Stöđnun eđa framfarir?

Akureyri Handboltafélag
Handboltatímabilið er farið af stað á ný eftir sumarfrí og hefur Akureyri Handboltafélag spilað tvo leiki hingað til. Fyrsti leikurinn var gegn nýliðum Aftureldingar í Mosfellsbæ og sigraði Akureyri með 29 mörkum gegn 23. Í dag tók liðið svo á móti Fram í fyrsta heimaleiknum og beið lægri hlut 26-30.


Þótt stutt sé liðið á tímabilið eru ákveðnir punktar í leik og þjálfun liðsins sem vekja upp spurningar. Fyrsti leikurinn var gegn slöku liði Aftureldingar og áttu Akureyringar í þónokkru basli með þá framan af þótt sigurinn hafi í raun aldrei verið í hættu. Leikurinn í dag var svo nánast eins og eftirmynd fjölmargra leikja liðsins í fyrra.

Framan af leik lék liðið sterka vörn og þrátt fyrir erfiðleika í sóknarleiknum var jafnt á öllum tölum. Undir lok fyrri hálfleiks og í byrjun þess seinni skora Frammarar fimm mörk gegn engu og eftir það virtist lið Akureyrar aldrei líklegt til þess að ná einhverju út úr leiknum.

Það sama gerðist margoft í fyrra og helsta áhyggjuefnið var að leikmenn liðsins virtust á köflum missa trúna á því sem þeir voru að gera. Í dag var þó jákvætt að sjá nokkra leikmenn liðsins halda áfram að berjast á fullu en ef ekki hefði verið fyrir stórleik Magnúsar Stefánsson í sókninni, þar sem hann dró algjörlega vagninn fyrir Akureyringa, hefði liðið verið kjöldregið af sprækum Frömmurum. Allt of margir leikmenn einfaldlega týndust og virtust hræddir við að taka af skarið sem einfaldlega gengur ekki í handbolta.

Einnig er gríðarlega gott að fá Jónatan Magnússon inn í liðið eftir erfið meiðsli. Reynsla hans og barátta á vonandi eftir að smita út frá sér og gæti það reynst ákaflega mikilvægt. Hann virðist þó ekki í fullu formi ennþá en þegar hann verður orðinn heill er ljóst að þar er um lykilmann að ræða.

Í leiknum í dag gerðist hins vegar mjög leiðinlegur atburður. Hinn ungi og efnilegi markvörður Akureyrar, Sveinbjörn Pétursson gerði sig sekan um slæma sendingu fram völlinn sem endaði í höndum Frammara sem þökkuðu pent fyrir sig og skoruðu. Þjálfari liðsins, reynsluboltinn Rúnar Sigtryggsson, veittist þá að Sveinbirni og eftir smá orðaskak sendi hann markvörðinn á bekkinn.

Þessi framganga Rúnars var honum ekki til framdráttar og virkaði sem olía á eld þeirra sem telja hann ekki rétta manninn í þjálfarastöðuna. Þegar svo reynslumiklir menn gera sig sekan um slíkt athæfi fyrir framan fulla höll af fólki er augljóslega eitthvað ekki í lagi. Rúnar hafði sjálfur gert sig sekan um slæm mistök fyrr í leiknum og spurning hvort hann hefði ekki betur skipt sjálfum sér útaf.

Akureyri Handboltafélag virkar síst sterkara lið í ár en í fyrra og þrátt fyrir að hafa misst sterka leikmenn eins og Aigars Lazdins og markvörðinn Hreiðar Guðmundsson hlýtur það að vera krafa aðdáenda að liðið taki framförum. Þegar þær virðast ekki sjást fara þeir óhjákvæmilega að leita ástæðna og þá liggur beinast við að setja spurningamerki við þjálfun liðsins.

Undirritaður vonar þó innilega að þjálfarar og leikmenn liðsins láti hann éta slíkar efasemdir ofan í sig og spili góðan og árangursríkan handbolta í vetur. Næst fá þeir möguleika til þess næstkomandi laugardag þegar þeir mæta liði HK í Kópavogi.

Þorgeir Rúnar Finnsson

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir