Flýtilyklar
Afglæpun fíkniefna? Lausn við stríðinu gegn fíkniefnum
Árið 1961 héldu Sameinuðu þjóðirnar ráðstefnu sem bar nafnið ,,alþjóðasamningur um ávana- og fíkniefni" og hafði það markmið að leiðarljósi að útrýma framleiðslu og neyslu á ólöglegum efnum eins og t.d. kannabis, kókaín og opíum.
Alls skrifaði 61 þjóð undir sáttmálann. Með þessari ráðstefnu var sett blátt bann á notkun fíkniefna, nema væri hún gerð í læknisfræðilegu skyni sem átti við afmörkuð efni.
Afglæpun er ólík lögleiðingu
Afglæpun er lagaleg afstaða þar sem ákveðin athöfn er ekki álitin saknæm, m.ö.o. er ekki lengur litið á viðkomandi athöfn sem glæp. Með tilliti til fíkniefna þá er oftast verið að vísa til eftirspurnar, þ.e.a.s. því sem varðar notkun, eignarhald eða kaupum á efninu. Með þessu sagt er samt sem áður litið á þessar athafnir sem ólöglegar, munurinn er sá að ríkið mun ekki sækja þig til saka fyrir athæfið. Þó svo getur verið möguleiki á beitingu viðurlaga eins og sekt, svipting bílprófs eða viðvörun. Ólíkt afglæpun, þá snýst lögleiðing um að koma ákveðinni athöfn undir hatt laganna. M.t.t. fíkniefna er algengast að átt sé við um framboð efnisins, þ.e.a.s. framleiðslu og sölu sem ekki er ætluð læknisfræðilegum tilgangi. Með lögleiðingu er farið með athafnir eins og notkun og eign efnanna eftir ákveðnum stöðlum. Gott dæmi um slíkt er hvernig sölu og dreifingu áfengis og tóbaks er háttað víðast hvar. Lagalegar skilgreiningar geta þó lagt ákveðna höft yfir afmarkaða þætti, sem jafnvel geta verið studdar af viðurlögum, t.d. varðandi ungmenni eða áhrif undir stýri. Lögleiðing slær gegn viðmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Árangur í Portúgal
Árið 2001 var banni á eiturlyfjum aflétt í Portúgal. Portúgölsk stjórnvöld álitu svo að besta forvörnin gegn fíkniefnum væri að afbanna þau. Samkvæmt nýja lagarammanum var ekki verið að lögleiða fíkniefni, heldur einungis aflétta banninu. Með því er átt við að það má einungis nota þau í litlu magni. Markmiðið með nýju lögunum var að minnka misnotkun og notkun eiturlyfja, minnka HIV smit, beina athyglinni á fyrsta stigs forvörnum, bæta heilsugæslu, auka aðgengi og víkka meðferðarsvið svo fleiri eiturlyfjafíklar með mismunandi fíkn gætu komist að, og að gefa fíkli val um að fara á meðferðarheimili eftir fyrsta fíkniefnabrot, en fangelsisdóm eftir annað brot.
Með afléttun bannsins fóru yfirvöld að meðhöndla fíkn sem heilsuvandamál í stað þess að líta á hana sem lögbrot eins og í Bandaríkjunum. Síðan Portúgalar samþykktu lög um afglæpun árið 2001, hefur neysla innan margra fíkniefnaflokka minnkað. Neysla innan sumra flokka hafa þó hækkað en lítillega. Upphaflegar áhyggjur um algera upplausn hafa ekki ræst. Ef eitthvað, hefur neysla fíkniefna minnkað og í kjölfar hefur myndast ákveðið aðhald að þeim samfélagslegum meinum sem fíkniefnaneysla hefur í för með sér. Þessi áhrif sjást í rannsóknum þar sem verið er að bera saman þau EU lönd sem hafa tekið í notkun lög um afglæpun við önnur lönd sem vilja halda áfram að banna og refsa fyrir fíkniefnaneyslu.
Síðan til afglæpunarlaganna kom hefur neysla innan ákveðinna aldurshópa minnkað. Hér er miðað við neyslu einhverntíman á lífsleiðinni. Neysla meðal 7. og 9. bekkinga hefur lækkað úr 14,1% frá árinu 2001 í 10,6% árið 2006. Neysla meðal 10. til 12. bekkinga hækkaði úr 14,1% frá árinu 1995 í 27,6% árið 2001, árið sem afglæpunarlögin voru sett. En eftir lagabreytinguna lækkaði þessi tala niður í 21,6%. Fyrir sama aldurshóp hefur tíðni geðraskanna vegna neyslu geðvirkra efna lækkað eftir afglæpun. Meðal 19 til 24 ára einstaklinga hefur neysla efna hækkað lítillega til miðlungsmikið frá árinu 2001 til 2006. Lífsalgengni fíkniefnaneyslu hefur hækkað fyrir eldri aldurshópa, en lítillega frá aflgæpun. Slík þróun er óhjákvæmileg í öllum löndum, óháð stefnu stjórnvalda varðandi fíkniefni. Þróunin stendur óháð því hvort að það sé raunveruleg aukning í neyslu meðal landsmanna eða ekki.
Rannsókn sem náði til 15 Evrópulanda
Niðurstöður einnar rannsóknar, sem náði til 15 Evrópulanda, voru þær að þar sem notkun og eignarhald á fíkniefnum er ekki gert ólögleg er tíðni fíkniefnanotkunar engu hærri en í löndum þar sem eignarhald fíkniefna er álitið ólöglegt. Þessar niðurstöður ganga þvert á fullyrðingar fræðimanna að lögleiðing fíkniefna muni leiða af sér hærri tíðni fíkniefnanotkunar. Í sömu rannsókn mátti sjá að í þeim löndum þar sem eignarhald á fíkniefnum til einkanota hefur verið afglæpuð eru ungmenni 79% ólíkegri til að hafa neytt fíkniefna síðastliðinn mánuð. Í samanburði þar sem slíkt hið sama er álitið refsivert athæfi eru ungmenni 42% líklegri að hafa neytt fíkniefni fyrir sama tímabil.
Árangur í Hollandi
Holland er fyrsta þjóðin í Evrópu til að hafa nokkuð skýra vímuefnastefnu og hafa verið duglegir við að endurmeta hana. Árið 1972 voru sett fram lög um að leyfa kaffihús sem seldi kannabis, en þeir álitu svo að sala á kannabis væri ólögleg en ekki refsiverð og þar að leiðandi að neytendur yrðu frekar álitnir sjúklingar fremur en glæpamenn. Árangur Hollendinga getur talist nokkuð góður þar sem aukin áhersla á meðferðarúrræði hafa orðið til betrunar. Árin 1997, 2001 og 2005 voru gerðar kannanir á landsvísu í Hollandi, en fram kom að frá 1997 til 2001 hafði hlutfall 15 til 64 ára einstaklinga sem höfðu einhverntíman á lífsleiðinni neytt kannabis haldist stöðugt eða 19,1% og 19,5%. Samkvæmt upplýsingum frá NEMESIS frá 2007 - 2008 var áætlað að einungis 0,1- 0,5% fólks á aldrinum 18 - 64 myndi ná viðmiðum DSM-IV um kannabis fíkn og um 0,2 - 0,6% flokkast með ofnotkun. Samkvæmt rannsókn EMCDDA frá 2009 kom fram að um 7% einstaklinga allra EU landa hafa notað kannabis að undanförnu ári en í samanburði er tala Hollendinga áætluð vera um 5% sem er undir meðaltalinu. Sprautunotkun hefur minnkað og gert er ráð fyrir því um að 10% af 33.500 fíklum í Hollandi sprauta sig, en einnig hefur minni notkun sprauta leitt til færri HIV og lifrabólgu tilfella. Fleiri neytendur hafa leitað sér meðferðar en áður fyrr, en árið 1994 leituðu 16 af 100.000 íbúum sér aðstoðar vegna kannabisfíknar en árið 2008 var talan komin upp í 62 af hverjum 100.000 íbúum.
Tölfræðin talar sínu máli óháð persónulegu gildismati. Það er hollt og gott að spyrja sig hvaðan eigin hugmyndir koma og hvort þær eigi sér stoð í raunveruleikanum. Við verðum að spyrja okkur hvort að fíkniefnaneytendur séu í raun glæpamenn sem eigi að loka inni eða hvort þetta séu sjúklingar sem þurfa í raun skilning og meðferð. Hvaða gagn gerir það að útskúfa einstakling úr samfélaginu með refsingu, og hvaða afleiðingar hefur það í för með sér?
Heimildir
EMCDDA. (2001). Decriminalisation in Europe? Recent developments in legal approaches to drug use. Sótt af http://www.emcdda.europa.eu/html.cfm/index5734EN.htmlEMCDDA. (2005). Illicit drug use in the EU: legistative approches. Sótt af http://www.emcdda.europa.eu/html.cfm/index34041EN.htmlGreenwald, G. (2009) Drug Decriminalization in Portugal: Lessons for Creating Fair and Successful Drug Policies. Washington: Cato Institute. Sótt af http://www.cato.org/sites/cato.org/files/pubs/pdf/greenwald_whitepaper.pdfMacCoun R., Reuter P.(2001). Drug War Heresies: Learning from Other Vices, Times, and Places. New York: Cambridge University Press. Sótt af http://books.google.is/books/about/Drug_War_Heresies.html?id=5QEUyLaZYjAC&redir_esc=yde Quartel, J. (2004). Country Profile – The Netherlands. Lisbon: EMCDDA. Sótt af http://www.emcdda.europa.eu/attachements.cfm/att_142770_EN_NL-NR2009.pdfRoom, R. og Reuter, P. (2012). How well do international drug conventions protect public health? The Lancet, 379(9810), 84-91. http://dx.doi.org/10.1016/S0140-6736(11)61423-2United Nations Treaty Collection. (1964). Chapter VI. Narcotic drugs and psychotropic substances. Sótt af http://treaties.un.org/Pages/ViewDetails.aspx?src=TREATY&mtdsg_no=VI-15&chapter=6&lang=enUNODC. (2012). World Drug Report 2012. Sótt af http://www.unodc.org/documents/data-and-analysis/WDR2012/WDR_2012_web_small.pdfVulvo, M. (2013). National-level drug policy and young people’s illicit drug use: A multilevel analysis of the European Union. Drug and Alcohol Dependence, 131(1-2), 149-156. http://dx.doi.org/10.1016/j.drugalcdep.2012.12.012
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir