Skiptir máli hvort næsti biskup verði karl eða kona?

Skilaboð ungrar leikskólastúlku. Mynd úr einkasafni
Í vor fara fram biskupskosningar þar sem séra Karl Sigurbjörnsson hefur beðist lausnar frá embættinu frá 30. júní. Nú þegar hafa sex einstaklingar tilkynnt opinberlega um framboð sitt til embættis Biskups Íslands, fjórir karlar og tvær konur.  Þær raddir hafa verið óvenju háværar fyrir þessar kosningar, að kominn sé tími á að setja konu í embættið og má vafalaust rekja það til þeirrar óánægju sem gætt hefur innan kirkjunnar á viðbrögðum séra Karls við málefnum tengdum Ólafi Skúlasyni, fyrrverandi biskupi. En af hverju ætti það að skipta einhverju máli hvort það er karl eða kona sem fer með embættið? Snýst þetta ekki bara einfaldlega um að velja hæfasta einstaklinginn óháð kyni?

Karllægur boðskapur

Kirkjan hefur í gegnum tíðina verið áhrifamikill boðberi feðraveldisins þar sem hefð hennar hefur verið mótuð af þröngt afmörkuðum hópi karlmanna, sem lifðu stærstan hluta ævi sinnar innan veggja klausturs og áttu lítil sem engin samskipti við konur. Fyrir vikið situr kirkjan uppi með karllægan boðskap þar sem valdir textar úr Biblíunni hafa óspart verið notaðir til þess réttlæta yfirburði karlsins yfir konunni. Þannig var konum lengi vel meinað um prestvígslu á þeim forsendum að samkvæmt Biblíunni væri eðli kvenna óæðra eðli karla og þar af leiðandi væru þær ófærar um að tjá og miðla eiginleikum Guðs. Þá var einnig bent á að þar sem Kristur hefði verið karlmaður gætu karlar einir gerst boðberar hans en ekki konur og eru þau rök reyndar enn notuð gegn prestvígslu kvenna innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar.

Jafnréttisáætlun kirkjunnar


Árið 1974 var fyrsta konan vígð til prests á Íslandi. Í dag, 38 árum síðar, fer konum sífellt fjölgandi innan prestastéttarinnar en það er umhugsunarefni hversu lítil áhrif þær hafa þegar kemur að yfirstjórn kirkjunnar. Síðustu tvö kjörtímabil hafa vígðar konur ekki átt fulltrúa í Kirkjuráði, kona hefur aldrei gegnt embætti forseta kirkjuþings og aldrei hefur kona þjónað sem biskup í Þjóðkirkjunni. Samt sem áður ber kirkjunni að starfa eftir jafnréttisáætlun sem var fyrst samþykkt af kirkjuþingi árið 1998 og síðar endurskoðuð árið 2009 en í henni segir m.a. „Markmið jafnréttisstefnunnar er að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla í þjóðkirkjunni og jöfnum möguleikum kynjanna til starfa, áhrifa og þjónustu.“ Samkvæmt þessu ætti það að vera skylda kirkjunnar sem og þjóna hennar að sjá til þess að hæf kona sé tekin fram yfir hæfan karl þegar kemur að næstu biskupskosningum.

Að láta verkin tala

Þjóðkirkjunni gefst í vor tækifæri til þess að sýna það í verki að hún taki sína eigin jafnréttisáætlun alvarlega. Með því að kjósa konu í biskupsembættið væri Þjóðkirkjan að senda mikilvæg skilaboð þess efnis að ekki sé lengur hægt að ætlast til þess að konur sýni endalausa þolinmæði í biðinni eftir því að jafnrétti kynjanna verði náð sjálfkrafa. Í leiðinni væri kirkjan einnig að veita ungum stúlkum dýrmæta fyrirmynd. Það er því löngu orðið tímabært að kjósa konu til að gegna embætti Biskups Íslands og já það skiptir máli að það sé kona!


Hildur FriðiksdóttirAthugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir