Sá maður sem er einhvers virði eignast aldrei gimstein

Ritdómur á bók Halldórs Laxness, Brekkukotsannáll.

Sagan fjallar um dreng sem heitir því furðulega nafni Álfgrímur, en í upphafi vildi móður hans að hann héti Álfur. Móðir hans ætlaði að skilja hann eftir í Brekkukoti og vildi amman þar á bæ að hann myndi endilega heita Grímur, þannig varð nafnið Álfgrímur til. Líkt og allir þeir sem voru föðurlausir menn á Íslandi þá fékk hann föðurnafnið Hansson. 

Á yngri árum var Álfgrímur heillaður af jarðarförum og fékk stundum að taka þátt í að jarðsyngja ættlausa menn í kirkjugarði sem var ekki langt frá Brekkukoti. Afi Álfgríms var fiskimaður og þekktur fyrir að selja alltaf fiskinn sinn á sama verði. Líkt og afi sinn þá vildi Álfgrímur verða grásleppukall, hins vegar var afi hans og amma mótfallin því að Álfgrímur tæki fyrir sér fiskveiðar. Var því hann sendur í Latínuskólann.

Í sögunni er talað mikið um Garðar Hólm sem átti víst að vera heimsfrægur fyrir söng sinn og ferðaðist um allan heim og söng fyrir fína og merkilega fólkið. Þeir Álfgrímur urðu góðir félagar og oft taldir vera frændur.
 

Ef litið er til baka yfir ævi Laxness í samhengi við verkið Brekkukotsannáll þá er engin furða að bókin sé svona vel heppnuð. Skáldið notar upplifun sína sem hann hafði fengið á ferðalögum sínum og þrátt fyrir að hafa kynnst taóisma á seinni hluta ævi sinnar þá er mikið hægt að greina þessa hugsun í mörgum af verkum hans. En ef við einblínum á Brekkukotsannáll þá sést vel að Laxness er mikið að reyna sýna einfaldleikann í lífinu og hið sérstaka í hinu einstaka eins og tíðkast í taóisma. Í raun þá táknar Garðar Hólm mistök þess sem trúir á einfaldleikann en lifir ekki með honum þegar hann segir: "Sá maður sem er einhvers virði eignast aldrei gimstein."

Að lesa þessa bók var mikil rússíbanaferð, þar sem fyrri tilraunir að lesa verk eftir Laxness höfðu ekki tekist að heilla þennan penna. Var farið í lestur með litlum væntingum, í raun var búið að færa dóm á hana áður en fyrsti kafli hafði verið lesinn. Það viðhorf er hins vegar ekki lengur til staðar og þess í stað er vakanður mikill áhugi á að lesa fleiri verk eftir Nóbelsskáldið. Það er ótrúlegt hvernig Laxness tekst að blása svona miklu lífi í persónur sínar og gera þær svo heillandi. Margir hafa sagt að verk eftir Laxness séu leiðinleg, það gerist ekki neitt í sögunum og persónur séu ekki áhugaverðar. Það sem fólk gerir sér ekki grein fyrir er að það eru ekki allar persónur í bókum sem lifa spennandi lífi, því er ekkert skrítið að fólk sjái ekki hvað hið venjulega er í raun heillandi. Bókin er ótrúlega vel skrifuð og hefur þessi saga haldið huganum föngnum frá því að fyrsti kafli var lesinn. Góð bók sem klárlega fleiri ættu að taka sig til og lesa. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir