Sælgæti Íslendinga

Sælgæti Íslendinga - laufabrauð

Hver mætir með sitt kefli og sína svuntu og svo er keflið hennar ömmu fyllt með einhverju góðu sem fullorðnir fá að gæða sér á eftir þörfum

Í hugum margra er laufabrauðið eitt af séreinkennum íslensks jólahalds. Elsta heimild sem til er um laufabrauð á Íslandi er frá fyrri hluta 18. aldar þar sem laufabrauðinu er lýst sem sælgæti Íslendinga.

Talið er að upprunalega hafi laufabrauðið aðallega verið á borðum þeirra sem meira máttu sín en hafi ekki komið á hátíðarborð almennings fyrr en á 19. öld. Erfitt gat verið að fá hráefni í brauðið, sérstaklega á tímum einokunarverslunarinnar og var því brauð og annað kornmeti aðeins á borðum almennings til hátíðabrigða. Brugðið var á það ráð að baka örþunnt brauð fyrir jólin svo allir gætu fengið að smakka eins og segir í kvæðinu:

Það á að gefa börnum brauð að bíta í á jólunum,
kertaljós og klæðin rauð svo komist þau úr bólunum.

En hér mun hafa verið átt við laufabrauðið. Til að auka við hátíðleikann við brauðátið voru skornar fallegar myndir út í laufabrauðið. Í lok 19. aldar var það þó aðallega á Norðurlandi sem laufabrauð var hátíðabrauð almennings og var það ekki fyrr en síðar að það breiddist um landið. Þar var einnig sá siður að fólk kom saman og skar út laufabrauð á aðventunni. Hér má lesa um eitt slíkt dæmi:

"Amma og afi eru bæði frá Ólafsfirði og fluttu til Reykjavíkur í stríðinu, siðurinn að skera út laufabrauð fylgdi þeim suður. Fyrstu árin skáru þau með hópi fólks frá Ólafsfirði en um 1960 fór amma að halda sitt eigið laufabrauð. Eftir því sem fjölskyldan stækkaði jókst verkaskipting og sérhæfing og nú er það þannig að systkini mömmu hittast snemma einn laugardag seint í nóvember og byrja að hnoða. Yfirleitt er hnoðað úr 10 – 12 kg af hveiti. Eftir því sem árin hafa liðið hefur meira smjöri verið bætt í degið. Deiginu er síðan skipt í hluta sem hverjum er pakkað inn í plastfilmu og geymt í ofni á lágum eða engum hita.

Þá bætist við fólk í að fletja, það erum við barnabörnin sem stöndum vaktina þar ásamt systkinunum. Það eru ákveðnir diskar notaðir til að skera eftir til að ná réttri stærð á kökurnar. Hver mætir með sitt kefli og sína svuntu og svo er keflið hennar ömmu fyllt með einhverju góðu sem fullorðnir fá að gæða sér á eftir þörfum. Kökurnar eru hafðar mjög þunnar og sléttar, markmiðið er að hægt sé að lesa í gegnum þær. Síðan er sérstakt burðarfólk sem tekur við flöttum kökum og kemur þeim í skurð. Þau taka sömuleiðis við skornum kökum og koma þeim í steikingu.

Skurðarfólkið er á öllum aldri, frá 2 ára og uppúr. Misjafnt er hversu mikinn metnað fólk leggur í skurðinn en sumir eru listamenn, tengdabörnin hennar ömmu hafa verið liðtæk í skurðinum og sýnt listræna hæfileika. Á skurðarborðinu er alltaf nóg af nammi og þar er kjaftað um allt milli himins og jarðar. Þetta er eina skiptið á árinu sem við hittumst öll nú orðið en það er alltaf jafn gaman. Jólalög eru á fóninum, helst Ómar Ragnarsson og mikið stuð og ekkert hangs.

Úti í bílskúr eru síðan karlar að steikja, þeir tóku við þessu hlutverki einhverntíma á 8. áratugnum. Kökurnar eru hafðar frekar dökkar. Í allt eru skornar og steiktar milli 3 og 400 kökur.

Þetta er svoddann viðburður að tvisvar hafa fjölmiðlar fjallað um okkur, fyrst var það Sjónvarpið einhverntíma um 1980 og svo Stöð 2 sirka 1994. Við höfum færst milli staða, fyrst vorum við hjá ömmu og afa, síðan hjá einhverju systkinanna og nú er það eitt barnabarnanna sem býður fram húsnæði. Yfirleitt stendur laufabrauðið frá 10 – 18 og fólk kemur og fer allan tímann. Í allt eru það kannski 50 börn og fullorðnir sem taka þátt.

Amma Rósa sem hélt þessu öllu saman dó sumarið 2010 en við höldum áfram að hittast og skera laufabrauð og hugsa til hennar."

Frásögn: Ágústa Kristófersdóttir, 2010

Ingibjörg Snorra
Heimildir:
Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Árni Björnsson. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður 2006.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir