Lausn í flugvallardeilunni?

Mynd: gizmag
Í fréttum síðustu mánaða hefur mikið verið rætt um stöðu Reykjavíkurflugvallar og staðsetningu hans í Vatnsmýrinni. Kosningar fóru fram í Reykjavík árið 2001 þar sem naumur meirihluti borgarbúa vildi að flugvöllurinn flytti sig annað fyrir árið 2016. Borgaryfirvöld hafa stjórnarskrárvarinn rétt til að ráðstafa landi innan borgarmarka, þar með talið Vatnsmýrina, og hafa unnið samviskusamlega að borgarskipulagi í samræmi niðurstöðu kosninganna 2001. Deila má þó um hversu öruggt það er að hafa spítala í mikilli fjarlægð frá íbúum landbyggðarinnar.
Vissulega er það rétt að hvorki Osló né Stokkhólmur hafa innanlandsflugvöll í miðbænum en í hvorug þessara borga hefur einu slysadeildina í landinu líkt og staðan er á Íslandi. Einnig vekur þetta upp spurningar um hversu hátt skatthlutfall fer frá landbyggðinni tilhöfuðborgarinnar sem verður brátt í svipaðri fjarlægð og Kaupmannahöfn. En gleymum því ekki að eftirspurn eftir húsnæði miðsvæðis í Reykjavík er mikil og nauðsynlegt er að þétta byggðina að einhverju leyti. Vandamálið virðist þá liggja í því hversu mikið pláss þessi blessaði bretavöllur tekur.Hér á Íslandi er fyrst og fremst notast við Fokker-skrúfuvélar. Það sem gleymist nær alltaf í íslenskum framtíðaráætlunum er að gera ráð fyrir tækniframförum, Spegillinn á Rás 2 má alveg taka það til sín, en þrátt fyrir ítarlegar umfjallanir um flugvöllinn hafa aldrei verið viðraðar hugmyndir um hvað gæti tekið við af gömlu skrúfuvélunum. Hugsanlega þá eitthvað sem tekur minna pláss? Það sem tekur mesta plássið eru auðvitað flugbrautirnar þrjár, hvað með eitthvað sem þarf enga flugbraut? Tökum sem dæmi tilraunavélar á markaði frá AugustaWestland og Bell flugvélaframleiðendunum. Það eru vélar sem taka lóðrétt á loft og snúa síðan hreyflunum til þess að fljúga lárétt á sama hátt og skrúfuvélar. Tilraunavélarnar eru vissulega minni en Ásdís, Sóldís og hvað þær heita aftur hjá Flugfélaginu, en hver segir að þær geti ekki stækkað. Spurningin er þá alltaf fjármagn til að kaupa inn slíkar vélar til að sinna innanlandsflugi, en spyrjum þá á móti hvað það kostaði aftur að byggja nýjan völl uppi á Hólmsheiði? Á meðan við bíðum eftir að lóðréttu vélarnar stækki getum við tekið í gagnið fyrirrennara skrúfuvélanna, þ.e.a.s. sjóflugvélarnar. Þróun þeirra hefur ekki staðið í stað þrátt fyrir að Íslendingar hafi orðið ástfangnir af Fokker og eru þær víða í notkun á stöðum sem ekki hafa flugvelli líkt og í Alaska og hinum ýmsu smáeyjum. Það góða við þær er að þéttbýli á Íslandi er oftast við strönd eða tiltölulega nálægt stönd. Vandamálið er hinsvegar geðklofa veður hér á landi.
Hugmyndin er þá að gefa höfuðborgarbúum pláss til að byggja fleiri kynfæralagaðar verslunarmiðstöðvar, kaffihús eða hvaðeina sem þeim dettur í hug. En á sama tíma tryggja greiðan aðgang okkar á landsbyggðinni að þjónustu. Flugbrautirnar sjálfar myndu hverfa á braut en flugvallarsvæðið yrði á milli Háskólans í Reykjavík og Skerjafjarðar. Landgöngubrú út í Nauthólsvíkina þar sem sjóflugvélarnar færu á loft. Þetta mætti gera í nokkrum áföngum sem gæti endað með flugpöllum á Skerjunum fyrir utan Álftanes, það þarf enginn að segja mér að höfuðborgarbúum dreymi ekki um jarðgöng frá Hafnarfirði í miðbæinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir