Flýtilyklar
Spandexrassar í hrákökuboðum
Ef heilsuvakning síðustu ára hefur farið framhjá þér þá kemur aðeins tvennt til greina. Þú ert annaðhvort einn þrettán þekktra bræðra sem búa uppi á fjöllum eða þú ert að lesa þessa grein heima hjá þér, í útlöndum. Við hin höfum svo sannarlega fundið þessa heilsuöldu skella á okkur með öllum sínum lífræna fítonskrafti.
Nú er maður ekki maður með mönnum nema eiga neon litaðan jakka og spandexbuxur sem maður skottast í á milli húsa eða í vinnuna. Annaðhvort á tveimur jafnfljótum eða þá fyrir lengra komna, á tveimur kringlóttum ennþáfljótari. Í gær var allt fitulaust en í dag er smjör og rjómi málið. Sykur er aftur á móti baneitraður en aspartam er víst í lagi. Brauðið sem maður borðaði í bílförmum sem krakki er nú bannvara og meira að segja jógúrt er dottið úr tísku. Það er greinilega einskær heppni að manni hafi tekist að komast lifandi í gegnum sín ungdómsár.
Ef maður ætlar að stíga þessa heilsuöldu án þess að líta út eins og bjáni þá þyrfti maður helst að vera á vikulegum námskeiðum. Þar gæti maður alltaf fengið fréttirnar af því hvað má og má ekki hverju sinni. Þar gæti maður líka lært um öll orðin sem gott er að kunna svo maður geti haldið uppi vitrænum samræðum við hina spandexrassana í hlaupahópnum.
Öll þessi orð eru náttúrulega sér kapítuli út af fyrir sig. Skoðum t.d orðið hrákaka. Hrákaka er einhverskonar tilraun íslenska heilsufíkilsins til að gera eitthvað gómsætt úr allskonar ógeðslega hollu. Afurðin er gjarnan frekar skrítin og slepjuleg og stenst sjaldnast samanburð við alvöru íslenskar hnallþórur með sínum hvíta sykri, niðursoðnu ávöxtum og beljurjóma í lítravís. Þó svo að orðið hrákaka geti verið afskaplega hljómfagurt af vörum Akureyringa þá er þetta nafn engan veginn að hjálpa til við að gera þessa köku girnilegri. Hrákaka er enda einungis einu ka frá hráka. Oj bara. Má þar með segja að hrákaka veiti hinni klassísku hjónabands ælu talsverða samkeppni um versta kökunafn íslenskrar tungu. Já, verði ykkur að góðu.
Þessi heilsualda er samt alls ekki alslæm. Síður en svo. Það er frábært að fólk hreyfi sig og hugsi um hvað það setur ofan í sig. Ef það fær okkur til að líða betur þá eru spandexbuxur, harðsperur og hrákökuboð algjörlega þess virði.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir