Strákarnir okkar svartir og hvítir gegn Austurríki

Úr stúkunni. Mynd: SE

Baráttuandi og þrautseigja íslensku leikmannanna var til fyrirmyndar í ótrúlegum viðsnúningi gegn Austurríki í gær. Fyrri og seinni hálfleikir voru eins og svart og hvítt. Eftir slakan fyrri hálfleik komst vörnin og markvarslan á fullt skrið í þeim seinni og strákarnir fóru að sýna sitt rétta andlit með því að klára færin sín betur. 

Stuðningsmenn Íslands voru þó nokkuð slegnir þegar flautað var til hálfleiks og Ísland var 5 mörkum undir, 11-16. Austurríkismenn höfðu spilað góða vörn í fyrri hálfleik og markmaður þeirra Nicola Marinovic varið 9 skot á móti einungis 2 hjá Björgvini. En þegar íslensku leikmennirnir mættu til leiks í seinni hálfleik fóru þeir að spila þá góðu vörn sem þeir hafa sýnt í síðustu leikjum. Við það kviknaði á Björgvini í marki Íslands og hann varði 13 skot á móti aðeins 4 hjá kollega sínum hinum megin á vellinum. Íslendingarnir á pöllunum hvöttu strákana til dáða og hávaðinn stigmagnaðist eftir því sem leið á leikinn. Spennan var magnþrungin allan leikinn, allt þar til rétt rúm mínúta var eftir og augljóst var að Ísland hafði krækt í sigurinn, þegar það var orðið ljóst fóru sigursöngvar að heyrast frá íslensku stuðningsmönnunum.

Þótt útlitið hafi ekki verið bjart eftir fyrri hálfleikinn heyrði maður engar efasemdaraddir meðal stuðningsmanna Íslands á pöllunum og þegar sást að leikmennirnir höfðu fulla trú á verkefninu líka fílefldust stuðningsmennirnir. Á endanum hafði Ísland þriggja marka sigur, 26-23, og stuðningsmennirnir báðu um meira. Vonandi verður þeim að ósk sinni á fimmtudaginn kemur gegn Noregi.

Stefán Erlingsson


Svekktur Austurríkismaður í lok leiks. Mynd: Ari Hólm Ketilsson


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir