Sama tungan færir okkur bæði heiður og skömm

Íslenska tungan hefur ávalt verið eitt helsta þjóðarstolt okkar íslendinga. Ekki er þó hægt að segja að tungumálið hafi fengið sömu meðferð og önnur auðæfi landsins. Því var ekki skellt í útrás, selt hæst bjóðanda eða notað til þess að laða að ferðamenn. Sumir vilja meina að íslenskan sé á undanhaldi og oft er fjallað um hið fagra, forna og hreina tungumál eins og dýr í útrýmingarhættu.

Sérstök málnefnd á vegum hins opinbera hefur það hlutverk að standa vörð um íslenska tungu og í lögum um Ríkisútvarpið segir að helsta skylda þess sé að verja og leggja rækt við íslenska tungu.

Ég hef ætíð staðið í þeirri trú að skólar og aðrar menntastofnanir séu vettvangur þar sem gott og rétt málfar sé í hávegum haft og nemendum kennt að venja sig á að tala og skrifa "góða" íslensku. Því varð ég nokkuð hneyksluð þegar ég byrjaði í háskólanum. Nemendum er jú kennt að nota viðeigandi mál við skrif á ritgerðum og skýrslum en sama áhersla er ekki lögð á talað mál. Sjaldan hef ég orðið vitni af jafn mikilli notkun á ensku-slettum og hjá kennurum í háskólanum.
Það er jú töluverður fjöldi fræðiheita sem ekki eru til íslensk heiti yfir, og því ekkert annað í stöðunni en að nota ensku heitin. Hins vegar er mest af orðunum sem verið er að taka úr enskunni hversdagsleg orð sem hafa alveg sömu meiningu á gömlu góðu íslenskunni. Eitt þeirra orða sem mjög margir kennaranna nota er "interesant", en fyrir minn smekk hafa orð eins og t.d. "áhugavert", "athyglisvert" eða "forvitnilegt" alveg sömu merkingu og hljóma þar að auki mun betur.

Það væri áhugavert að vita hvort óánægjuraddir myndu heyrast ef grunnskóla- eða menntaskólakennarar notuðu mikið af slettum við kennslu. Ætli það þætti sýna gott fordæmi?

En ég velti fyrir mér hver ástæðan sé fyrir þessari málnotkun. Nú er ég sjálf ekki fylgjandi heittrúaðri hreintungustefnu og nota oft slettur. Í mörgum tilfellum er það orðið að vana, ósjálfrátt, og því ekki ólíklegt að ástæðan sé sú sama hjá kennurunum.
En gæti verið að það þyki e.t.v. fínna og flottara að nota ensku frekar en íslensku? Merki um hvað viðkomandi sé klár eða veraldarvanur og að íslenskan sé þar af leiðandi ekki nógu góð?

Getur verið að við geymum þjóðarstoltið ofan í skúffu og tökum það aðeins upp til að ganga í augum á útlendingum og þurrkum svo af því rykið á Degi íslenskrar tungu og látum þá nokkur vel valin orð falla um það hversu mikilvægt sé að standa vörð um íslenskuna okkar?

Marta Björg Hermannsdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir