Spilar sem atvinnumaður í Danmörku!

Rakel Hönnudóttir
Rakel Hönnudóttir, tvítug Akureyrarmær er ein af bestu fótboltakonum landsins.
Í byrjun árs ákvað hún að flytja til Danmerkur til að spila sem atvinnumaður í fótbolta með danska liðinu Bröndby.
Rakel er stúdent og útskrifuð af íþróttabraut úr Verkmenntaskólanum á Akureyri. Hún byrjaði 10 ára gömul að spila fótbolta með íþróttafélaginu Þór. Fyrstu fimm árin sem markmaður en færði sig síðan framar á völlinn í framherjastöðuna, með landsliðinu hefur hún verið að spila stöðu kantmanns.

Á yngri árum var helsta fyrirmynd hennar enginn annar en Michael Owen sem spilaði með Liverpool.
Rakel var kosin íþróttamaður Akureyrarbæjar árið 2008 og einnig íþróttmaður Þórs sama ár.

Blaðamaður á Landpóstinum hafði samband við Rakel og spurði hana út í boltann og atvinnumennskuna.

Aðspurð að því hvað hafi orðið til þess að hún ákvað að fara út í atvinnumennskuna segist hún hafa séð þetta sem kjörið tækifæri til að bæta sig sem knattspyrnukonu, ,,danir spila allt öðruvísi fótbolta, þeir eru að spila heilan leik á 1-2 snertingum og hér úti eru þjálfararnir á fullum launum við að þjálfa okkur vel og maður getur hringt í þá nánast allan sólahringinn og beðið um aukaæfingu, svo ég er að bæta mig helling persónulega“ segir Rakel.

Þess má geta að Rakel er eini erlendi leikmaður kvennaliðs Bröndby en liðið er sterkt og eru þær sexfaldir Danmerkurmeistarar. Vallarstaða Rakelar með Bröndby er annað hvort sem framherji eða kantmaður. Hún hefur verið í byrjunarliðinu oftast og spilað megnið af leikjunum. En þær eru búnar að vera að spila á móti sterkustu liðum Evrópu og segir Rakel að þeim hafi gengið ágætlega.

Spurð út í það hvort atvinnumennskan sé eins og hún hélt og hvort hægt sé að lifa á henni svarar Rakel að þetta sé allt öðruvísi en hún hafi haldið. Hún hefur mun meiri frítíma en hún hafði gert ráð fyrir og því sé hún oft í vandræðum með að finna sér eitthvað að gera milli æfinga. En það kemur fyrir að hún noti frítímann sinn í að stökkva yfir til Svíþjóðar í heimsókn til hinna stelpnanna sem spila með henni í Landsliðinu. Lífið hér kemst ekki nálægt því að vera eins og sýnt er í þáttunum um atvinnumennina okkar. Við stelpurnar í landsliðinu grínumst oft með það hversu skemmtilegt væri nú að gera sjónvarpsþátt um Margréti Láru eða einhverja af okkur sem eru í atvinnumennsku og sýna blokkaríbúðirnar sem við búum í og hjólin okkar sem við notum til að komast á milli staða, í staðinn fyrir einbýlishúsin og sportbílana. Það er ekki hægt að lifa á „atvinnumennskunni“ eins og hún er hérna segir Rakel.

Hinn venjulegi dagur hjá Rakel er að vakna um hálf sjö ef það er morgunæfing, fá sér morgunmat og vakna almennilega áður en hún hjólar á æfingu sem byrjar klukkan átta. Eftir góða æfingu fer hún heim og fær sér góðan hádegismat og bíður eftir því að seinni æfing dagsins hefjist, en hún er yfirleitt í kringum fimm leytið. Það er misjafnt hvað Rakel gerir til að fylla upp í tímann sem er milli æfinga en oftast fer hún og labbar á Strikinu, spilar í Playstation eða á gítarinn sinn. Svo eftir seinni æfinguna er farið heim, fengið sér kvöldmat, slappað af fyrir framan sjónvarpið og svo farið að sofa.

Danmerkurdvölin fer vel í Rakel en þó eru að sjálfsögðu nokkrir hlutir sem hún saknar frá Akureyri eins og stuttar vegarlengdir, Hlíðarfjall, Brynjuís og að sjálfsögðu fjölskyldunnar og vina.

EM er framundan og ákvað ég að forvitnast hvernig undirbúningur fyrir EM færi fram hjá Landsliðinu. Rakel segir að undirbúningurinn fyrir EM hafi byrjað með Algarve mótinu í Portúgal þar sem þær stöllur spiluðu við mjög sterk lið, en einnig sé á döfinni nokkrir æfingaleikir fyrir EM. Það sé meðal annars heimaleikur á móti Hollandi og útileikir á móti Danmörku og Englandi, svo það er í nógu að snúast fyrir EM.

Í sumar tekur Rakel stefnuna heim og ætlar að spila með Þór/KA og segir þær hafa há markmið. Rakel er bjartsýn á sumarið hjá ÞÓR/KA og telur að þrátt fyrir að margar af sterkustu leikmönnum deildarinnar séu farnar út í atvinnumennskuna verði deildin ekki lakari heldur frekar jafnari. Svo eru alltaf einhverjir erlendir leikmenn sem styrkja deildina og einnig er jákvætt að ungar og efnilegar stelpur fá tækifæri til að spila.

Helstu markmið Rakelar í framtíðinni tengd fótboltanum eru að stefna á að halda sér í landsliðshópnum og festa sig í sessi í byrjunarliðinu. Svo er aldrei að vita hvar í heiminum hún muni reyna fyrir sér í framtíðinni.

Rakel á mörg önnur áhugamál fyrir utan fótboltann, hún  hefur mikinn áhuga á tónlist og spilar meðal annars á gítar. Einnig finnst henni mjög gaman á snjóbretti og af öllum öðrum íþróttum, en þá aðallega handbolta.

Enn er óákveðið hvort hún fari aftur út til Danmerkur næsta haust eftir tímabilið með Þór/KA en Rakel segir að ekkert sé útilokað.

Og að lokum spurði ég Rakel hvort Danir væru í raun og veru ligeglad?
 ,,Danir eru mismunandi en í heildina myndi ég nú segja að þeir væru ekkert allt of ligeglad“

Athyglisvert verður að fylgjast með þessari frábæru íþróttakonu á komandi árum.

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir