Strákurinn okkar, hann Adolf

Mynd: www.eurohandbal.com

Nú er enn eitt stórmótið í handbolta hafið og hefur sennilega ekki farið fram hjá mörgum landanum. Á öllum fréttamiðlum má finna viðtöl og umfjallanir um strákana okkar í landsliðinu, en við eigum einnig fleiri þáttakendur á mótinu.

 Það er hann Adolf Ingi Erlingsson sem hefur verið í mörg ár einn af aðal handboltaþulum landsins og fylgt landsliðinu á mörg stórmótin. Adolf er ekki í stóli lýsanda á þessu móti, heldur er hann farinn að vinna fyrir framan myndavélina að innslögum fyrir heimasíðu EHF.

Landpósturinn fór á stúfana og lagði fyrir Adolf nokkrar spurningar þar sem við komumst að því hvað hefði orðið til þess að hann sé farinn að vinna innslög fyrir EHF, handboltasamband Evrópu.

 Hvernig kom það til að þú fórst að gera innslög fyrir Evrópumótið?

 „Það byrjaði með því að ég var fenginn til að skrifa um leiki í riðli Íslands á EM í Slóveníu árið 2004 á vefsíðu EHF, því þá vantaði einhvern enskumælandi til þess. Ég gerði það jafnframt því að lýsa fyrir RÚV. Síðan tók Hrafnkell Kristjánsson við því á EM 2006 því ég var ekki á staðnum, en ég endurtók síðan leikinn á EM í Noregi 2008. Fyrir EM kvenna í Noregi og Danmörku 2010 höfðu þeir síðan samband við mig og spurðu hvort ég væri til í að gera myndbands-innslög þar því þeim langaði til að prófa að víkka út umfjöllun sína á heimasíðunni. Ég og Guðni Kristinsson, tæknimaður, forum og unnum þar lokadagana og þeim virtist líka það sem við gerðum, því í haust höfðu þeir samband á ný og leituðu eftir því að fá okkur á þetta mót”

 Gerirðu þau innslög sem kemur upp í huga þér eða ertu bundinn einhverju sérstöku, er þér til að mynda úthlutað verkefnum?

 „Við höfum talsvert sjálfræði í því sem við gerum og reynum bara að finna upp á ýmsum vinklum á mótinu, bæði skemmtilegum og fræðandi.  En þetta er samvinna og við erum í sambandi við þá sem vinna á vefnum og reynum að finna hugmyndir saman.”

 Nú hefur það oft verið samnefnari að þegar stórmót í handbolta eru í gangi að þá er Adolf að lýsa leikjum, saknarðu þess ekkert að lýsa leikjum Íslands eða er skemmtilegra að gera umfjallanir utan vallar og nálgast leikmenn og starfsmenn mótsins frá öðru sjónarhorni?

 „ Auðvitað sakna ég þess að lýsa fyrir íslensku þjóðina sem er það skemmtilegasta sem maður getur gert í þessu starfi.  Samt sem áður er þetta mjög skemmtileg vinna líka, en ég vildi heldur vera í hinu hlutverkinu.”

 Hvernig finnst þér Íslenska liðið hafa staðið sig á mótinu og hversu langt telur þú að það geti náð í mótinu?

 „ Því miður er ég ekkert of bjartsýnn á gengi okkar manna.  Mér finnst þeir hafa spilað mjög vel á köflum, en markvarslan hefur engan veginn verið nógu góð og án hennar er ekki hægt að vinna leiki á móti eins og EM.  Ég vona samt að þeir komist í milliriðilinn og ef það tekst held ég að 5-8 sæti sé raunhæft.”

 Telurðu að liðið sé veikara án þeirra Ólafs og Snorra?

 „ Auðvitað veikir það liðið eitthvað að missa tvo af bestu og reyndustu sóknarmönnum sínum.  Mér finnst strákarnir samt hafa leyst sóknarleikinn mjög vel án þeirra.  En báðir eru miklir leiðtogar og þeirra er saknað.”

 Hverja telur þú vera líklegasta til að vinna mótið?

 „ Frakkar eru auðvitað með besta liðið í heimi.  Þeir hafa besta leikmann heims, Karabatic, besta varnarmanninn, Dinart, besta línumanninn, Gille, og líklega besta markvörð heims, Omayer. Hinsvegar er spurningin hversu mikið hungrið er hjá þeim, þar sem þeir eru heims-Evrópu og Ólympíumeistarar. Auk þeirra hef ég trú á heimamönnum sem hafa rosalegan stuðning og fara með fullt hús stiga í milliriðil og þá eru Spánverjar líklegir.  Síðan má alls ekki afskrifa Króata sem eru nánast á heimavelli.”

Landpósturinn þakkar Adolfi kærlega fyrir viðtalið og lætur hér fylgja með vefslóð inn á öll innslög sem hann hefur unnið fyrir EHF.


 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir