Stelpustrákur: Niðurlæging eða hrós?

mynd úr myndasafni Google

Flestar konur eru uppteknar af jafnréttishugsjónum á einn eða annan hátt. Um daginn rakst ég á pistil sem vakti mig til umhugsunar, en þar tók kona dæmi um fjögurra ára dreng sem þorði ekki að fara einn í rúllustiga og móðirin sagði við hann „þú ert nú meiri stelpustrákurinn“. Pistilskrifari túlkaði þessi orð þannig að þarna væri móðirin í hugsunarleysi að gera lítið úr drengnum.

Þetta kveikti á „komum-upp-úr-hjólförunum-viðvörunarbjöllunum“ hjá mér og ég fór að velta þessu fyrir mér. Hvernig er það niðurlægjandi fyrir dreng að vera líkt við stelpu? Ertu stelpur þá ómerkilegri en strákar? Ef það er stelpulegt að vilja aðstoð við það sem maður treystir sér ekki til að takast á við einn, hlýtur það þá ekki að vera af hinu góða að vera stelpulegur? Eða eru skynsemi og varkárni kannski ekki eiginleikar sem maður vill rækta hjá börnum sínum? 

Hér sýnist mér vera á ferðinni dæmi um hina rótgrónu karlmennskudýrkun fortíðarinnar sem situr ennþá pikkföst í hausnum á okkur öllum – ekki síður konum en körlum. Leifar gamla feðraveldisins leynast víða.. Það var svo lengi talið mönnum til tekna að harka af sér, vera sterkur, sjálfstæður, framsækinn og svo framvegis og til þess að stúlkur ættu möguleika á því að verða einhvers metnar þurftu þær að reyna að standa undir þessum mælistikum. En svo gátu þær líka farið hina leiðina og fengið viðurkenningu fyrir að vera sætar, prúðar og stilltar. Til allrar hamingju hafa tímarnir breyst og það er kominn tími til að breyta til í kollinum á okkur líka og taka upp ný gildi og viðmið.

Á dv.is er fjallað um pistil sem leikkonan Ashley Judd skrifaði nýlega, en þar kveðst hún fullsödd á útlitsdýrkun nútímans og segir meðal annars:

„Feðraveldi er ekki karlar. Feðraveldi er kerfi sem bæði karlar og konur taka þátt í. Það gerir meðal annars hugðarefnum drengja og karla hærra undir höfði heldur en líkamsvirðingu, sjálfræði og sæmd stúlkna og kvenna. Það er órætt, lævíst og aldrei hættulegra en þegar konur neita því af ástríðu að þær séu hluti af því. Hin óeðlilega þráhyggja gagnvart andliti og líkama kvenna er orðin svo alvanaleg að við (að mér sjálfri meðtalinni, á stundum – ég læt svo sannarlega ennþá blekkjast) höfum aðlagast feðraveldinu algjörlega. Við erum oft ófærar um að sjá okkar eigin mannorðsspjöll gagnvart okkur sjálfum, eða gangvart öðrum stúlkum og konum“.

Ég tek heilshugar undir þessi orð hennar og vona að þau verði mörgum fleiri til umhugsunar. 

Borghildur Kjartansdóttir

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir