Þá duttu dauðu lýsnar

Umdeilanleg auglýsing

Í Fréttablaðinu laugardaginn 29.mars var bæði frétt og einnig auglýsing um að söfnun væri að fara af stað fyrir Hannes Hólmstein Gissurason. Þá peninga sem safnast á að nota til að borga þær fjársektir sem yfir honum hanga. Ég spyr, er þjóðfélagið orðið þannig að munurinn á réttu og röngu er að engu orðinn? Mega þeir sem eru í háum stöðum í þjóðfélaginu gera það sem þeim sýnist? Eða er meiningin að safna næst fyrir nauðgara eða morðingja?

 

Friðbjörn Orri Ketilsson er einn af þeim sem fyrir söfnuninni standa; „Hannes á marga góða að og það er mikilvægt að hjálpast að þegar auðmenn gera árásir á þá sem ekki eru auðmenn“ er haft eftir Friðbirni. Kanski er ég orðin bæði gömul og gleymin, en þar sem að það er ekki svo langt síðan að ég heyrði frétt um þetta í útvarpinu, þá minnir mig að atburðarrásin hafi verið einhvernvegin svona: Hannes Hólmsteinn skrifar frekar stórtæka grein um Jón Ólafsson, og skrifar hana auk þess á enskri tungu, byrtir á opinberum vettvangi og neitar að draga hana til baka og biðja afsökunar þegar Jón fer fram á það. Þar sem að grein Hannesar snérist eingöngu um það að Jón væri með óhreint mjöl í pokahorninu og hefði komist í álnir á ólöglegan hátt, er, að mér finnst, eðlilegt að Jón vilji fá ummælin dæmd „dauð og ómerk“ eins og oft gert. En þar sem Hannes vildi engar sættir í málinu þá fer þetta fyrir dóm. Hannesar val og hans að taka afleiðngunum.

Ég tek það fram að ég hef ekkert rosalegt álit á hvorugum þessara manna, svo það er ekki að ég sé að taka afstöðu með eða á móti í þessu máli.

Í auglýsingunni um fjársöfununia var einnig komið að því að Hæstiréttur hefði dæmt Hannes til hárra fjárútgjalda „...fyrir að hafa skrifað bók sem hann mátti víst ekki skrifa. Hann var dæmdur til að bæta fjártjón sem allir vita að ekkert var.“ Ég varð eiginlega alveg orðlaus þegar ég las þetta og þá duttu mér allar dauðar lýs úr höfði, eins og máltækið segir. Í fyrsta lagi þá er það víst alkunna að fólk er dæmt í fjársektir fyrir að fara ekki eftir lögum, algerlega óskylt því hvort fjártjón hafi orðið. Ég er t.d sektuð fyrir að keyra of hratt eða tala í síma undir stýri þótt ekkert fjárhagslegt tjón hafi orðið á þessum verknaði mínum. Þetta er þá bara mitt fjártjón fyrir að fara ekki að lögum. Það nákvæmlega sama gildir um Hannes, eða ætti að gilda. Í öðru lagi, þá var, að ég held, enginn sem bannaði honum að skrifa þessa blessuðu bók, en honum hlýtur að vera bannað að stunda ritstuld rétt eins og okkur hinum. Það ætti hann að vita manna best verandi búinn að kenna nemendum Háskóla Íslands þessi fræði. Það finnst mér gera brot hans ennþá alvarlega en ella, ekki gerir hann þetta af hreinum barnaskap, eða hvað? Eða er allt í lagi að eigna sér texta annara eftir daga þess?

Í sama Fréttablaði er innblað sem ber nafnið „Darfúrblaðið 2008“, en þar er rakið hörmungarástandið í Darfúr og ábyrgð okkar að leggja öllu því saklausa fólki, sem þar þjáist, lið.

Rétt að lokum, ein samviskuspurning til okkar allra: Hvort er nú réttlætanlegra að leggja honum Hannesi Hólmsteini til nokkra þúsundkalla, svo hann geti borgað sekt sína án nokkurar fyrirhafnar, eða borga gíróseðil sem Hjálpastarf kirkjunnar sendi nýverið til styrktar nauðstöddum í Darfúr?

 

Eigið samviskugóðar stundir.

Elísabet Katrín Friðriksdóttir

Myndir: Elísabet K. Friðriksdóttir

Heimildir: Fréttablaðið.(2008, 29. mars).


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir