Sé ykkur kæra fjölskylda um jólin 2015!

Mynd: FÍB. Bensínverð mars 2012

Kannski verð ég búin að safna nægum pening um jólin 2015 til að komast í heimsókn á æskustöðvarnar – en þetta er nú reyndar aðeins fært í stílinn.

Þegar ég flutti til Akureyrar haustið 2009 þá gerði ég nú ráð fyrir því að ,,rúlla" annað slagið heim á Eskifjörð að hitta ættingja og vini – en hækkun á bensínverði á síðustu misserum eru einfaldlega að koma í veg fyrir það að ég hitti þau. Þegar ég flutti til Akureyrar þá kostaði það mig rúmlega 7000 krónur að fylla bílinn en ég held að það kosti mig núna tæpar 10.000 krónur. Það kostar mig á bilinu 15 – 20.000 að ,,rúlla" heim á gamla rauð (Subaru 2001 árgerð). Reykjavíkurferð kostar mig rúmar 20.000 krónur.

Ég ,,rúlla" ekkert lengur austur í heimsókn eina helgi eða svo, eins og ég gerði annað slagið fyrsta veturinn minn hérna norðan heiða. Kallast þetta þá ekki átthagafjötrar? Ég kemst einfaldlega ekki lönd né strönd til að rækta tengslin við ættingja og vini vegna gífurlega hás eldsneytisverðs. Núna eru ferðar austur skipulagðar í þaula og ekki lagt af stað nema að hægt sé að nýta ferðina vel. Engin ferð verður á Austurlandið þessa páskana en í staðinn verður næsta ferð mín vel skipulögð, slá tvær flugur í einu höggi. Litla frænka á að fermast um hvítasunnuna og auðvitað mætir maður á staðinn – en svona úr því ég verð þá komin austur þá verður maður í viku í viðbót og nær sjómannadagshelginni í leiðinni. Já, og auðvitað að hitta aðeins frænku sem er að koma frá Ameríkunni. Svo til að bæta gráu ofan á svart þá er einkasonurinn fluttur til Reykjavíkur – og kemst ég eitthvað frekar þangað? Uhh nei – það er heldur ekkert inn í myndinni. Núna er verið að skipuleggja ferð suður yfir heiðar í sumar og þá er inn í myndinni að hafa þá ferð vel skipulagða, slá nokkrar flugur í einu höggi. Ég er reyndar mjög heppin, ég á nokkra ættingja hérna á Akureyri og nokkra vini líka – þannig að þeir sitja einfaldlega uppi með mig.

Bensínverð

Í febrúar 2008 var meðalverð á bensíni 137 krónur, í febrúar árið 2009 var meðalverðið 144 krónur en eftir það varð skrattinn laus. Tæpar 200 krónur í febrúar 2010, 216 krónur var meðalverðið í febrúar 2011 en í febrúar 2012 var meðalverðið tæpar 247 krónur. Það sér það því hver heilvita maður að það hafa fáir efni á lúxus eins og að fara landshorna á milli til að treysta fjölskylduböndin. Í dag, 22 mars, er meðalverðið komið upp í 262 krónur. Þannig að frá febrúar 2008 til mars 2012 hefur bensínverð hækkað um heilar 125 krónur á hvern líter.


Mynd: Tryggvi Þór Herbertsson

FÍB

Þeir hjá FÍB, Félagi bifreiðaeigenda á Íslandi, orða þetta nú ekki penna en ég þegar þeir segja ,, Hátt bensínverð er að kyrkja þjóðfélagið". FÍB varar stjórnvöld við þeim alvarlegu kyrkingaáhrifum sem síendurtekin hækkun á bensíni hefur á allt þjóðfélagið. Þeir benda á að öll sú hækkun sem orðið hefur á síðustu árum hefur dregið gífurlega úr umferð um landið og er afleiðingin sú að það er samdráttur í viðskiptum, fækkun innlendra ferðamanna og lægra þjónustustig. Þeir benda á, eins og ég, að það sé einfaldlega orðin lúxus að bregða sér bæjarleið. Alltaf er hlutur ríkisins að hækka í formi skatta ásamt að hærra heimsmarkaðsverði en FÍB, og fleiri, hafa bent á og biðlað til ríkisstjórnarinnar að lækka þessar álögur – en þeir, fulltrúar bifreiðaeigenda á Íslandi, hafa hingað til talað fyrir daufum eyrum. Þeir benda á að laun venjulegrar launafjölskyldu þurfi að hækka um 260.000 aukalega á ári til að mæta hækkandi eldsneytisútgjöldum, miðað við óbreytta notkun. Þeir benda á að fyrir flesta sé eina ráðið að draga úr notkun einkabílsins og nota hann aðeins í það allra nauðsynlegasta.

Samdráttur í samgöngum hefur mjög neikvæð margföldunaráhrif og ljóst þykir að ávinningur ríkisins af skattlagningu sinni á bensíni fer minnkandi því verulega hefur dregið úr umferð. Það er þó ekki það eina því ríkissjóður tapar einnig verulegum fjárhæðum vegna minnkandi umsvifa í atvinnulífinu. FÍB og fleiri hagsmunasamtök hafa skorað á ríkið að lækka álögur sínar til að koma til móts við þessa þróun en hingað til talað fyrir daufum eyrum. Þeir benda á að það sé nóg að ríkið taki ekki til sín meiri tekjur en það hefur gert síðast liðinn ár.

Ríkisstjórnin

Núverandi ríkisstjórn, með þau Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon í farabroddi, hefur ekki tekið undir þessi sjónarmið. Mín upplifun er sú að þeim finnist þetta ekkert mál og ég held stundum að þau bara fatti ekki þessi sjónarmið sem flest allir í þjóðfélaginu fara fram á. Það er, eins og flestir vita, ekki bara skattar á eldsneytisverð sem er að hækka heldur nánast allt annað þannig að lúxusinn að bregða sér bæjarleið er dottin út úr myndinni. Því finnst mér þetta mjög skrýtin sjónarmið að þau sjái þetta ekki.

Jóhanna Sigurðardóttir skrifaði áhugaverðan pistil í maí árið 2006, sem má lesa í heild sinni hér, þar sem hún mælir eindregið með því að þáverandi ríkisstjórn lækki álögur á bensíni. Fyrirsögnin á pistli Jóhönnu er: ,,Lækkum strax bensínverð" og hún segir meðal annars ,,Bensínlítrinn hér á landi er með því hæsta í heimi og er skýringin á því ofurskattar ríkisins á bensíni sem hirðir meira en 60% af útsöluverði bensíns í ríkissjóð" en á þessum tíma var meðalverð á bensíni 126 krónur. Nú spyr ég bara, hvað hefur breyst? Jú, núna ræður Jóhanna og vill greinilega hafa stjórn á sínu liði og ,,make a money" fyrir ríkisstjórnina, eða hún heldur það. Árið 2006 var eldsneytisverð þó ekki í þeim hæðum sem það er í núna og finnst mér þetta því skjóta skökku við að hún heimti skattalækkanir árið 2006 þegar bensínverðið var viðráðanlegra heldur en núna þegar hún og hennar fólk harðneitar að lækka álögur. Það væri kannski ráð að senda henni þennan pistil sinn og minna hana á þetta!

Bjarney Hallgrímsdóttir

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir