Skjótt skipast veður í lofti

Varúð - Hálka

Þegar þetta er skrifað fer önnur vikan af þessarri önn að klárast, allavega fyrir mína parta. Námskeiðin eru farin að taka á sig mynd og lofa góðu. Fyrir okkur nýnemana frá síðustu önn fer þessi önn mun hraðar af stað en sú síðasta, sem er frekar strembið eftir langt og gott jólafrí. Alltsaman er þetta þó eins og við var að búast og ekki hægt að kvarta, rétt eins og við íbúar Íslands getum ekki kvartað yfir veðráttunni. Hún er eins og við má búast, óútreiknanleg.

Alltaf getum við rætt saman um veðrið, sama hvað er í gangi. Hver kannast ekki við að skjóta inn einni pælingu um skýjabakkann í fjarska til að drepa þögnina og hleypa smá fjöri í umræðuna? Jafnvel fréttatímarnir eru farnir að snúast meira um veður en bankahrunið. Breyting til hins betra myndi ég segja. Líklegast eru þetta ýkjur í mér en það breytir ekki þeirri staðreynd að fréttamenn héldu varla vatni yfir öllum þrumunum og eldingunum á suð-vesturhorninu í dag. Það verður aldeilis spjallað um þessa ótrúlegu beygju sem veðrið tók í pottunum næstu daga.

Fyrr í þessari viku kepptust netmiðlar um að koma með nýjustu tölur á slysum í hálkunni. Þetta var álíka spennandi og kosningasjónvarpið þó ekki hafi eins margir legið sárir eftir hálkubylturnar og eftir útkomur kosninga. Að vísu eru þetta fréttir af slysum á fólki, en það er veðrið sem á stóran þátt í að orsaka þessi slys. Og nú er ég kominn að tilgangi þessa pistils. Árið er 2010 og við eigum ekki að láta veðrið stjórna okkur. Við eigum ekki að láta bjóða okkur upp á það að þurfa að tipla á tánum á glerhörðum ísnum og klífa 3 metra háa skafla til skiptis á gangstéttum Akureyrar. Nú er búið að skvetta smá möl á helstu gangbrautir en betur má ef duga skal. Maður sér fólk sikk-sakka á stéttunum eða hreinlega labba á götu ef ekkert annað býðst. Það standa heilu og hálfu jöklabreiðurnar út á götu og yfir stéttar og ekkert er að gert. Það er bara vonandi að hlýnun jarðar sjái um þetta. Hvað þurfum við að fá margar fréttir af ökkla- og úlnliðsbrotum til að laga þessa blessuðu hálku? Það þýðir lítið að byrgja brunninn eftir á.

Það er þó ljós í myrkrinu hversu færir ökumennirnir hérna eru, enda skutlast þeir á ósöltuðu svelli allan daginn.

-Gísli S.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir