Stytting fæðingarorlofs feðra

Ég verð að tjá mig aðeins um orð Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdarstjóra Atvinnulífsins. Hann vill meina að ,, alltof algengt sé að feður misnoti fæðingarorlofið og nýti það til annars en samvista við börn sín”. 

Hann vill því að fæðingarorlof feðra verði stytt. Nánar tiltekið um einn mánuð til að ná fram sparnaði.

Hvaðan hefur maðurinn þetta. Getur hann sýnt fram á einhver gögn sem að styðja þetta?

Mér er það óskiljanlegt að feður skulu ekki hafa látið í sér heyra. Hann vill að tekið verði af mönnum réttindi sem tók mörg ár að ná fram.

Nú veit ég vel að það þarf að skera niður og hef ég áður tjáð mig um það hérna á Landpóstinum. Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt hjá ríkisstjórninni að ráðast á fæðingarorlofskerfið, þó að ég voni innilega að hægt sé a finna aðra leið. Að mínu mati þá eru bæturnar á fæðingarorlofskerfinu kannski það besta sem komið hefur út úr uppgangstímum undanfarinna ára. Allavega fyrir hina ,,venjulegu“ fjölskyldu. 

Ef það þarf að skera niður á þessu sviði þá er það stórt skref afturábak frá hinu Norræna velferðakerfi sem að Íslendingar reyna helst að miða sig við.

Það skal taka það fram að félag ljósmæðra á Íslandi bendir á að fæðingarorlof hér er með því stysta sem gerist á Norðurlöndum.  Finnland hafi til að mynda 11 mánuði í fæðingarorlof, Svíþjóð eitt og hálft ár og Danmörk eitt ár. Hér er það 9 mánuðir. Þessir níu mánuðir eru nú samt talsvert betri en átta.

Feður eru loksins farnir að geta varið tíma með barninu sínu og sýnt því þá umhyggju sem þeir helst vilja og er barninu fyrir bestu.

Það er kannski ill nauðsyn að taka á sig skerðingu fæðingarorlofs. Ég skal glaður gera það, ef ekki eru til aðrar leiðir. En það fýkur í mig að framkvæmdarstjóri atvinnulífsins skuli voga sér að láta hafa það eftir sér að feður séu að gera eitthvað allt annað en að hugsa um börnin sín.

Ég veit það að ég á eftir að nýta mitt fæðingarorlof í það að sinna dóttur minni. Þeir feður sem að ég þekki hafa einnig nýtt sitt fæðingarorlof í að vera með börnunum sínum. Það er auðvitað vitað mál að það eru alltaf einhverjir sem að misnota aðstöðu sína í þessum málum, eins og í öllum öðrum. En er það ekki ólýðandi að allir skuli gjalda svörtu sauðanna?


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir