„Ţađ verđur líklega dálítiđ annar hljómur í okkur"

Valgerđur Schiöth. Mynd: VS
Það var tilhlökkun í Valgerði Schiöth þegar Landpósturinn hafði samband við hana í tilefni af væntanlegu ferðalagi Kirkjukórs Laugalandsprestakall. Kórfélagar ætla að leggja land undir fót í fyrramálið, því á sunnudaginn munu þau syngja við messu í Hallgrímskirkju í Reykjavík. „Við erum vön að syngja á þröngum messuloftum í yndislegu, litlu sóknarkirkjunum okkar“ segir Valgerður og bætir svo hlægjandi við „en það nú er svolítið eins og að syngja ofan í bréfpoka.“
Í Hallgrímskirkju er hefð fyrir því að í hverri messu er sunginn í það minnsta einn sálmur eftir Hallgrím Pétursson. Kórinn mun virða þá hefð en auk hans og annars sem verður á messuskránni, er vert að nefna tvo athyglisverða sálma.

„Maríusonur mér er kalt“ er sálmur eftir Guðmund frá Sandi en móðir Valgerðar, Sigríður Schiöth, söngstjóri samdi lag við sálminn. Ingbjörg Bjarnadóttir í Gnúpufelli bætti síðar öðru erindi við og verða bæði erindin sungin í messunni á sunnudaginn.


Þá mun kórinn einnig flytja sálminn „Credo in unum Deum“ (Ég trúi á einn Guð) sem er trúarjátning. Sálmurinn er frá því fyrir siðaskipti og því kaþólskur. Þetta er tvíradda sálmur þar sem inn í röddunina blandast hinn íslenski fimmundarsöngur, en sálmurinn er talin ein elsta heimild um fjölröddun sem varðveist hefur á Norðurlöndum. Textann og nótur skráði Jón Þorláksson skrifari í handrit og skráningin fór fram í Munkaþverárklaustri árið 1473. Skinnbúturinn sem sálmurinn er skráður á er það eina sem varðveist hefur af því skinnhandriti, en Árni Magnússon fékk bútinn hjá eyfirskum bónda árið 1715.  Saga sálmsins er því mikil og kórfélögum þykir vænt um tenginguna við Munkaþverárklaustur. Reyndar svo að þau sungu hann í fyrsta sinn á allrarheilagrarmessu í nóvember síðast liðinn, í Munkaþverárkirkju.

Eyfirðingar munu eiga fleiri fulltrúa í messunni í Hallgrímskirkju því Daníel Þorsteinsson kórstjóri mun stýra kór sínum, Björn Steinar Sólbergsson organisti verður undirleikari og héraðsprestur Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis sr. Guðmundur Guðmundsson mun prédika.
Í kirkjukór Laugalandsprestakalls eru um 30 manns og það verður mikil mæting í ferðina. Kórinn mun hefja sunnudaginn á æfingu í kirkjunni, en á laugardagskvöldinu er stefnan tekin á leikhúsferð í höfuðborginni „til að nota ferðina“ eins og Valgerður orðar það glottandi.

En það er greinilegt að hugur Valgerðar er þegar kominn í Hallgrímskirkjuna. „ Æi já, ég hlakka mikið til, það verður nú líklega dálítið annar hljómur í okkur í Hallgrímskirkjunni en við erum vön. Það verður gaman að heyra hvernig tónninn berst aftur til okkar meðan við syngjum.“ segir brosandi Valgerður Schiöth að lokum.

Landpósturinn þakkar Valgerði fyrir spjallið og óskar henni og kórfélögunum öllum góðrar ferðar og skemmtunar.


    

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir