Stađgöngumćđrun - góđverk eđa óeđlileg ţvingun?

Mynd: women-health-info.com
Þann 18. janúar síðastliðinn samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að skipaður yrði starfshópur sem hefði það hlutverk að undirbúa frumvarp um að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni en áætlað er að frumvarpið verði lagt fram eins fljótt og verða má. Í tillögunni er bent á að tekið hafi verið þýðingarmikið skref í átt að auknu frjálsræði með því að heimila einhleypum konum og samkynhneigðum einstaklingum að gangast undir glasafrjóvgun og að með þeirri lögleiðingu sé nú þegar búið að kljást við ýmis siðferðileg álitamál sem gætu komið upp í tegnslum við staðgöngumæðrun. Í tillögunni segir orðrétt: „Munurinn á þessu úrræði og staðgöngumæðrun er aðeins sá að sú kona sem gengur með og fæðir það barn sem varð til með glasafrjóvgun, og hún hefur engin erfðafræðileg tengsl við, lætur barnið af hendi við fæðingu . . . Því telja flutningsmenn að þegar hafi verið tekið á þeim lagalegu og siðfræðilegu álitamálum sem tiltekin hafa verið, möguleikinn til þess að heimila staðgöngumæðrun sé fyrir hendi og að lagabreytingar sem þurfi að gera séu ekki verulegar enda hafi þegar farið fram nokkur umræða um þessa þróun“.

Þetta þykir mér ansi ódýr afgreiðsla á jafn erfiðu og viðkvæmu máli sem staðgöngumæðrun er þar sem mikill grundvallarmunur er á því hvort gengið sé með eigið barn eða barn einhvers annars sem verður afhent að fæðingu lokinni. Sú kona sem fer út í glasafrjóvgunarmeðferð til að geta átt þess kost að eignast sitt eigið barn og uppfyllt þannig eigin langanir og þrár byggir ákvörðun sína á allt öðrum forsendum en sú kona sem framkvæmir verknaðinn sem velgjörð við aðra og það er mikilvægt að gerður sé greinarmunur þar á milli.

Staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni er fyrst og fremst hugsuð sem einhvers konar góðverk sem framkvæmt er af fúsum og frjálsum vilja án þess að viðkomandi hafi af því fjárhagslegan hag. Almennt er því talið heppilegra að náin tengsl séu til staðar milli staðgöngumóður og verðandi foreldra til að tryggja að athöfnin sé gerð vegna væntumþykju og umhyggju fyrir velferð þeirra sem ekki geta eignast barn eftir náttúrulegum leiðum. Gallin er hins vegar sá að það er fullkomlega eðlilegt að finna til ákveðinnar skyldu til að koma nánum ættingjum og vinum til aðstoðar þegar erfiðleikar steðja að og því er ákveðin hætta til staðar að með lögleiðingu á staðgöngumæðrun, komi þær konur sem standa ófrjósömum einstaklingum nálægt að finna til íþyngjandi kvaðar að bjóða upp á þjónustu sína í þessum efnum. Það getur því verið erfitt að ætla að tryggja það að ákvörðun staðgöngumóður sé tekin algjörlega af fúsum og frjálsum vilja án þess að viðkomandi finnist hún vera beitt óeðlilegum þrýstingi til að gera góðverk fyrir nákominn aðila sem ekki getur eignast barn á náttúrulegan hátt.

Rannsóknir sýna að það skiptir staðgöngumæður miklu máli að geta litið svo á að þær séu að veita ófrjósömum einstaklingum ómetanlega gjöf og skiptir þá ekki máli hvort greitt sé fyrir þjónustuna eða ekki. Frumhvati staðgöngumæðrunar virðist því að miklu leyti byggja á ákveðinni samkennd og fórnfýsi þar sem tilhugsunin um að geta koma ófrjósömum einstaklingum til aðstoðar með ómetanlegum hætti vegur þungt. Raunar er þessi samkennd og fórnfýsi frumforsenda þess að hægt sé að bjóða upp á staðgöngumæðrun enda hafa erlend fyrirtæki sem bjóða upp á slíka þjónustu reynt að höfða fyrst og fremst til tilfinninga verðandi staðgöngumæðra í auglýsingaherferðum sínum fremur en fégræðgi. Áður en til lögleiðingar þessa frumvarps kemur þarf því að huga alvarlega að því hvort það sé með því verið að stíga skref í þá átt að upphefja og ýta undir fórnfýsi hjá konum.

Með auknu frjálsræði í breytingum á lögum til tæknifrjóvgunar og staðgöngumæðrunar vakna spurningar um það hvort og þá að hvaða marki eigi að stjórna barneignum fólks. Í því samhengi er nauðsynlegt að velta fyrir sér hvort það eigi að teljast til sjálfsagðra mannréttinda að öllum tiltækum ráðum sé beitt í þeim tilfellum þar sem einstaklingar og pör geta ekki eignast barn á náttúrulegan hátt. Og til þess að við sem samfélag getum verið undir það búin að axla þá siðferðilegu ábyrgð sem lögleiðing á staðgöngumæðrun fylgir þá verðum við að huga vel að því hvar við viljum láta draga mörkin í þessum efnum áður en að lögleiðingunni kemur!


Hildur Friðriksdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir