Sveitin heillar

Sverrir bóndi í góðra kinda hópi
Það gengur á ýmsu í íslensku bændasamfélagi, verðhækkanir á áburði og fóðri kemur illa fyrir flesta bændur sem voru ekki svo vel settir fyrir. Blaðamaður landpóstins tók hús á Sverri Friðrikssyni, sauðfjárbónda í Brekku í Eyjafjarðarsveit.

Hvað ertu með margar kindur?

Sverrir: Ég er með 230 fullorðnar kindur í dag.

Hvernig er að vera bóndi í dag?

Sverrir:Það er alltaf gott að vera bóndi. Það er erfið vinna en það er í sjálfu sér engin breyting frá fyrri árum eða áratugum. Útgjaldaliðirnir eru þó að verða með því allra mesta og eru sannarlega við þanmörkin.

Hvernig koma hækkanir á áburðarverði niður á bændum?

Sverrir: Þær koma mjög illa við bændur. Ég hugsa að það komi nokkuð jafnt niður á bændum óháð stærð þar sem áburðarnotkun er beintengd bústærð. Ef ég miða bara við sjálfan mig þá hefur afurðaverð á lambakjöti verið að skríða upp undanfarin 2-3 ár um örfá prósent. Síðan kemur 70-80 prósent hækkun á einn stærsta útgjaldaliðinn og það er að sjálfsögðu mikið áfall. Hafa ber í huga að hann var ekki ódýr fyrir. Ég get nýtt búfjáráburð betur en ég hef gert en það kostar einfaldlega mun meiri vinnu svo þetta kemur mikið til niður á það sama. Einnig hækkar aðkeypt fóður en það kemur talsvert verr við kúabændur en flesta sauðfjárbændur, hygg ég. Þetta tvennt mun líklega hækka meira á næstunni og maður veltir auðvitað fyrir sér hversu mikla vinnu er hægt að leggja á sig einungis fyrir útgjöldunum.

Er sauðfjárbúskapur vaxandi búskapur eða fer þeim fækkandi sem það stunda?

Sverrir: Þeim fer mjög hratt fækkandi. Sauðfénu sjálfu hefur fækkað um helming á síðasta aldarfjórðungi svo að beit er nú mjög hófleg og raunar mátuleg, þótt ákveðin úrill leikkona hafi haldið öðru fram.

Hvernig er daglegt líf bóndans?

Sverrir: Það er afar fjölbreytt eftir árstíðum. Sauðburður, heyskapur og göngur/réttir/sláturtíð eru með þeim tímum sem mest gengur á og verkin þar í kring ganga fyrir öllu öðru. En þótt rólegt geti verið yfir háveturinn er alltaf hægt að finna eitthvað að gera.

Eitthvað sem þú vilt koma að að lokum?

Sverrir: Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga. Svo éta lömbin þau.

Blaðamaður Landpóstsins þakkar Sverri fyrir spjallið og óskar honum velfarnaðar í búskapnum.

Mynd: Elísabet K. Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir