Skýjaborg

Dýr bygging

Þegar fólk talar um Dubai lýsir það borginni sem hálfgerðu himnaríki. 7 stjörnu hótel, verslunarmiðstöðvar jafnstórar og lífið sjálft, stærsta hitt og stærsta þetta, besta hitt og besta þetta. Í miðri eyðimörk. Það er ástæða fyrir því að eyðimerkur heiti eyðimerkur. Lífverum er ekki ætlað að búa þarna.

Ég fæ alltaf grænar bólur þegar fólk dásamar þessa draumaveröld, rétt eins og þegar fólk segir að Júróvisjón sé tónlistarkeppni. Það getur vel verið að þægilegt sé að eyða fríinu sínu þarna og njóta þeirra lystisemda sem peningar geta fært manni. Það fylgir þó sjaldan sögunni hvernig þetta allt varð að veruleika.

Vinnumennirnir sem byggja hótelin geta aðeins látið sig dreyma um að gista þar, ein nótt kostar meira en þeir munu vinna sér inn yfir ævina. Þeir skrifa undir samninga sem ná yfir áratugi og búa saman í kofum út í eyðimörkinni nánast eins og í fangabúðum nasista. Ofan á allt þetta er þeim borgað eftir hentisemi.

Afhverju mótmæla þeir ekki? Afhverju boða þeir ekki til verkfalls? Afhverju fara þeir ekki aftur heim? Mótmæli og verkföll eru ólögleg. Punktur. Beint í fangelsi. Það er ekki hlaupið að því að komast heim. Flugmiðar kosta sitt og laun verkamannanna er langt frá kostnaði fyrir flugmiða. Þ.e.a.s. ef þeir fá borgað. Og þó svo að einhver nái að skrapa saman fyrir flugfari kemst hann ekki langt því vinnuveitandinn hefur þegar tekið frá honum vegabréfið.

Þetta eru skýr mannréttindabrot sem þægilegt er að horfa framhjá. Ég stórlega efast um að íbúar Dubai fái mikið að vita um ástandið þar sem stjórnvöld stýra fjölmiðlum, eða nánast öllu. Dubai er blendingur strangra íslamskra laga og leikvelli ríka fólksins.

Það eru þó ekki aðeins Dubai-búar sem lítið fá að vita um ástandið þarna. Fyrir hverja frétt sem við sjáum um þetta koma fjórar sem láta okkur vita hvernig gengur að byggja hæsta hús í heimi eða hversu langt þeir eru komnir með manngerðu eyjarnar sínar. Þessar eyjar eru svo tilefni í heilan pistil, umhverfisspjöllin eru þvílík.

Það er fullt tilefni til að hafa í huga að undir fögru yfirborðinu er ekki endilega allt með felldu. Það er ekki endilega allt sem sýnist.

-Gísli S.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir