Styrkveitingar til rannsóknarstarfa á Akureyri

Rannsóknarstyrkir  mikilvægir fyrir nemendur og kennara við Háskólann á Akureyri. Stuðlar að nýsköpun, hagvexti, þróun og aukinni þekkingu okkar á samfélaginu. Þekking sem nýtist ekki einungis fyrir Akureyri og nágrenni, heldur allt landið.

Rannsóknarstyrkir á Norðurlandi eru afar mikilvægir fyrir svæðið. Hægt er að sækja í nokkra sjóði og er tilgangur styrkjanna jafnan að efla rannsóknir og tengls þeirra við atvinnulíf á svæðinu. Rannsóknastarf við Háskólann á Akureyri er mjög fjölbreytt og þegar kemur að styrkúthlutunum hjá Rannsóknar- og þróunar-miðstöð Háskólans á Akureyri er að mörgu að hyggja.

Hægt er að sækja um styrk úr þrenns konar sjóðum. Þessir sjóðir eru Akureyrarsjóður, Rannsóknarsjóður Háskólans á Akureyri (RHA) og loks KEA Háskólasjóðurinn.

Akureyrarsjóður er ætlaður kennurum og nemendum Háskólans á Akureyri. Úr þessum sjóði er úthlutað í verkefni sem tengjast Akureyri eða nágrenni. Tilgangur Akureyrarsjóðs er styrkveitingar til smærri verkefna á ýmsum sviðum skólans, samstarfsstofnana og nemendafélaga.

Rannsóknarsjóður Háskólans á Akureyri er stærsti sjóðurinn en í hann geta starfsmenn á vegum skólans leitað. Þá er aðallega farið eftir vísindagildi rannsóknarverkefna við úthlutun styrkja.

Fjárfestingarfélag KEA veitir styrk til rannsókna en markmiðið sjóðsins er að auka rannsóknir tengdum bæjarfélaginu sjálfu, Eyjafirði og nærumhverfinu.

Sá sjóður sem skiptir Háskólann á Akureyri mesu máli er Rannsóknarsjóður Háskólans á Akureyri. Verkefni sjóðsins á sviði rannsóknaþjónustu fyrir Háskólann hafa aukist og einnig hefur færst í vöxt að HA kjósi að vista tiltekin verkefni hjá RHA. Tekjur RHA koma af rannsóknaverkefnum og ráðgjöf fyrir ýmsa aðila innanlands sem utan. Hlutverk sjóðsins er fyrst og fremst að efla rannsóknarstarfsemi við Háskólann á Akureyri og styrkja tengsl hans við atvinnulífið. Einnig er sjóðurinn mikilvægur fyrir þróun nýrra verkefna innan skólans. 

Bestu umsóknirnar fá hæstu styrkina

Fyrir efnahagshrunið voru nemendastyrkir í boði fyrir nemendur á mastersstigi við skólann en þeir voru felldir niður í kjölfar hrunsins. Þó er úthlutaður styrkur til þriggja hæstu nemenda á hverju námssviði fyrir sig. Þann styrk er ekki hægt að sækja sérstaklega um.

Þegar kemur að því að ákvarða upphæð hvers styrkhafa eru nokkrir þættir sem spila inn í. Ólína Freysteinsdóttir er verkefnisstjóri Rannsóknar- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Hún segir bestu umsóknirnar fá hæstu styrkina. Helst er farið eftir því hvað sótt er um. „Sumir sækja um fyrir ákveðinn verkþátt sem er kannski 300 þúsund krónur. Fólk fær þá einungis það sem það biður um. Síðan reynum við að fara eftir fjárhagsáætlun og sjáum hvar sé hægt að skera niður. Stundum eru verkefnin það góð að sjóðurinn vill ekki skera niður, en svo er misjafnt hvernig fjárhagsáætlunin er. Í rannsóknarsjóði fer allt eftir vísindagildi. Vísindagildinu er raðað í A, B og C flokk. Næst eru síðan valdar  umsóknir úr A og B flokk en þær umsóknir sem falla í C flokk uppfylla ekki þau skilyrði sem til þarf,“ segir Ólína.

Ólína hefur verið umsjónarmaður Rannsóknarsjóðsins við Háskóla Akureyrar síðastliðin fimm ár. Henni finnst breytingar ekki hafa verið miklar á úthlutunum. Ein milljón króna er yfirleitt hámarks úthlutun en það hafa verið gerðar undantekningar á einstaka umsóknum. Þá hafa verið veittar allt að ein og hálf milljón króna þegar mest lætur. Hlutfallslega séð telur Ólína að námsgreinar innan Háskólans á Akureyri fá jafna styrki til úthlutunar. „Við skoðum alltaf hvaða svið sækja um. Við skoðum einnig kynjahlutföll þeirra sem sækja um. Það eru ansi svipuð hlutföll þegar kemur að því úr hvaða námsgreinum fólk kemur sem fólk sækir um."

Peningarnir haldast á Norðurlandi
Fjármagn sem úthlutað er úr þessum sjóðum er fyrir rannsakendur á Akureyri. Það kemur þó fyrir að keyptir eru sérfræðingar úr Reykjavík. Það gerist líka að fundir eru haldnir í Reykjavík og það fylgir því aukinn kostnaður. Annars er peningum helst varið á Akureyri því rannsakendur eru yfirleitt búsettir þar. Mikill munur er í aðsókn um styrki á milli ára.

„Stundum koma ár þar sem við hefðum vilja sjá fleiri umsóknir. Árið 2011 vorum við svolítið hissa því við fengum óvenjufáar umsóknir. En í fyrra og í ár voru þær margar’’ segir Ólína að lokum. Þegar úthlutun styrkja síðustu 10 ár eru skoðuð kemur í ljós jákvæð þróun. Fjárveitingar hafa farið hækkandi og greinilegt sé að rannsóknarstarf við Háskólann á Akureyri er mjög fjölbreytt.

Heildarupphæð síðustu 10 ára úr Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri eru samtals tæplega 131 milljón króna. Árið 2003 voru styrkveitingar úr sjóðnum
 um 7,6 milljónir en voru rúmlega 14 milljónir fyrir árið 2012. Til samanburðar þá voru styrkveitingar úr Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands síðastliðin 10 ár um 3,8 milljarðar. Það er þó óraunhæft að bera þessa tvo skóla saman á þessu sviði. Því má líkja við að bera saman epli og appelsínur. Háskóli Íslands hefur þar verulegt forskot, enda hefur styrktarsjóðurinn verið þar lengi við lýði og fest sig í sessi. Háskóli Íslands er auk þess lang fjölmennasti Háskóli landsins.


Rannsóknarsjóður Háskólans á Akureyri mikilvægasti sjóðurinn fyrir nemendur
Páll Björnsson, prófessor á hug- og félagsvísindasviði við Háskólann á Akureyri, hefur fengið úthutað úr Rannsóknar-sjóði Háskólans á Akureyri þrisvar sinnum. Honum finnst sjóðurinn mikilvægur fyrir nemendur Háskólans. Hann telur styrkina veita gott tækifæri til að fá nasaþef af rannsóknarvinnu. Páll hefur aðallega notað styrkina til að borga nemendum og aðstoðarmönnum laun fyrir að finna heimildir um rannsóknar-efnið. Sú undirbúningsvinna getur verið tímafrek og ef styrkurinn væri ekki til staðar væru rannsóknir mun tímafrekari. Rannsóknir á félagsvísindasviði eru heppilegar að mati Páls því sjaldnast þarf að eyða miklu í efniskostnað. Í mesta lagi þarf að borga fyrir prentun á spurningalistum. Páll segir styrkina vanalega duga fyrir kostnaðinum, enda sé fjárhagsáætlunin samkvæmt úthlutuninni. Styrkirnir mættu þó alveg vera hærri að hans mati.

Páll segir Rannsóknarsjóð Háskólans á Akureyri vera mikilvægasta sjóðinn fyrir nemendur Háskólans. Kennarar geta vissulega sótt um aðra styrki eins og Rannís, Háskólasjóð KEA, sem og alþjóðlega styrki og styrki innan Evrópu. Úr nægu sé að velja en leita þurfi styrkina uppi. Nemendur hafa þó betri tækifæri til að taka þátt í rannsóknum styrktum af Rannsóknarsjóði Háskólans. Þátttaka gefur nemandum verklega þjálfun á sviði rannsókna og er það mikilvæg reynsla.

Styrkurinn notaður í ferðakostnað og til að borga nemendum laun
Elín Díanna Gunnarsdóttir er dósent á hug- og félagsvísindasviði við Háskólann á Akureyri. Hún fékk úthlutaðar 800 þúsund krónur úr Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri á þessu ári, til þess að rannsaka áhrif þverfaglegrar meðferðar. Styrkurinn fer aðallega í að greiða nemendum og aðstoðarmönnum laun, sem og borga fyrir ferðir og akstur vegna gagnaöflunnar. Elín segir að ef ekki væri fyrir styrkinn gæti rannsóknin mögulega orðið aðeins erfiðari. „Magn gagna sem maður kæmist yfir væri ekki jafn mikið og ályktanirnar sem dregnar eru af rannsókninni því ekki jafn nákvæmar og ef stærra úrtak væri tekið eða fleiri heimilda aflað,“ segir Elín.

Þegar Elín er spurð hvort hún telji sjóðinn mikilvægan fyrir Háskólann brosir hún og hlær. „Algjörlega, þetta er svo mikilvægt tækifæri fyrir nemendur til að taka þátt í rannsóknarvinnu.“ Að hennar mati mætti hann þó vera töluvert stærri svo að fleiri geti fengið úthlutun. Líklegra sé að fá úthlutun úr Rannís en sá sjóður sé aðeins fyrir sérfræðinga, ekki nemendur.

Nýr samningur sem eflir nýsköpun og eykur hagvöxt í Eyjafirði
Vaxtarsamningur Eyjafjarðar er samningur milli iðnaðarráðuneytisins (nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins) og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Atvinnuþróunarfélagið (AFE) og Iðnaðarráðuneytið undirrituðu í febrúar 2012 nýjan samning sem gildir fyrir árin 2012 og 2013, en áður hafði ekki verið samningur í gildi síðan 2010. 

Til úthlutunar eru 37,5 milljón á ári. Helstu markmið samningsins eru að efla nýsköpun á starfssvæði Atvinnuþróunarfélagsins og þétta innviði atvinnulífsins á svæðinu, sem og að auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja svæðisins, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins. Allir hafa möguleika á að sækja um styrk í Vaxtarsamninginn en þarf þá að uppfylla þau skilyrði að fyrirtæki, sveitarfélög eða stofnanir komi með a.m.k. sömu upphæð í verkefnið.

Alls hafa þrjú verkefni sem eru með Háskólann á Akureyri sem samstarfsaðila fengið styrk frá Vaxtarsamning. Þessi þrjú verkefni hafa fengið samtals 11 milljónir króna í styrk.

Þessi verkefni eru:

Þorskslóg í verðmæti: 6.000.000,- kr.
Verkefnisstjóri: Þorvaldur Þóroddsson.
Markmið verkefnisins er að sýna fram á að hægt sé að vinna með einföldum og hagkvæmum hætti ensímblöndur úr fiskslógi, sem nýta megi t.d. í fisk og kjötvinnslu. Þannig verði þróuð verðmæt afurð úr ónýttu og verðlausu hráefni.

Einangrun og vinnsla Astaxanthin: 3.000.000,- kr.
Verkefnisstjóri:Einar Matthíasson.
Markmið verkefnisins er að þróa þau skiljuferli sem þarf til einangra og vinna Astaxanthin sem fellur til í frárennslisvökvum við vinnslu í kítósanverksmiðju Primex.

Tækifæri Íslands á Norðurslóðum:2.000.000,-kr.
Verkefnistjóri: Halldór Jóhannsson.
Markmið verkefnisins er að taka saman, vinna úr og miðla upplýsingum sem varða samgöngur, mannvirki og auðlindanýtingu á Norðurslóðum.

Hópur 1
Elín Inga Halldórsdóttir
Eyþór Sæmundsson
Dagbjört Pálsdóttir
Heba Ýr Pálsdóttir Hillers
Signý Líndal


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir