Síþreyta?

Afkvæmið hefur nýlega, sennilega eftir undanfarin veikindi, öðlast nýjan skilning á setningunni; Ætla að myrða móður mína með því að svipta hana svefni. Það er hegðun sem hún fullkomnaði á fyrstu sex mánuðum ævi sinnar. Núna snýst það minna um að gráta vegna þess að hún er svöng, eða bara illgjörn (ekki láta neinn segja ykkur annað en að börn gráti af annarri ástæðu en illgirni, þessi börn, þessi vondu, vondu börn), og meira um einhverskonar hræðslu við 'eitthvað' í herberginu hennar.
Trekk í trekk í trekk... (you catch my drift) hleyp ég inn til hennar, og kem að henni þar sem hún stendur í rúminu sínu, starandi á eitthvað sem enginn sér nema hún. Svo slær hún botninn alveg úr þegar hún bendir skelfingu lostin á eitthvað - svo hárin rísa á hnakkanum á mér og ég gríp hana undir handlegginn, reyni að reka hausinn á henni ekki í hurðarkarminn í látunum, hleyp í blindni inn í herbergið mitt og skelli á eftir okkur hurðinni. 

Ég hef enga hugmynd um hvað gæti haft svona djúpstæð áhrif á hana. Okey, kannski hef ég hugmynd. Kannski er það helvítis gúmmífroskurinn sem ég svo eftirminnilega skaðaði hana fyrir lífstíð með. 

Meira að segja þegar ég reyni að róa hana, það er að segja þegar ég hleyp ekki með hana í fáti útúr herberginu, eins og ég sé að hlaupa með pakka á pósthúsið daginn fyrir jól, þá horfir hún bara í gaupnir sér, snökktir hljóðlega og leggur aðra hönd yfir augun. Eins og hún sé enn og aftur að endurlifa öll hræðilegu augnablik ævi sinnar. 

Yfirleitt pæli ég lítið í þessu, þar sem hún sýnir sömu viðbrögð við ýmsum mat - þá meina ég, ég set hana í matarstólinn og matinn fyrir framan hana og hún rekur upp skaðræðisöskur, reygir sig eins langt frá borðinu og er líkamlega mögulegt og grípur um ennið á sér. Dramadrottning? Á dögum þegar mér stendur á sama, veifa ég disknum framan í hana til að hefna mín fyrir þessa fyrstu sex mánuði, þegar hún var ekkert nema illgirnin uppmáluð. 

Svo það lítur allt út fyrir það að þessi þrjóski ormur, sem er greinilega ekki hrædd við að hafragrauturinn feli sig í skápnum hennar og ráðist á hana, sé hrædd við skriðdýr. Og hún heldur að þau sé í herberginu hennar á næturnar, tilbúin að éta á henni andlitið. Ég er að sjálfsögðu full samúðar, þar sem ég er ekkert sérstaklega hrifin af froskum eða öðrum skriðdýrum sjálf - (froskar eru skriðdýr, right?) en ég bara hreinlega sef ekki ef hún er við hliðina á mér! Kannski er ástæðan sú að bæði hendur og fætur virðast losa sig frá líkama hennar og finna sér stað einhversstaðar á mínum? Eða hvernig hún virðist vakna á hálftíma fresti til að öskra á mig fyrir að koma við hana að fyrrabragði? Kannski er það að loksins þegar ég næ að dotta, hrekk ég oftar en ekki upp við að hún situr við hliðina á hausnum á mér, hallar sér fram - eins og til að athuga hvort ég andi, eða gefa mér munn við munn, og starir þannig á mig.. í þögn. Það er ekki bara krípí í Children of the corn og Chucky myndunum skal ég segja ykkur. 

Ég hreinlega get þetta ekki lengur. Og þegar hún vaknar á næturnar fer ég þolinmóð, full góðum ásetningi inn til hennar og legg hana aftur niður. Segi henni að skriðdýrin éti bara andlit á daginn. 

En það verður erfiðara og erfiðara, því lengur sem ég er svefnlaus - að leggja hana aftur niður í rúmið sitt. Því það þýðir um það bil tíu ferðir fram og tilbaka, nokkrar mínútur í klapp á kollinn, kossa og fullvissu um enga drauga og engin skriðdýr - nokkrar mínútur í að hlusta á hana bylta sér, snúa sér.. then rinse and repeat. Og ég bíð eftir því að hún átti sig á því að ég er uppalandinn, og ég ræð. Ég stend á mínu! Svo eru það þessi litlu hikandi augnablik, eins og núna - þegar ég er að bilast af svefnleysi og ég horfi á hana með uppgjöf og huxa með mér; Guð, hef ég þolið í þetta? Hvað ef ég hunsa hana bara? Hættir þetta þá? Og svo BÚMM. Barnsrass í andlitið, fingur í mömmunefi, störukeppni og öskur. Aftur. 

Í morgun vorum við að lita áður en pabbi hennar kom að ná í hana, við ákváðum að teikna fjölskylduna okkar - mömmu, Lilju og Míu kisu. Ég teiknaði persónurnar og afkvæmið litaði vandlega. Og þegar ég segi 'vandlega', þá meina ég.. það voru strik.. og nokkur 'S' held ég. Og þegar kom að því að lita mömmu gömlu, valdi hún lime (lesist: gubb) grænan lit. Svo ég rétti henni litinn og var alveg, 'Gaur, er mamma lasin? Er mamma með ælupestina?' 

Lilja lét eins og hún heyrði ekki í mér, og vandaði sig mikið við verkefnið. 

Svo ég leit beint á hana, náði augnsambandi og sagði, 'Er mamma kannski bara græn af þreytu? Afþví að hún á litla stelpu sem hreinlega neitar að sofa í rúminu sínu?' 

Þá lagði hún frá sér litinn, veifaði mér að taka sig, lagði höfuðið á öxlina á mér og klappaði mér á bakið. Eins og til að segja, 'Mamma kjáni, ég er bara að passa þig. Það er nú kominn dagur, og skriðdýrin borða andlit á daginn.'

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir