Stílbrot ?

Fyrir kosningar og prófkjör á Íslandi ríkir ákveðin hefð varðandi blaðaskrif. Þegar styttast fer í kosningar skrifa stuðningsmenn flokkanna stuttar greinar til stuðnings sínum manni/konu og eru þessar greinar oftast einhverskonar lofræða um ágæti viðkomandi og hvað hann/hún muni nú koma mörgum frábærum hlutum  í verk fái hann/hún brautargengi í stjórnmálunum.

Dagana fyrir kjördag bætast sjálfir frambjóðendurnir í hóp greinaskrifara og eru það greinar í svipuðum dúr og þær sem frá stuðningsmönnunum koma. Þó er að finna stöku sinnum greinar sem innihalda eitthvað svolítið beitt og eftirtektarvert.


Síðastliðinn föstudag voru í Morgunblaðinu fjölmargar greinar eftir frambjóðendur sem óska stuðnings í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fer laugardaginn 14. mars. Það var athyglivert að tveir þessara frambjóðenda voru með sömu fyrirsögn á sínum greinum: „Kæru Sjálfstæðismenn“. Þetta voru Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður og Jórunn Frímannsdóttir borgarfulltrúi í Reykjavík. Þó svo að þessi fyrirsögn þyki væntanlega alveg klassísk í tilefni prófkjörs þá hljómar hún óneitanlega lítið spennandi og getur kona látið sér detta í hug að þarna sé á ferðinni fólk sem ekkert hefur nýtt fram að færa. Ekki væri nú alveg  sanngjarnt að dæma greinarnar alfarið eftir fyrirsögninni en þegar innihaldið var skoðað staðfesti það óneitanlega að fyrirsögnin hafði gefið rétta vísbendinu þ.e. sama tuggan á boðstólum. Það er reyndar stundum alveg eins og stjórnmálamenn séu svo innrammaðir að málflutningur þeirra og skrif minnir á útfyllt eyðublað – algjörlega staðlað og fyrirsjáanlegt. Þannig sagði Sigurður Kári í grein sinni að við stjórnmálamönnum blöstu nú „risavaxin verkefni við endurreisn samfélagsins . Við höfum verk að vinna. Ég er reiðubúinn að axla þá ábyrgð sem í þeirri vinnu felst“.  Og Jórunn er á svipuðum nótum þar sem hún segir: „það skiptir miklu máli að Sjálfstæðisflokkurinn verði við stjórnvölinn eftir kosningar í vor. Öflugt atvinnulíf og traust efnahagsástand er nauðsynleg forsenda fyrir aukinni farsæld þjóðarinnar. Mikilvægt er að efla undirstöður atvinnulífsins með framsækinni atvinnustefnu og ábyrgri fjármálastjórn.......“. 
Það er bókstaflega eins og kreppan sé, að mati þessa fólks,  á engan hátt tengd valdasetu Sjálfstæðisflokksins síðastliðin 12 ár. Og það er eins gott að kjósendur geri sér grein fyrir þessari afstöðu Sjálfstæðismanna og veðji á breytingar en ekki óbreytt ástand.


Í sama föstudagsblaði Moggans var grein eftir Sigurð Örn Ágústsson sem sækist eftir sæti á lista sjálfsstæðismanna í Norðvesturkjördæmi. Sigurður þessi er einn af þeim sem var í forsvari  fyrir hina svokölluðu endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins, sem ekki fékk mjög blíðar viðtökur frá forystu flokksins. Í grein sinni notar Sigurður sterk orð: „...kjark- og framtaksleysi sem einkennt hefur rannsókn og aðgerðir í kjölfar efnahagshrunsins.“ Hann virðist ekki kæra sig um sömu stöðluðu nálgunina og áðurnefndir greinarhöfundar og má greina í málflutningi hans að hann sé óhræddur við að mæla með óhefðbundnum aðferðum við endurreisn samfélagsins, a.m.k. óhefðbundnum á mælikvarða Sjálfstæðisflokksins. Hann segir m.a. „Magnað að það þurfti Egil Helgason og góðan gest hans til að opna augu ráðamanna fyrir hinni augljósu staðreynd að ráðast þurfi gegn óvinum Íslands“ og henn heldur áfram: „Sömu aðferðafræði á að beita hvítflibbaglæpamenn og aðra afbrotamenn“. Þarna er á ferðinni maður sem virðist sjá hlutina án „flokksklafa-gleraugna“ Sjálfstæðisflokksins sem vekur vonir um að flokkurinn sé  kannski ekki alveg blindur á sjálfan sig. Í öllu falli er það vel að innan flokksins fái þrifist menn sem virðast vera færir um einhverja gagnrýna hugsun. Miðað við undanfarna mánuði hlýtur það að teljast  stílbrot í málflutningi sjálfstæðismanna


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir