Sigrún, sú fyrsta í Stjóra stól Akureyrar

Sigrún Björk - bćjarstjóri

Viðmælandi Landpóstsins þessa vikuna er bæjarstjóri Akureyrar Sigrún Björk Jakobsdóttir.  Landpóstur víkur aðeins frá venju í þessu viðtali þar sem ekki var hægt annað en að fá bæjarstjórann til að tjá sig örlítið um mál málanna í dag.   

Nokkuð er síðan hún svaraði grunnspurningunum en ekki var hægt annað í ljósi atburða í borgarstjórnarmálum síðustu daga en að fá að vita hennar álit á þeim málum. Aðspurð segist Sigrún vera undrandi á þróun mála, þ.e. falli meirihlutans og nýrri Borgarstjórn, og telur þetta ekki vera góða niðurstöðu fyrir Reykjavík.  Hún segist vera sömu skoðunar og borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna um að almannahagsmunir eigi ekki samleið með áhættufjármögnun.  Opinber félög beri að selja séu þau komin í áhætturekstur og á samkeppnismarkað. 

Varðandi nýjan meirihluta í Borgarstjórn er Sigrún þeirrar skoðunar að erfitt og flókið verði að ná samstöðu í þessum hópi um veigamikil mál. “Það hafa verið átök á þessu kjörtímabili í grundvallarmálum milli flokkanna í Reykjavík og Framsókn og Sjálfstæðisflokkur oft mæst á miðri leið en það verður að mínu mati erfitt að ná málamiðlun milli fjórmenningaklíkunnar – aðila  sem eru eins ólíkir og áttirnar fjórar” segir Sigrún Björk Jakobsdóttir sem situr í bæjarstjórastól Akureyrar og tók við er Kristján Þór tók sæti þingmanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi. 

Hér kemur svo hið staðlaða viðtal Landpóstsins og svör Sigrúnar Bjarkar frá þeim tíma er gróskan var mikil í görðunum, löngu áður en laufin fóru að falla.

Hvernig skilgreinir þú þig?  Ég skilgreini mig sem konu, móður, dóttur, systur, vinkonu – og stjórnmálamann.  

Hver er þinn kjarni?  Trúin á að ég sé að gera eins vel og ég get. 

Staða: þe. Hjúskapar, búskapar og önnur stöðulýsing:  Maðurinn minn heitir Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Lífsvals. Við eigum tvö börn, Kamillu Dóru 11 ára og Björn Kristinn 9 ára.  Við fluttum til Akureyrar 1997 en áður höfðum við búið í Reykjavík og Hafnarfirði. Ég tók við sem bæjarstjóri á Akureyri í janúar 2007 en hef verið bæjarfulltrúi frá árinu 2002.  

Hvernig er að búa á Akureyri og hvers vegna Akureyri?  Ég hef búið á mörgum stöðum hér heima og erlendis og ég tel að búseta á  Íslandi og Akureyri séu forréttindi sem við metum ekki nægilega mikils.  Þrátt fyrir að Íslendingar  séu  örþjóð þá eru lífskilyrðin hér þau  meðal þeirra bestu. Akureyri er kannski lítill bær  en með mikla möguleika og góða þjónustu og bjarta framtíð sem ég vil fá að móta.  

Bakgrunnur: Ég er úr Keflavík og ólst upp þar, fór í Menntaskólann við Sund  og síðan lagðist ég í heimshornaflakk. Ég er hótelrekstrarfræðingur að mennt og vann aðallega  í hótel og ferðaþjónustugeiranum áður en ég byrjaði í pólitíkinni.  

Hvernig er starfið – staðan? Staðan er fín. Það er mjög mikið að gera hjá mér en starfið er skemmtilegt  og sífellt nýjar áskoranir og verkefni til að takast á við.  

Framtíðarárform: Nú horfi ég til þess að skipuleggja sumarið, það verður annasamt en ég  ætla að njóta góða veðursins þegar það gefst. Ég hef ekki haft eins mikinn tíma fyrir garðinn og ég hefði kosið og nú er ég að tapa árlegri fíflabaráttu. Og garðurinn lítur út eins  ljóð eftir Jónas Hallgrímsson, Fífilbrekka gróin grund.....  

Eftirminnilegur dagur:  Það eru margir eftirminnilegir dagar á rúmum 40 árum eins og þegar ég sá hann Jón minn í fyrsta skipti,  giftingardagurinn, fæðingardagar barnanna minna, þegar ég kom í fyrsta skipti á Torg hins himneska friðar, heimsótti Taj Mahal, dagurinn sem ég flutti til Akureyrar, þegar ég sigldi 19 ára gömul með Lagarfossi  frá Straumsvík  og sá landið hverfa við sjóndeildarhring, dagurinn sem ég varð bæjarstjóri, dagur með Seamus Heaney og fylgdarliði hér á Akureyri,  dagsganga yfir Heljardalsheiði og svo framvegis. Einstakir  dagar og það að safna góðum minningum er allt sem skiptir máli.  

Ef þú mættir og gætir farið í tímavél, farið hvert sem er og hitt hvern sem þú vilt – hvert ferðu og með hverjum ertu:  Ég hef alltaf verið heilluð af Spáni sérstaklega á tíma  borgarstyrjaldarinnar – þrátt fyrir það er ég algerlega andvíg stríðsrekstri og er mikill friðarsinni. Ég myndi leggjast í flakk  ca.1937 með Ernest Hemingway um spænskar sveitir og grundir með veislu í farangrinum og enda svo í húsi hinna týndu bóka í Barcelona og gleyma mér þar í nokkra daga. 

Matarboð: hvað er í boði? Hver eldar og hverjir sitja við borðið?  Ég myndi bjóða í morðgátu dinner, við myndum bæði elda hjónin – það er lang skemmtilegast þegar við erum saman í eldhúsinu,  með matseðil sem hæfir glæpnum og tilefninu, bjóða heim góðum vinum og lífskúnstnerum   sem hafa gaman af að skemmta sér og láta vaða í svona boðum.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir