem ekki að hafa þennan pistil lengri og hlakka mikið til þeirra hækkuðu launa sem ég fæ í sumar með þessari nýju launastefnu í landinu.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir