Staðalímynd-ir kvenna

Stundum heyrist því haldið fram að kvenkyni öllu sé haldið niðri með framsetningu á staðalímynd konunnar. Þar með er gefið í skyn að konur læri hvernig þær eigi að líta út og hegða sér út frá einhverri ákveðinni staðalímynd.

Nýlega varð til dæmis allt vitlaust eftir að brasilískar nærfataauglýsingar römbuðu í heimspressuna. Í auglýsingunum sást kona sem þurfti að færa karli sínum leiðinlegar fréttir. Skilaboð auglýsinganna var skýr: Ef færa þarf karlmanni slæmar fréttir, EKKI vera í gömlum bómullarbol, nei vertu með fullkominn líkamann aðeins íklæddan örsmáum nærfötum, já og dillaðu bossanum.

Gott og vel.

Þar höfum við staðalímynd ungu kynþokkafullu konunnar. Þessi kona var hins vegar svolítið útsmogin.

Það sama verður ekki sagt um kynsystrar-staðalímyndar-veru hennar, Ljóskuna. Ónei. Sú er óttalega vitlaus. Eiginlega lífshættulega vitlaus: „Hvernig kemurðu ljósku niður úr tré?“ „Þú veifar til hennar.“
Bara svona til að taka dæmi.

Sem sagt, þarna eru strax komnar tvær staðalímyndir kvenna – önnur ráðagóð og hin, ja, ekki svo ráðagóð en ójújú, báðar sexí.

En svo höfum við trukkalessuna, þessa með yfirvaraskeggið og öll hin líkamshárin, í gamla leðurvestinu og gott ef ekki hárið hálfkleprað.

Og svo þessa með fyrirtíðarspennuna, þessa með ungabarnið sem ekki talar um neitt nema bleyjur, þessa of menntuðu, þessa húmorslausu og þá klikkuðu, þessa snobbuðu, þessa traustu og þá ráðagóðu, þessa giftu sem aldrei vill sofa hjá, þessa einhleypu sem sefur hjá öllum, þessa einhleypu sem aldrei fær að sofa hjá og þessa giftu sem sefur hjá öllum, gömlu geðvondu kellinguna, ofurblíðu ömmuna, þessa stjórnsömu og þá ósjálfstæðu.......

Þannig að - ef að við kynsystur mínar ætluðum að láta staðalímynd kvenna halda okkur niðri, væri þá ekki rökrétt að spyrja sig og sletta ærlega í leiðinni: Öhh, hú tú pikk?!

Þórný Barðadóttir.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir