Siðleysi auglýsenda

Netþjófnaður. Mynd: SE

Um daginn var ég rændur. Þjófurinn var fyrirtæki hér í bæ, þjófnaðurinn fór fram í netheimum og komst upp þegar auglýsing fyrirtækisins birtist á prenti. Það var líka einmitt þá sem ég áttaði mig á hversu siðlaust þetta athæfi var.

Ránsfengur fyrirtækisins var ljósmynd sem ég hafði tekið fyrir 3 árum. Ég tók ránið nú ekkert sérstaklega inn á mig, hugsaði bara sem svo að ég myndi bara senda fyrirtækinu reikning með duglegu álagi fyrir að hafa notað myndina í leyfisleysi. En því meira sem ég pældi í þessu því siðlausara fannst mér ránið. Fyrirtækið fann myndina í gegnum Google, náði í myndina á myndasíðu mína, þar sem ekki fór á milli mála hver hafði höfundarrétt að myndinni, og án þess að detta í hug að hafa samband og biðja um leyfi var myndin notuð í auglýsingu fyrirtækisins. Svona lagað gerist því miður allt of oft. En það sem verra er, fyrirtækið hafði ekki heldur fyrir því að biðja manneskjuna á myndinni um leyfi til að nota hana til að auglýsa vöru sína. Auk þess var mín mynd aðeins önnur tveggja mynda í auglýsingunni og seinna var mér bent á að fyrirtækið hafði gerst sekt um sama brot tveimur vikum fyrr með svipaðri auglýsingu. Á þriggja vikna tímabili hefur fyrirtækið því brotið höfundarréttarlög þrisvar sinnum og 8. grein siðaregla Sambands íslenskra auglýsingastofa (um Verndun einkalífs) þrisvar sinnum. En fyrirtækið er þó ekki eitt um að hafa brotið siðareglur SÍA í þessu máli, því skv. 14. grein þeirra skal fjölmiðillinn sem birti auglýsingu fyrirtækisins „viðhafa réttmæta varúð er hann tekur við auglýsingum og kemur þeim á framfæri við almenning.“ Ef fjölmiðillinn hefði farið eftir þessari reglu hefðu þessar auglýsingar ekki verið birtar í þessari mynd.

Ég hef nú þegar sent fyrirtækinu reikning fyrir notkun myndarinnar og við greiðslu hans mun málið falla niður af minni hálfu, en ég vona að þær þrjár manneskjur sem fyrirtækið misnotaði í auglýsingaskyni leiti réttar síns og fái opinbera afsökunarbeiðni frá fyrirtækinu. Einnig er óskandi að auglýsendur og fjölmiðlar læri af þessu og rifji upp siðareglur SÍA um auglýsingar.

Stefán Erlingsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir