Síðasta lending Discovery

Mynd: nasa.gov

Geimferjan Discovery lenti í dag um klukkan fimm að íslenskum tíma við Kennedy Space Center í Flórída eftir vel heppnaða ferð til alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Þar með hefur Discovery lokið sinni síðustu ferð út í geim og mun ferjunni núna verða lagt fyrir fullt og allt. Discovery hefur í gegnum tíðina verið samtals 365 daga í geimnum, farið 5.830 sinnum í kringum jörðina og ferðast hvorki meira né minna en 238.539.663 km.

Í þessari síðustu ferð Discovery voru farnar tvær vel heppnaðar geimgöngur og nýju rými var bætt við alþjóðlegu geimstöðina sem mun gegna hlutverki birgðageymslu en hingað til hefur áhöfn geimstöðvarinnar þurft að geyma allan búnað, mat og varahluti víðsvegar um stöðina. Einnig voru varahlutir, vistir og annar búnaður fluttur til stöðvarinnar ásamt vélmenninu Robonaut.

Með lendingunni í dag verða aðeins tvær geimferjur eftir í geimferjuflota Bandaríkjamanna. Það eru Endeavour og Atlantis en hvor um sig á aðeins eina ferð eftir á áætlun og er gert ráð fyrir að Endeavour fari í sína síðustu ferð þann 29. ágúst á þessu ári og Atlantis 28. júní. Eftir það munu Bandaríkjamenn þurfa að reiða sig á Rússa til að koma mannskap og vistum til alþjóðlegu geimstöðvarinnar.


Tengd frétt: Síðasta flug Discovery


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir