Skammdegis sundleysi

mynd fengin af akureyri.is

Ég er einn af þeim sem hef aldrei skilið afhverju fólk vill seinka klukkunni. Ég vakna bara þegar á að vakna hvort sem það er vetur eða sumar, myrkur eða bjart. Það hélt ég allavega. Í mars síðast liðin tók ég upp á því að skella mér í sund á morgnana fyrir skóla. Ég var mættur fyrir utan Akureyrarlaug klukkan 06:45 þegar starfsfólkið opnaði. Það er eitthvað svo hressandi við það að byrja daginn á smá pottaspjalli og stuttum sundsprett, sem var sérstaklega stuttur þegar afi minn, sem hefur stundað morgunsundið í áratugi, hafði mikið að segja.

Í morgunsundinu eru allir jafnir, þar er engin stéttaskipting. Þetta er sérstætt samfélag. Það eru siðir og venjur sem ekki má brjóta (t.d. er alltaf sami einstaklingurinn fremstur og allir eiga sína skápa) en það eru samt allir jafnir, hvort sem um er að ræða lögfræðing eða verkamann. Þegar sumarvinnan hófst tók ég mér smá hlé frá morgunsundinu, mér fannst óþarfi að baða mig áður en ég settist í moldarbeðin í Lystigarðinum. Ég fann þó fljótt að sundið var orðið hluti af daglegu rútínunni og ég fór að mæta aftur á hverjum virkum morgni, klukkan 06:45, í laugina. Pottur, ísbað, smá nudd og svo göngutúr í lauginni með afa þar sem við ræddum allt milli himins og jarðar.

Haustið mætti á réttum tíma og skólinn fór af stað. Áfram hélt ég að mæta en fljótlega fór skrópunum að fjölga. Já ég sagði skrópunum, það er nefnilega vel fylgst með ef einn vantar úr hópnum og næst þegar maður lætur sjá sig er maður yfirheyrður í bak og fyrir. Til að byrja með voru þetta eitt til tvö skróp á viku, ekki meira en það. Eftir því sem liðið hefur á haustið og daginn styttir hefur þessum skrópum fjölgað allt of mikið.

Það er því að vel ígrunduðu máli sem ég stíg um borð í seinkunar vagninn með Guðmundi Steingrímssyni og félögum í Bjartri Framtíð. Ef ekkert breytist og ég fer ekki að vakna á morgnanna mun ég nefnilega að öllum líkindum falla á mætingu og missa skápinn minn frá mér.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir