Flýtilyklar
Örkin hans Nóa gat raunverulega borið öll dýrin
Um þessar mundir er Nói á hvíta tjaldinu í kvikmyndahúsum um allan heim. Söguna þekkja flestir, meðal annars úr sunnudagaskólanum, þar sem þetta er ein þekktasta biblíusagan. Menn eru samt á misjöfnu máli um það hvort bókin eða myndin sé betri og sumir trúarhópar hafa jafnvel fordæmt myndina fyrir það að skrumskæla sjálfa söguna.
Hvort sem menn trúa því að sagan sé sönn eða ekki þá hafa vísindamenn við háskólann í Leicester engu að síður reiknað það út að samkvæmt þeim fyrirmælum sem Nói fékk og eru tiltekin í Biblíunni þá gat örkin flotið. Ekki nóg með það heldur gat hún borið um 70.000 dýr, sem þýðir um það bil tvö af hverri tegund.
Í fyrstu Mósebók í Biblíunni kemur fram að Guð hafi sagt Nóa að smíða örk. Átti hún að vera úr góferviði og bikuð að innan og utan. Lengd arkarinnar átti að vera fimmtíu álnir og hæðin þrjátíu álnir. Samkvæmt útreikningum vísindamannanna var ein áln á þessum tíma um 48,2cm. Því hefði örkin hans Nóa verið um 144 metra löng.
Með því að reikna út meðal þyngd dýranna og nota svo lögmál Arkimedesar um flotkraft gátu vísindamennirnir komist að því að örkin hefði getað siglt með um 70.000 dýr innanborðs. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að Nói hefði þurft að bjarga um 35.000 dýrategundum. Þetta merkir að hann hefði getað tekið tvö dýr af hverri tegund. Rétt eins og Guð sagði honum að gera.
Thomas Morris, einn þeirra sem vann að rannókninni, sagðist hafa orðið nokkuð hissa á niðurstöðunni. Hann sagðist ekki endilega hafa litið svo á að Biblían væri vísindalega rétt og því hafi þetta komið þeim skemtilega á óvart. Hann tók það fram að tilgangur rannsóknarinnar hafi samt ekki verið að sanna að þetta hafi gerst en að þeim hafi samt tekist að sanna að þetta hefði getað gerst.
Í rannsókninni var einnig tekið fram að ekki hafi verið reiknað út hvort öll þessi dýr hefðu getað komist fyrir inni í örkinni. Það er hugsanlega ágætis rannsóknarhugmynd fyrir næsta hóp.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir